Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:07:53 (6361)

1997-05-13 18:07:53# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:07]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu og tefja fyrir störfum þingsins með því að lesa upp allar umsagnir sem hafa borist í þessu máli. Í nefndinni sem samdi þetta frv. voru Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumrn., Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Páll Hreinsson, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis. Nefndinni bárust ótal margar umsagnir í þessu máli og er sérstaklega tekið fram í greinargerð að langflestir umsagnaraðilar hafa mælt með þessu máli og enginn mælt gegn því. Þar að auki barst allshn. fjöldi umsagna, bæði út af þessu stóra frv. sem við hér ræðum um og líka út af öðru frv. sem mælti sérstaklega fyrir um þessa breytingu. Þar að auki er fjöldi gesta sem hefur komið á fund nefndarinnar og lýst sínum skoðunum á þessu máli sem voru allar á sama veginn. Nefndin telur eftir sína yfirferð, sem var vandleg, að þetta sé rökrétt niðurstaða. Ég vil fá að nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, til þess bæði að þakka hv. þm. almennt séð fyrir málefnalegar umræður um þetta mál, það er auðvitað alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir um málið, og líka til þess að þakka nefndarmönnum í hv. allshn. fyrir mikla og góða vinnu í þessu máli.