Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:03:33 (6358)

1997-05-13 18:03:33# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:03]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má vel vera að við stuðningsmenn þess að hækka sjálfræðisaldur höfum haldið okkur um of til hlés í þessari umræðu. En það er m.a. vegna þess að tími er orðinn naumur. En það hefði í sjálfu sér verið áhugavert að lesa upp umsagnir um málið og ekki síður umsagnir sem bárust vegna þess þingmáls sem hv. allshn. hefur til umfjöllunar og er flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum þar sem má segja allir mæli með því að hækka sjálfræðisaldurinn. Og meira að segja, sem kom mér ekki hvað síst á óvart, framhaldsskólanemar mæla með því að sjálfræðisaldur sé hækkaður.

Mér dettur ekki í hug að við séum að bjarga öllum málum sem varða unglinga með því að gera þetta. Minnist ég þá þess að hv. þm. talaði um í sinni ræðu að þetta væri kattarþvottur. Ég undrast það að hv. þm. skuli nota slíkt orð um þessar tillögur að breytingum sem settar eru fram af miklum heiðarleika og af alvöru.