Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:23:51 (6346)

1997-05-13 17:23:51# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:23]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni nokkuð viðamikið frv. sem legið hefur fyrir þinginu um hríð og verið til umfjöllunar í allshn. og er ekki að sjá á áliti nefndarinnar að mjög skiptar skoðanir séu um það, að öðru leyti en því að bent er á brtt. nefndarinnar, sem hún reyndar er sammála um, um að hækka svokallaðan sjálfræðisaldur úr 16 árum í 18 ár. Ég vil leggja orð í belg um það atriði málsins en ekki að öðru leyti um frv., enda sýnist mér það vera óumdeilt að svo miklu leyti sem ætla má af umræðunni og nál.

Mér finnst þau rök mjög athyglisverð sem færð eru fyrir því að nauðsynlegt sé að seinka því að börn verði unglingar og beri ábyrgð á athöfnum sínum að einhverju marki. Þau rök sem helst eru færð fram í frv. og eru tekin upp í nál. eru þess eðlis að ástæða er til að staldra við röksemdafærslu af því tagi. Fyrst er nefnt að þjóðfélagsaðstæður hafi breyst og þá á þann veg að ungmenni búi nú í foreldrahúsum fram undir tvítugt og njóti stuðnings foreldra. Þetta kann allt að vera satt og rétt, en að draga þá ályktun af þeirri breytingu að unglingunum sé ekki lengur treystandi til þess að hafa sjálfræði, að svo miklu leyti sem það er skilgreint í núgildandi lögum, og seinka því um tvö ár er algerlega órökstutt. Ég fer fram á það við frsm. að hann útskýri hvað standi á bak við þá röksemdafærsla nefndarinnar sem er í fyrsta sæti fyrir breytingunni. --- Af því að ég sé að frsm. nefndarinnar hefur ekki haft svo mikið við að leggja við eyru til að fylgjast með umræðunni, þá held ég verði bara að fara yfir það aftur fyrir nefndarformanninn.

Aðalatriðið fyrir því að nefndin leggur til þessa breytingu er sú staðreynd sem hér er dregin fram að þorri íslenskra ungmenna búi nú í foreldrahúsum fram undir tvítugt. Það er staðreynd sem dregin er fram. Ég efa ekki að hún sé rétt en ég spyr: Hvernig er það rökstutt að sú staðreynd leiðir til þeirrar niðurstöðu ... --- Herra forseti. Ég á ákaflega erfitt með að leggja spurningu fyrir formann allshn. þegar formaðurinn er ýmist ekki í salnum eða á tali við aðra þingmenn undir minni ræðu.

(Forseti (ÓE): Nú er formaðurinn í salnum og ekki á tali.)

Ég vænti þess að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að þingmenn beini athyglinni að ræðumanni eins og vera ber á þingfundi, sérstaklega sá hv. þm. sem er hér að bera fram og ber ábyrgð á brtt. og tillögum nefndar um mál.

(Forseti (ÓE): Já. Forseti gerir það.)

Ég held að ég verði að fara yfir það í þriðja sinn fyrir hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur í þeirri von að það takist að koma spurningunni til hv. þm. þannig að ég geti átt þess von að hv. þm. muni svara. (Gripið fram í.) Hvernig rökstyður hv. þm. að sú staðreynd að börn og unglingar dvelja lengur í heimahúsum fram undir tvítugt, eins og sagt er, leiði til þess að þeim sé síður treystandi til að hafa sjálfræði í eigin málum en áður var? Hefur þeim farið eitthvað aftur við þetta? Að hvaða leyti hefur unglingunum farið aftur frá því sem áður var þannig að taka þurfi burtu þann rétt, sem þeir áður öðluðust við 16 ára aldur og færa hann til 18 ára aldurs? Ég fæ ekki skilið að þessi staðreynd sem nefnd er sem fyrsta atriði til rökstuðnings fyrir breytingunni færi fram nein rök fyrir ályktuninni, sem nefndin dregur, að unglingunum sé ekki treystandi í sínum málum lengur. Það er algerlega órökstutt. Það verður auðvitað að gera þá kröfu til þingnefndar þegar hún leggur það til að skerða réttindi þúsunda ungmenna, að fyrir því séu færð frambærileg rök. Það kann auðvitað að vera að löggjafinn telji ástæðu til og nauðsynlegt að skerða réttindi stórs hóps þjóðfélagsþegna en þá verða að vera fyrir því almenn og gild rök. Ég hef ekki heyrt neitt fært fram um það í umræðunni að í þessum aldurshópi hafi orðið sú breyting á atgervi eða hegðun unglinganna að taka verði þessi réttindi af þeim. Og þar sem nefndin leggur til þessa almennu breytingu, þá hljóta að vera einhver almenn vandamál uppi. Það er ekki hægt að færa einhver sértæk vandamál sem rök fyrir almennri réttindaskerðingu. Það verður að bera fram í málinu rök um almenn vandræði sem er verið að afstýra með tillögunni. Þetta er sú röksemd sem fyrst er nefnd af hálfu nefndarinnar og hún er, eins og ég hef sýnt fram á, algerlega órökstudd.

[17:30]

Í öðru lagi er nefnt að ungmenni hafi minnkandi atvinnumöguleika og skólaganga sé lengri og þetta tvennt leiði til þess að þau séu síður fær um að framfæra sig sjálf eða reka heimili. Við skulum aðeins líta á þetta. Þá spyr ég: Leiðir lengri skólaganga til þess að draga eigi úr þessum réttindum? Hvers vegna ber að hækka sjálfræðisaldur þótt unglingar séu lengur í skóla nú en áður? Er nefndin að gera því skóna að skólagangan hafi svona slæm áhrif á unglingana að þeim fari beinlínis aftur miðað við jafnaldra þeirra meðan þeir stunduðu skólagöngu skemur?

Minnkandi atvinnumöguleikar. Hvert er samhengið á milli minnkandi atvinnumöguleika og hækkandi sjálfræðisaldurs?

Ég heyrði einnig að sá ræðumaður sem var hér síðast, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, dró saman í máli sínu rökin fyrir sér og þingheimi og fyrsta atriðið sem þingmaðurinn nefndi var samræming við erlenda löggjöf. Það eru ekki beysin rök að það eitt að eitthvað sé öðruvísi einhvers staðar í útlöndum þýði að við þurfum að breyta. En þetta eru þau rök sem frsm. málsins annars vegar og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafa sett í efsta sæti fyrir því að draga þurfi úr réttindum ungmenna. Það er það sem er verið að gera. Það er verið að taka stóran þjóðfélagshóp og draga úr réttindum hans. Það hljóta að vera viðbrögðin við einhverjum vanda sem uppi er og ég spyr: Hvert er vandamálið? Það hefur ekki verið upplýst í umræðunni hvert vandamálið er sem uppi er í hópi 16--18 ára unglinga á Íslandi í dag og enn síður að rök hafi verið færð fyrir því að það vandamál réttlæti þessa tillögu sem á algerlega eftir að færa rök fyrir. (Samgrh.: Það er nú ekki alveg rétt.) Hvað er það sem er ekki alveg rétt? (Samgrh.: Það er búið færa góð rök fyrir þessu máli.) Ég heyri að það liggur vel á hæstv. samgrh. í dag, enda var verið að dreifa hafnaáætlun áðan og áhyggjunum á borði hans hefur fækkað ögn.

Herra forseti. Mig langar að benda á eitt atriði sem ég hygg að hafi ekki verið nefnt í umræðunni en hefur fram til þessa verið ákvarðað með hliðsjón af þessum lögum. Það eru lögin um tekjuskatt og eignarskatt. Það sem í þeim stendur og lýtur að ungmennum hefur verið ákvarðað með hliðsjón af þessum lögum og ef við breytum því hér, þá er líklegt að það kalli á breytingu á hinum lögunum og ekki síður vegna þess rökstuðnings sem færður er fram í málinu. Þannig háttar til í lögum um tekjuskatt og eignarskatt að skattkort er gefið út við 16 ára aldur. Þá verða menn fullorðnir í skilningi skattalaga, fá skattkort og persónuafslátt, en fram að þeim tíma eru börnin skattlögð öðruvísi og hafa ekki persónuafslátt vegna þess að þau eru á framfæri foreldra sinna og því er meðferðin öðruvísi. Ef við færum sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár og sérstaklega með hliðsjón af þeim rökum sem hér eru færð fram, þ.e. minnkandi atvinnumöguleikar, lengri skólaganga og þar af leiðandi geti unglingarnir síður séð fyrir sér en áður sem þýðir að röksemdafærslan er sú að foreldrarnir beri þyngri og meiri kostnað af framfærslu þeirra á þessum aldri en áður var. Til hvers leiðir þessi röksemdafærsla varðandi skattalög, þ.e. lögin um tekjuskatt og eignarskatt? Það er alveg borðleggjandi. Menn munu segja: Fyrst við breyttum þessu og sérstaklega með þessum rökum, þá verðum við að breyta skattalögunum. Þá verðum við annaðhvort að hafa persónuafsláttinn millifæranlegan milli barna og foreldra eða það sem menn munu kannski fremur segja: Við verðum að fresta því að gefa út skattkort til 18 ára aldurs, enda rökin fyrir því þau að foreldrarnir þurfi á þeirri breytingu að halda til að styðja við þau útgjöld sem hafa þyngst frá því sem áður var. Lögin um tekjuskatt og eignarskatt hafa nefnilega tekið mið af þeirri staðreynd sem verið hefur til þessa í málinu. Og ef menn breyta svona, eins og hér er lagt til, þá mun það kalla á breytingar í skattalöggjöfinni, breytingar sem íþyngja ríkissjóði. Það geta ekki verið aðrar breytingar á döfinni. Ég spyr hv. allshn.: Er hún tilbúin til að mæla með því sem mun fylgja á eftir að þessu leyti eða ætlar allshn. að leggjast gegn því að skattalögin ívilni foreldrunum meir en nú er á móts við aukinn framfærslukostnað ungmenna? Það verður allshn. að taka undir ef hún á að vera samkvæm sjálfri sér út frá þeim rökum sem hér eru borin fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta atriði. Ég hef komið afstöðu minni á framfæri hvað þessa tillögu varðar og vænti þess að hinn önnum kafni formaður allshn. gefi sér tíma til að svara þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hana þó svo að ég hafi orðið að leggja spurningarnar fram þrisvar áður en þær voru meðteknar.