Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:18:46 (6365)

1997-05-13 18:18:46# 121. lþ. 123.46 fundur 444. mál: #A skiptaverðmæti og greiðslumiðlun# (stofnfjársjóður o.fl.) frv., Frsm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:18]

Frsm. sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. sjútvn. á þskj. 1154, svo og brtt. sem er á þskj. 1155 við frv. til laga um breytingar á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Þetta mál er hluti af breytingum sem við höfum þegar fjallað um með samþykkt annarra þingmála sem laga frá Alþingi sem breyta starfsemi Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Vegna þeirra ákvarðana er nauðsynlegt að gera breytingar á greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og því er frv. fram komið.

Við umfjöllun um það hafa birst á ný ágreiningsefni á milli hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, þ.e. sjómannasamtaka, og hefur það sett nokkurt mark á umfjöllun hv. sjútvn.

Nefndin hefur kynnt sér frv., fengið ýmsa aðila til umræðu um efni þess og náð samstöðu um tillögur um að breyta frv. með þeim hætti sem fram kemur á þskj. 1155. Þar er lagt til að breytingar verði gerðar á 5. gr. laganna sem eru þess efnis að í stað 15% í 1., 2. og 3. mgr. hennar komi 8%. Einnig að við 1. mgr. bætist nýr málsliður þannig að sambærileg skylda hvíli á þeim sem taka fiskafurðir í umboðssölu. Með þessari breytingu, herra forseti, er gert ráð fyrir að sambærileg skylda um skil þessa hluta verðmætis fiskafurða hvíli á umboðssöluaðilum eins og öðrum, þ.e. þeim sem kaupa afla.

Í öðru lagi er gerð tillaga um breytingar sem víkja að greiðslumiðlun varðandi smábáta, en við umfjöllun um málið kom fram að þær fjárhæðir sem nú er miðlað vegna þeirra eru hærri en þörf er á. Því er lagt til að greiðslufjárhæðin verði lækkuð og sambærileg tillaga gerð um skiptingu hennar. Þetta eru tillögur í 2. og 3. tölul.

Í 4. tölul. er vikið að hinu fyrrnefnda ágreiningsefni á milli sjómannasamtakanna. Þar lögð til breyting á 2. mgr. 4. gr. frv. þess efnis að þar komi skýrt fram í fyrstu línu málsgreinarinnar að hún eigi eingöngu við um þau samtök sem um er rætt í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr., 9. gr. laganna, og að gerðardómi sem fjallar um skiptingu fjár skv. 3. tölul. 1. mgr. verði heimilt að taka mið af fleiri atriðum en um er rætt í 2. mgr.

Með þessu, herra forseti, er reynt að gera skil milli hinna ólíku forsendna skiptingar milli annars vegar Sjómannasambandsins og þeirra félaga sem starfa í samstarfi við það og hins vegar þeirra sem taldir eru upp í 3. tölul. 1. mgr. sem eru annars vegar Farmanna- og fiskimannasambandið og hins vegar Vélstjórafélag Íslands og þau félög sem eiga samstarf við það. Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að um þessa tvo flokka samtaka gildir ekki hið sama um forsendur ef ágreiningur kemur upp milli þeirra um skiptingu fjárhæðanna. Á þeirri forsendu er brtt. gerð.

Herra forseti. Brtt. eru fluttar af nefndinni í heild en nokkrir nefndarmenn hafa gert fyrirvara við tillögurnar sem þeir munu væntanlega fá tækifæri til að gera grein fyrir sjálfir. Að svo mæltu legg ég svo til að tillögurnar verði samþykktar við lok umræðunnar og málinu vísað til 3. umr.