Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:02:25 (6357)

1997-05-13 18:02:25# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:02]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er enn um sjálfræðisaldurinn og hækkun eða óbreyttan sjálfræðisaldur. Vissulega er það rétt að rökin hafa komið fram í allshn. Við höfum rætt þau fram og til baka í nefndinni og það hefur verið ágæt vinna og vinnubrögð í þeirri nefnd.

Við hv. þm. Árni R. Árnason höfum reynt að draga fram rökin fyrir okkar sjónarmiðum en ég verð að segja eins og er að mér finnst ekki að rökin fyrir hækkun sjálfræðisaldursins hafi komið fram í þinginu í þessum ræðustóli hjá hv. ræðumönnum. Ef það er svo, sem ég reyndar veit, að dóms- og kirkjumrh. fjallaði um það í sinni ræðu við framlagningu frv. að ástæða væri til þess að þingið tæki á málinu, þá er nauðsynlegt að rökin komi hér fram svo þingið geti tekið á málinu.