Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:26:00 (6367)

1997-05-13 18:26:00# 121. lþ. 123.49 fundur 98. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (heildarlög) frv., Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:26]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhvn. á þskj. 1167 um frv. til skipulags- og byggingarlaga.

Umhvn. hefur fjallað mjög ítarlega um málið og fengið til viðtals við sig fjölmarga aðila. Þá bárust nefndinni margar umsagnir um málið, bæði á 120. og 121. löggjafarþingi. Í framhaldi af yfirferð sinni leggur nefndin til umfangsmiklar breytingar á frv.

Frumvarp þetta var fyrst lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi. Það var síðan lagt fyrir 120. þing lítið breytt og aftur á 121. þingi óbreytt. Byggist frumvarpið að mestu leyti á frumvörpum um sama efni sem lögð voru fram á 113. og 115. löggjafarþingi og náðu ekki fram að ganga. Um er að ræða ný heildarlög á sviði skipulags- og byggingarmála, en nú gilda um það efni skipulagslög frá 1964 og byggingarlög frá 1978. Helstu breytingar frá núgildandi lögum eru að aukið vald er fært til sveitarfélaga. Þá eru skilgreind í frumvarpinu mismunandi stig skipulagsáætlana sem hingað til hafa einungis verið skilgreind í reglugerð. Skipulagsstjórn ríkisins er lögð niður og verkefni hennar flutt til sveitarfélaganna og að hluta til Skipulagsstofnunar, einnig er embætti skipulagsstjóra ríkisins lagt niður og í staðinn kemur ný stofnun, Skipulagsstofnun, sem fer bæði með skipulags- og byggingarmál. Þá er gert ráð fyrir að sett verði á stofn sérstök úrskurðarnefnd sem ætlað er að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum og kærum í stað þess að umhverfisráðherra úrskurði um þau mál. Loks eru lagðar til nokkrar breytingar á skipulagsgjaldi.

Eins og áður segir leggur nefndin til umfangsmiklar breytingar á frv. M.a. leggur nefndin til nokkuð breytta uppröðun ákvæða frv. Til hægðarauka og vegna umfangs breytingartillagnanna er frumvarpið með innfelldum breytingum birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu. Breytingarnar eru of umfangsmiklar til að hægt sé að tíunda þær í smáatriðum, en ég mun tæpa á helstu atriðum þeirra.

Á II. kafla frumvarpsins, þar sem fjallað er um stjórnvöld skipulags- og byggingarmála, eru lagðar til nokkrar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að staða Skipulagsstofnunar í frumvarpinu verði styrkt með því að bæta inn í 3. gr., um stjórn skipulags- og byggingarmála, að ráðherra til aðstoðar sé Skipulagsstofnun. Þá er í 4. gr. skerpt á hlutverki Skipulagsstofnunar sem eftirlitsaðila og lagt til að skýrt verði tekið fram að stofnunin hafi eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Einnig eru gerðar breytingar á 5. gr. í samræmi við ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Lúta breytingarnar annars vegar að menntunarkröfum sem gerðar eru til skipulagsstjóra ríkisins, en lagt er til að hann skuli hafa háskólamenntun í stað sérmenntunar. Hins vegar er lagt til að skýrt verði tekið fram í frumvarpinu að skipulagsstjóri ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar.

Á 6. gr. eru lagðar til nokkrar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæðið um að sveitarfélögum með færri en 1.000 íbúa sé skylt að mynda byggingareftirlitssvæði með nágrannasveitarfélagi eða -félögum. Aftur á móti er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti haft samvinnu sín á milli um kosningu byggingar- og skipulagsnefndar og ráðningu byggingar- og skipulagsfulltrúa. Þá er lagt til að fellt verði brott ákvæðið um að formenn skipulags- og byggingarnefnda skuli vera aðal- eða varamenn í sveitarstjórn. Einnig er lagt til að ákvæði um að slökkviliðsstjórar og heilbrigðisfulltrúar eigi rétt til setu á fundum skipulags- og byggingarnefnda verði fellt brott, en óþarft þykir að lögbinda slíkan rétt þar sem eðlilegt er að starfsmenn sveitarfélaga sitji fundi nefndanna þegar það á við.

[18:30]

Á 7. gr. eru lagðar til nokkrar breytingar. M.a. er lagt til að byggingarfulltrúar og skipulagsfulltrúar séu framkvæmdastjórar byggingarnefnda og skipulagsnefnda. Einnig er lagt til að sveitarstjórn geti í einstökum tilvikum veitt samþykki sitt fyrir því að starfsmaður skipulags- eða byggingarnefndar vinni eitthvert það starf sem koma kann til afgreiðslu byggingarnefndar í umdæmi hans, en samkvæmt frv. var það óheimilt. Þykir rétt að sveitarstjórn geti veitt undanþágu að þessu leyti þar sem upp geta komið sérstakar aðstæður. Eftir sem áður er ljóst að meginreglan er að starfsmönnum er óheimilt að vinna slík verk.

Loks er lögð til breytt skipan úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í 8. gr. þannig að einn nefndarmanna sé skipaður án tilnefningar en tveir samkvæmt tilnefningu frá Hæstarétti. Gert er ráð fyrir að annar þeirra sem Hæstiréttur skipar sé formaður nefndarinnar og skal hann fullnægja skilyrðum þess að vera héraðsdómari. Þá er lengdur sá tími sem nefndin hefur til að kveða upp úrskurð úr sex vikum í tvo mánuði. Loks er lagt til að kveðið verði á um það að um málsmeðferð, að öðru leyti en því sem kveðið er sérstaklega á um, fari eftir stjórnsýslulögunum.

Í III. kafla er fjallað um gerð og framkvæmd skipulags. Eru lagðar til allnokkrar breytingar á kaflanum, m.a. er lögð til breyting á uppröðun greina sem miðar að því að gera framsetningu skýrari. Þannig er fjallað um skipulagsskyldu í 9. gr. og kemur þar fram að landið allt sé skipulagsskylt. Lagðar eru til viðamiklar breytingar á greininni og gert ráð fyrir að þar verði aðallega fjallað um skipulagsáætlanir. Þá kemur einnig fram að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi.

Í 10. gr. er fjallað um skipulagsreglugerð. Eru gerðar tillögur um nokkuð breytta uppsetningu greinarinnar en þar er kveðið á um helstu atriði sem fjalla á um í reglugerðinni.

11. gr. snýr að áætlunum um landnotkun á landsvísu. Kemur greinin í stað 29. gr. þar sem fjallað er um landsskipulag. Þykir ný fyrirsögn vera í samræmi við ákvæðið, en þar er kveðið á um að Skipulagsstofnun skuli afla gagna og hafa aðgang að og varðveita áætlanir annarra opinberra aðila um landnotkun er varða landið allt. Þá er í ákvæðinu heimild fyrir umhverfisráðherra til að skipa sérstaka nefnd ef upp kemur ósamræmi eða hagsmunaárekstrar um landnotkun milli einstakra áætlana.

Í 12.--15. gr. er fjallað um svæðisskipulag, en í frumvarpinu eru ákvæði um sama efni í 25.--28. gr. Eru ákvæðin nokkuð breytt og m.a. er lagt til að fellt verði brott ákvæði um svæðisskipulag miðhálendisins þar sem nefnd sú sem unnið hefur að því er að ljúka störfum. Ekki eru lagðar til grundvallarbreytingar á 12. gr., en þó er lagt til að í stað þess að lögbundið sé að svæðisskipulag skuli endurskoða á fjögurra ára fresti að afloknum sveitarstjórnarkosningum verði það lagt í mat sveitarstjórnar hvort nauðsynlegt sé að endurskoða skipulagið. Þá er einnig lagt til að umhverfisráðherra verði heimilt að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi þar sem að ágreiningur er milli sveitarstjórna.

Í 13. gr. er fjallað um kynningu, auglýsingu, samþykkt og staðfestingu svæðisskipulags. Eru þar ítarlegar reglur um hvernig farið skuli með þessi atriði og áhersla er lögð á að svæðisskipulag verði kynnt vel fyrir íbúum sveitarfélaganna og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við það. Þá er einnig gert ráð fyrir að tillagan sé auglýst utan þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að henni og kynnt sveitarstjórnum nærliggjandi sveitarfélaga sérstaklega, enda getur svæðisskipulag haft áhrif á hagsmuni aðila utan svæðisins sem undir það fellur.

Lagt er til að nýrri grein verði bætt við frumvarpið, 14. gr. þar sem fjallað er um hvernig fara skuli með breytingar á svæðisskipulagi. Ef gera á verulegar breytingar er gert ráð fyrir að farið verði inn í sama ferli og við gerð svæðisskipulags, en einnig er gert ráð fyrir að unnt sé að fara einfaldari leið ef um óverulegar breytingar er að ræða.

Loks er fjallað um sérstaka svæðisskipulagsmeðferð í 15. gr., en í henni felst að framkvæmdaraðili framkvæmdar sem nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag getur óskað eftir því við Skipulagsstofnun að lega mannvirkisins eða áætlun um framkvæmd fái sérstaka svæðisskipulagsmeðferð. Á þetta t.d. við um þjóðvegi, orkumannvirki og fjarskiptalínur. Er nánar fjallað um það í ákvæðinu hvernig fara skuli með auglýsingu og afgreiðslu slíkrar svæðisskipulagsmeðferðar.

Í 16.--22. gr. er fjallað um aðalskipulag, en ákvæði um aðalskipulag eru í 11.--18. gr. frumvarpsins. Nokkrar breytingar eru gerðar á ákvæðum um aðalskipulag og eru sett fram grundvallaratriði um aðalskipulag í 16. gr.

Í 17. gr. er fjallað um kynningu aðalskipulagstillögu og er eins og varðandi svæðisskipulag lögð mikil áhersla á að tillagan sé ítarlega kynnt íbúum sveitarfélags og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana. Þá er einnig gert ráð fyrir að aðalskipulagstillögur séu kynntar fyrir sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga.

Í 18. gr. er fjallað um auglýsingu og samþykkt aðalskipulagstillögu og miða þær breytingar sem þar eru gerðar að því að auðvelda almenningi að hafa áhrif á tillöguna með því að koma með athugasemdir.

Í 19. gr. er síðan kveðið á um staðfestingu, birtingu og gildistöku aðalskipulags og er sú grein lítið breytt frá 14. gr. frumvarpsins.

Í 20. gr. er fjallað um frestun á gerð eða staðfestingu aðalskipulags og er greinin nær óbreytt frá 15. gr. frumvarpsins.

Í 21. gr. er síðan fjallað um breytingu á aðalskipulagi. Er þar gerður greinarmunur á verulegum og óverulegum breytingum og kemur ákvæðið í stað 17. gr. frumvarpsins, en 16. gr. þess fellur brott. Um verulegar breytingar fer eins og um gerð aðalskipulags, en ef um óverulegar breytingar er að ræða er heimilt að sleppa því kynningarferli sem kveðið er á um í 17. gr. og fer þá um auglýsingu og meðferð sveitarstjórnar skv. 18. gr.

Í 22. gr. er fjallað um ágreining um aðalskipulag á mörkum sveitarfélaga og eru óverulegar breytingar lagðar til á ákvæðinu sem er í 18. gr. frumvarpsins.

Í 23.--26. gr. er fjallað um deiliskipulag, en ákvæði um deiliskipulag eru í 19.--24. gr. frumvarpsins. Grunnreglur um deiliskipulag koma fram í 23. gr. og er hún nokkuð breytt frá 19. gr. frumvarpsins. Meðal nýjunga sem þar eru settar fram er ákvæði um að þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skuli samhliða gerð bæja- og húsakönnun sem höfð skuli til hliðsjónar við gerð tillögunnar. Með bæja- og húsakönnunum er átt við ákveðna aðferðafræði til að meta listrænt og menningarsögulegt gildi hins byggða umhverfis og samspil þess við náttúruna. Má líta á niðurstöðu slíkrar könnunar sem eins konar gagnasafn yfir hús og hverfi sem þurfi sérstakt aðhald í umfjöllun sveitarfélags í skipulags- og byggingarmálum.

Í 24. gr. er fjallað um deiliskipulag á landi í einkaeign. Er þar kveðið á um að þegar land í einkaeign er gert að byggingarlóðum með deiliskipulagi skuli eigandi láta endurgjaldslaust af hendi þá hluta landsins sem samkvæmt skipulagi eru ætlaðir til almannaþarfa. Er lagt til að eiganda verði ekki gert að láta landið af hendi fyrr en framkvæmdir hefjast, auk þess sem lagt er til að kveðið verði á um að land falli aftur til þess er lét það endurgjaldslaust af hendi ef landnotkun er breytt. Er gert ráð fyrir að landeigandi og sveitarfélag semji um það í hvaða ástandi landinu er skilað.

Í 25. gr. er fjallað um kynningu, samþykkt og gildistöku deiliskipulags og eru breytingar á þeirri grein í samræmi við breytingar á sams konar greinum um svæðisskipulag og aðalskipulag og miða þær að því að auðvelda aðkomu íbúa sveitarfélagsins að skipulaginu, með hertum kröfum um auglýsingar og kynningu.

Í 26. gr. er fjallað um breytingu á deiliskipulagi og er þar gert ráð fyrir að um verulegar breytingar fari eins og verið væri að gera nýtt skipulag en séu breytingar óverulegar skuli fara fram ítarleg grenndarkynning og þeim sem hafa hagsmuna að gæta gefinn kostur á að tjá sig um breytingarnar. Eru óverulegar breytingar skilgreindar mjög þröngt, mun þrengra en gert er samkvæmt núgildandi lögum. Er gert ráð fyrir að aðeins sé hægt að falla frá auglýsingu ef um óverulegar breytingar er að ræða sem annaðhvort eru vegna ófyrirséðra aðstæðna á staðnum eða ef breytingarnar hafa aðeins staðbundin áhrif, er þarna m.a. átt við mælipunkta og minni háttar breytingar á einstökum húsum.

Með 27. gr. er lagt til að bætt verði inn í frumvarpið ákvæði um framkvæmdaleyfi. Á það við um framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi og hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess. Falla skógrækt, landgræðsla og efnistaka til dæmis þarna undir. Framkvæmdir þessar þurfa að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og fara skal um þær eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaleyfi falli úr gildi ef framkvæmdir eru ekki hafnar innan tólf mánaða frá útgáfu þess.

29. gr. fjallar um landeignaskrá og er það breyting frá frumvarpinu en þar er í 31. gr. fjallað um lóðaskrá. Þykir orðið landeignaskrá lýsa því betur hvað átt er við. Aðrar breytingar á greininni eru óverulegar.

Í 35. gr. er fjallað um skipulagsgjald. Nokkrar breytingar eru lagðar til á ákvæðinu og er leitast við að gera það skýrara. Samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar felur ákvæðið í sér að af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta er skylt að greiða skipulagsgjald í eitt skipti sem nemur 0,3% af brunabótamati húseignar, en til nýbygginga teljast öll nýreist hús sem metin eru til brunabóta og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð viðbyggingar nemur allt að 1/5 hluta verðs eldra hússins. Einnig er gert ráð fyrir að skipulagsgjald verði greitt af mannvirkjum sem háð eru byggingarleyfi en eru ekki virt til brunabóta og miðast gjaldið þar við stofnverð mannvirkisins. Af mannvirkjum sem ekki eru háð byggingarleyfi er almennt ekki greitt skipulagsgjald, nema af stofnkerfum rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta utan þéttbýlis. Skýrist þessi munur sem gerður er á þéttbýli og dreifbýli af því að Skipulagsstofnun ber kostnað af skipulagsvinnu við stofnkerfi í dreifbýli, en sveitarfélögin bera sjálf þennan skipulagskostnað í þéttbýli. Því væri óeðlilegt að þau sveitarfélög greiddu skipulagsgjald til ríkisins af þessum mannvirkjum.

V. kafli frumvarpsins fjallar um mannvirki og leggur nefndin til allnokkrar breytingar á kaflanum. Röð greina helst þó óbreytt, en greinanúmer breytast frá frumvarpinu vegna breytinga á III. kafla.

Í 36. gr. er fjallað um gildissvið kaflans og er greinin lítið breytt. Í greininni kemur fram að undir kaflann falla hvers konar byggingar ofan jarðar og neðan. Þá er talið upp hvers konar framkvæmdir eru undanþegnar byggingarleyfi og að slík mannvirki skuli byggð í samræmi við skipulag.

Í 41. gr. er fjallað um byggingareftirlit. Leggur nefndin til að málslið verði bætt við greinina um aðgang byggingareftirlitsmanna að íbúðarhúsum þess efnis að eftirlitsmönnum sé ekki heimilt að fara inn í íbúðarhús án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði. Telur nefndin að breyting þessi sé nauðsynleg til að tryggja friðhelgi heimilisins í samræmi við grunnrök 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

[18:45]

Á 42. gr. eru lagðar til nokkrar breytingar. Annars vegar er lagt til að 4. mgr. verði felld brott, en þar er kveðið á um ábyrgð framleiðanda raðframleiddra byggingareininga og húsa á göllum sem fram kunna að koma í vörunni. Þykir óeðlilegt að tekið sé fram sérstaklega í lögum hver ábyrgð framleiðenda þessarar tegundar byggingarefnis er, og telur nefndin rétt að um slíkt fari eftir almennum ábyrgðarreglum. Hins vegar er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við greinina sem heimilar byggingarfulltrúa, að fengnu samþykki sveitarstjórnar, að fela prófhönnuði eða faggiltri skoðunarstofu yfirferð og samþykkt séruppdrátta. Þá er kveðið á um hvernig greiðslu kostnaðar við yfirferðina skuli háttað.

Á 43. gr., er fjallar um byggingarleyfi, leggur nefndin til nokkrar breytingar. Í fyrsta lagi felast breytingarnar í því að lagt er til að það verði sveitarstjórn en ekki byggingarnefnd sem veitir byggingarleyfi. Þá er lagt til að bætt verði við greinina, til áherslu, ákvæði um að framkvæmdir sem byggingarleyfi þarf fyrir skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Einnig er lögð til sú breyting að byggingarleyfi feli í sér leyfi til framkvæmda, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að afla þurfi sérstaks framkvæmdaleyfis til að hefja framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi. Í samræmi við þessa breytingu er lagt til að 47. gr. frumvarpsins, um framkvæmdaleyfi, falli brott. Ekki má rugla þessu saman við framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. en þar er gert ráð fyrir að framkvæmdaleyfis sé aflað áður en famkvæmdir sem ekki þarf byggingarleyfi fyrir eru hafnar.

Loks er lagt til að tvær málsgreinar bætist við greinina. Mælir önnur þeirra fyrir um að byggingarnefnd sé heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til niðurrifs eða breytinga á húsi í allt að tvö ár frá því að umsókn barst nefndinni. Þó er gert ráð fyrir að slík frestun sé aðeins heimil ef deiliskipulag hefur ekki verið samþykkt, breytingar á því standa yfir eða ef setja á ákvæði um hverfisvernd í deiliskipulag. Skal tilkynna umsækjanda sérstaklega um frestun afgreiðslu. Ákvæði þetta er að norskri fyrirmynd og telur nefndin nauðsynlegt að slík frestunarheimild verði sett í lög í ljósi þróunar þeirrar sem átt hefur sér stað og vegna tveggja nýgenginna úrskurða umhverfisráðherra um niðurfellingu á synjun byggingarnefndar Reykjavíkur um heimild til niðurrifs á húsum.

Hin viðbótin, sem lögð er til við greinina, snýr að því þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi. Skal skipulagsnefnd í slíkum tilvikum fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en leyfið er afgreitt í byggingarnefnd. Þá er í ákvæðinu skilgreint hvað felst í grenndarkynningu, en með slíkri kynningu er átt við það að nágrönnum, er hagsmuna eiga að gæta, er kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig um það innan ákveðins frests sem skal vera að minnsta kosti fjórar vikur. Þegar byggingarnefnd hefur tekið málið til afgreiðslu skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt um niðurstöðu skipulagsnefndar og byggingarnefndar. Er grenndarkynning í ákveðnum tilfellum mjög æskilegur kostur umfram hið umfangsmikla kynningarferli sem frumvarpið gerir ráð fyrir að meginstefnu.

Í 44. gr. er fjallað um útgáfu byggingarleyfis og breytist ákvæðið til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á 43. gr., um byggingarleyfi. Þannig er gert ráð fyrir að byggingarleyfi sé gefið út eftir að sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis og byggingarfulltrúi hefur áritað aðaluppdrætti. Einnig þarf umsækjandi að hafa greitt tilskilin gjöld eða hafa samið um greiðslu þeirra. Þá er lagt til að við greinina bætist ákvæði þess efnis að veita megi leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda ef sérstaklega stendur á og er gert ráð fyrir að leyfið takmarkist hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. Einnig getur byggingarfulltrúi veitt lóðarhafa heimild til að kanna jarðveg á byggingarlóð sinni áður en byggingarleyfi hefur verið gefið út. Þá er gert ráð fyrir að byggingarstjóri undirriti yfirlýsingu um ábyrgð sína áður en framkvæmdir hefjast og einnig skal hann tilkynna byggingarfulltrúa um nöfn iðnmeistara. Loks er kveðið á um það að þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir nýbyggingu á skipulögðu svæði í þéttbýli sé sveitarstjórn skylt að sjá um að götur, rafmagn, vatn og holræsi séu fyrir hendi eftir því sem þörf er á, nema sveitarstjórn hafi gert sérstakan fyrirvara að því er þetta varðar. Þá er kveðið á um að staðfesting sveitarstjórnar falli úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.

Smávægilegar breytingar eru lagðar til á 46. gr., um hönnunargögn, og 47. gr., um áritun hönnuða. Meðal annars er lagt til að sá sem áritar aðaluppdrátt sé samræmingarhönnuður.

Í 48. gr. er fjallað um löggildingu hönnuða. Þar leggur nefndin til allnokkrar breytingar. Snúa þær að þeim skilyrðum sem uppfylla þarf til að öðlast löggildingu sem hönnuður auk þess sem lagt er til að rafiðnfræðingum verði bætt í hóp þeirra sem öðlast geta löggildingu sem hönnuðir. Þær stéttir, sem geta fengið löggildingu sem hönnuðir, eru þá arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, rafiðnfræðingar, innanhússhönnuðir og landslagshönnuðir. Skulu þeir sem sækja um löggildingu hafa hlotið heimild iðnaðarráðherra til starfsheitisins samkvæmt lögum þar um. Þær viðbótarkröfur sem eru gerðar eru misjafnar eftir stéttum og samanstanda af starfsreynslu og sérhæfingu annars vegar og námskeiði og prófi hins vegar. Er gert ráð fyrir að ráðherra skipi þriggja manna prófnefnd sérfróðra aðila sem skipuleggja á námskeið til undirbúnings prófi sem skylt er að sækja og halda próf sem ná á til þeirra greina sem helst reynir á í störfum hönnuða við íslenskar aðstæður. Er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði gjald sem umsækjendur greiða fyrir að þreyta próf auk þess sem mælt er fyrir um það að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd námskeiðahalds og prófs og lágmarksárangur til að standast það. Þannig skulu arkitektar sækja námskeið og standast próf áður en þeir sækja um löggildingu sem hönnuðir. Byggingarfræðingar þurfa auk þess að sækja námskeið og standast próf að hafa lokið að minnsta kosti 20 mánaða starfsreynslutíma. Aðrir umsækjendur um löggildingu þurfa auk þess að sækja námskeið og standast próf að hafa sérhæft sig á viðkomandi löggildingarsviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum aðila á sviðinu og skal starfsreynslutíminn ekki vera skemmri en þrjú ár, þar af minnst eitt ár hér á landi. Gert er ráð fyrir að ráðherra leiti umsagnar viðkomandi fagfélags áður en löggilding er veitt. Þá skal ráðherra á hverju ári senda lista yfir löggilta hönnuði til Skipulagsstofnunar og byggingarfulltrúa.

Í 49. gr. er fjallað um löggildingu á sérsviði. Þar eru lagðar til smávægilegar breytingar sem leiðir af breytingum þeim sem lagðar eru til á 48. gr., meðal annars er lagt til að bætt verði við greinina ákvæði um að rafiðnfræðingar geti fengið löggildingu ráðherra sem hönnuðir séruppdrátta á sínu sviði, en gert er ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um stærðartakmarkanir veitna.

Nokkrar breytingar eru lagðar til á 56. gr. Snúa þær að því að mæla skýrar fyrir um hvernig fara skuli með framkvæmdir sem brjóta í bága við skipulag eða eru án leyfis. Þau atriði, sem bætt hefur verið við greinina, snúa í fyrsta lagi að því að mælt er fyrir um að ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni og hún brýtur í bága við skipulag eða framkvæmd er hafin með byggingarleyfi sem brýtur í bága við skipulag ber byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust og skal hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægður, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Hins vegar er mælt fyrir um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Telur nefndin nauðsynlegt að slíkt ákvæði sé sett í lög þar sem dæmin sýna að skipulagi hefur oft verið breytt eftir að mannvirki hefur verið reist og eru slík vinnubrögð óviðunandi og fara gegn anda frumvarps þessa.

Í 61. gr. er fjallað um yfirstjórn skipulags- og byggingarmála á varnarsvæðum. Ekki eru lagðar til breytingar á greininni, en um hana spunnust nokkrar umræður í nefndinni. Telur umhverfisnefnd eðlilegt að íslensk mannvirki á varnarsvæðum heyri undir íslensk lög og að í skipulagsnefnd varnarsvæða sitji fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að varnarsvæðinu.

Lögð er til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins um að lögin taki gildi 1. janúar 1998 í stað 1. september 1997, en nauðsynlegt er að nokkur tími líði frá samþykkt laganna þar til þau taka gildi.

Á ákvæði til bráðabirgða eru lagðar til nokkrar breytingar. Snúa þær í fyrsta lagi að því að heimila sveitarstjórn að leyfa einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt, án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Áður skal sveitarstjórn þó hafa fengið meðmæli Skipulagsstofnunar. Heimilt er að binda leyfið ákveðnum skilyrðum. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæðið málsgrein um það hvernig fara skuli með ef verulegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag.

Í þriðja lagi er lagt til að starfandi byggingarfulltrúar við gildistöku laganna haldi fullum rétti sínum til starfa þó að þeir fullnægi ekki skilyrðum þeim sem sett eru fram í 7. gr.

Loks er bætt við ákvæði vegna breytingarinnar sem lögð er til á 48. gr., um löggildingu hönnuða. Mælir ákvæðið fyrir um það að þeir arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, rafiðnfræðingar, innanhússhönnuðir og landslagshönnuðir, sem við gildistöku laga þessara hafa lokið hluta reynslutíma sem nauðsynlegur er samkvæmt núgildandi lögum til að öðlast löggildingu, eigi kost á að ljúka honum eftir eldri reglum.

Leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 1168.

Undir nefndarálitið rita Ólafur Örn Haraldsson, Árni M. Mathiesen, Gísli S. Einarsson, Tómas Ingi Olrich, Ísólfur Gylfi Pálmason, Katrín Fjeldsted og Kristján Pálsson. Undir álitið skrifa með fyrirvara Kristín Halldórsdóttir og Hjörleifur Guttormsson.

Virðulegi forseti. Eftir að gögn þessi lágu fyrir með svofelldri samþykkt umhvn. sem ég hef gert grein fyrir hefur borist ábending frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og sveitarfélagum innan þeirra samtaka sem lýtur að 21., 26. og 43. gr. Hafa sveitarfélögin, sem svo sannarlega eiga mikilla hagsmuna að gæta í frv. þessu og er ætluð þar bæði mikil ábyrgð og réttindi, lagt áherslu á að nefndin skoði milli 2. og 3. umr. hvort gera megi nokkrar breytingar á þessum greinum. Sú breyting sem sveitarfélögin hafa óskað eftir á 21. gr. fjallar einkanlega um auglýsingar á auglýstu aðalskipulagi. Hefur þar komið fram sú ósk að nefndin skoði milli 2. og 3. umr. hvort breyta mætti þeim fresti sem auglýsingin skal vara.

Í 26. gr. hefur einnig verið óskað eftir að brott falli ákveðinn þáttur greinarinnar sem þrengir þá þætti sem snúa að óverulegum breytingum. Í 43. gr. hafa sveitarfélögin óskað eftir að nefndin athugaði hvort gera mætti breytingu á einu orði, þ.e. sveitarfélög úrskurði um niðurrif í stað byggingarnefndar og eins líka að í greininni komi fram nánari skilgreining á því hver það verður og til hvers bætur falli þegar um slíkt er ákveðið samkvæmt greininni.

Eftir nokkrar umræður og athugun hef ég sem formaður nefndarinnar fallist á að skoða þetta milli umræðna og óskað eftir því að halda fund með nefndarmönnum umhvn. og þar sem þessi atriði verða tekin til umfjöllunar og ákvörðunar.