Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:57:50 (6356)

1997-05-13 17:57:50# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., VS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:57]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu, þar sem það hafði verið samið um að reyna að ljúka þingstörfum á laugardaginn og tíminn er skammur. En ég vildi þó segja örfá orð.

Ég vil fyrst segja að þetta frv. var upphaflega lagt fram sem stjfrv. en þó með fyrirvara af hálfu okkar framsóknarmanna varðandi sjálfræðisaldurinn. Við töldum að það væri þannig mál að ástæða væri til að fjalla um það í þingnefnd og taka síðan afstöðu í framhaldi af þeirri yfirferð. Ég og hv. þm. Jón Kristjánsson, sem sitjum í hv. allshn., skrifum undir það nefndarálit sem lagt er fram af nefndinni án fyrirvara þannig að okkar afstaða er skýr hvað það atriði varðar að við teljum, eftir að hafa farið vandlega yfir málið, að rétt sé að leggja til þessa breytingu.

Hæstv. dómsmrh. lét það koma fram við 1. umr. málsins að þetta væri þannig mál að hann teldi að þingið ætti að taka á því og í lok nefndarálits allshn. segir svo, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að skiptar skoðanir eru um hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár og þykir nefndinni rétt að ákvörðun um þetta atriði komi til atkvæða í þinginu.``

Það er því ljóst að þetta mál er ekki útkljáð og mér sýnist svo miðað við þær umræður sem hér hafa farið fram, og mér finnst reyndar að sumir hv. þingmenn í hv. allshn. hafi fyrst í dag í opinberri umræðu komið fram með ýmis rök í málinu sem hafi ekki komið fram í nefndarstarfinu. Það er svo sem ekkert um það að segja, en eins og málið stendur á þessari stundu er eflaust mjög tvísýnt um hverjar verða lyktir þessa máls. Mér finnst, og ég vona að ég veki ekki upp umræður að nýju þó ég segi það, að það hafi gætt nokkuð tilfinningasemi og mér finnst að vitna til íslenskrar menningar í þessu sambandi sé í sjálfu sér ekkert nema sjálfsagt, en rökin sem við höfum sem sitjum í allshn. og höfum lesið umsagnir um þetta mál finnst mér vera sterk og þau hafa a.m.k. sagt mér að ástæða sé til að breyta þessu, þ.e. að hækka sjálfræðisaldurinn og færa hann í það horf sem tíðkast hjá öðrum þjóðum og kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Um málið að öðru leyti vil ég segja að þetta er mjög vönduð löggjöf og mikilvæg og það starf sem hefur farið fram í nefndinni um frv., sem er mikill lagabálkur, hefur verið til fyrirmyndar. Það er því að vel yfirveguðu ráði sem þetta er lagt til af nefndinni sem kemur fram á þskj. 1172 sem brtt. við frv., en eins og komið hefur fram eru tveir hv. þingmenn í nefndinni með fyrirvara vegna ákvæðis um hækkun sjálfræðisaldursins. Að mínu áliti erum við að leggja fram brtt. sem eru vel rökstuddar og hafa verið rökstuddar hér í dag þannig að ég ætla ekki að endurtaka það, en það er minn vilji og mín skoðun að sjálfræðisaldurinn skuli hækkaður.