Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:44:48 (6352)

1997-05-13 17:44:48# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:44]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi mál voru að sjálfsögðu öll rædd í allshn., m.a. hvort þörf væri á að breyta lögum í tengslum við þetta mál. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, eins og kemur fram í nefndaráliti, að það þurfi að skoða ýmsar lagabreytingar, en það þurfi kannski ekki að gera einhverjar breytingar hér og nú.

Ég verð að segja varðandi bílpróf að mér finnst alveg koma til athugunar að hækka þann aldur. Allshn. fjallaði einmitt um breytingu á umferðarlögum nýlega þar sem þetta mál kom sérstaklega til umræðu og fól Umferðarráði og dómsmrh. að gera skoðanakönnun á viðhorfi fólks einmitt til þessa atriðis. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að samræma í alla enda og kanta eins og hv. þm. er e.t.v. að ýja að. En varðandi það að málið sé lagt fram með þessari niðurstöðu sem stjfrv. þá vil ég benda á að nefndin sem samdi frv. samdi tvö frv. og þessi útgáfa var valin. Hins vegar lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir við 1. umr. um málið að hann teldi rétt að nefndin skoðaði sérstaklega þennan þátt málsins um sjálfræðisaldurinn og þetta er okkar niðurstaða.