Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 19:00:40 (6368)

1997-05-13 19:00:40# 121. lþ. 123.49 fundur 98. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (heildarlög) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[19:00]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara og sá fyrirvari lýtur ekki beint að málinu sjálfu heldur fyrst og fremst vinnslu þess og meðferð. Mér er ekki kunnugt um hvort meðferð þessa frv. á sér í raun og veru hliðstæðu eða fordæmi í sögu Alþingis. Það eru nú a.m.k. sjö ár síðan fyrst var gerð alvarleg tilraun til þess að setja heildarlöggjöf um skipulags- og byggingarmál og málið hefur fengið býsna víðtæka umfjöllun og margir komið að henni. Geysilegur tími og vinna hefur farið í málið í hv. umhvn., líklega meiri en í nokkurt annað mál á þessu þingi nema ef vera skyldi sú vinna sem fór í umfjöllun um umhverfismál í tengslum við fyrirhugað álver á Grundartanga.

Meginlína frv. er að færa aukið vald í þessum efnum til sveitarfélaga, en um leið er allur ramminn skýrður og nánari reglur settar um framkvæmd mála. Þá er lögð áhersla á að reyna að tryggja rétt almennings til áhrifa á ákvarðanir um umhverfi sitt, tryggja rétt einstaklinga gagnvart valdhöfum, vitaskuld innan þeirra marka sem nauðsynleg eru til þess að heildarhagsmuna sé gætt.

Þessi löggjöf er afar mikilvæg fyrir stefnu og þróun í umhverfismálum og náttúruvernd og hún er mikilvæg fyrir neytendavernd og réttindi almennings og stuðlar vonandi að auknum skilningi og stórbættum vinnubrögðum í þeim efnum. Markmiðin eru ljós og þarf ekki að tíunda þau, en mér þykir sérstaklega vænt um þá málsgrein í 1. gr. sem hljóða mun svo, með leyfi forseta:

,,að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.``

Þetta er mjög mikilvægur þáttur í þeirri löggjöf sem við erum að fjalla um og verður ekki ofgert í að tryggja þau atriði.

Nefndin fór mjög rækilega yfir þetta frv. sem samanstendur af 65 greinum og ákvæði til bráðabirgða og erum við því frekar að fjalla um lagabálk en einstök lög. Það var mjög fljótt ljóst við meðferð málsins að frv. þarfnaðist mikilla breytinga, svo mikilla að í raun hefði átt að vísa því til föðurhúsanna til endurvinnslu. Niðurstaðan varð þó að nefndin vann það upp nánast frá grunni og er ekki nema sanngjarnt að láta það koma fram að stærstan hlut í þeirri vinnu áttu hv. formaður nefndarinnar, Ólafur Örn Haraldsson, og hv. þm. Árni M. Mathiesen.

Brtt. nefndarinnar eru í 66 töluliðum sem margir eru með undirliðum, t.d. 2. liður brtt. á þskj. 1168, þar sem undirliðir eru 14. Endirinn varð sá að nefndin sá sér ekki annað fært en að leggja fram sem fskj. með nál. heildstætt frv. með innfelldum brtt. nefndarinnar og er það vonandi til glöggvunar fyrir hv. þingmenn og jafnframt fyrir nefndarmenn sem voru ekki allt of vissir um hvað þeir voru að fjalla. Þetta er mjög óvenjuleg útfærsla. Ég veit ekki hvort hún á sér fordæmi. Þó minnist ég þess að þegar lög um stjórn fiskveiða voru til umræðu árið 1988 eða 1989, ég held að það hafi verið 1988, þá hafði þingflokkur Kvennalistans mikla sérstöðu í því máli. Við vorum með útfærðar hugmyndir um byggðakvóta og felldum tillögur okkar inn í fyrirliggjandi frv. frá ríkisstjórninni og birtum sem fskj. með nál. En ég minnist þess ekki að slíkt hafi gerst við afgreiðslu frá þingnefnd á sama hátt og hér hefur verið gert, en það má þó vera.

Í raun og veru erum við með nýtt þingmál í höndunum, svo miklar eru breytingarnar. Eðlilegast og réttast hefði verið að senda það frv. út til umsagnar og umfjöllunar eins og um nýtt mál væri að ræða. Þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð eru vægast sagt varhugaverð og bjóða í raun heim hættu á mistökum eða árekstrum við þá sem þessi lög varða mest.

Að hinu er að gæta að þessi lagasetning er löngu tímabær og mitt mat er að það væri mjög slæmt að draga afgreiðslu málsins. Ég held að við verðum einfaldlega að vona að sæmilega hafi tekist að sníða af því vankanta í flestum greinum. Ég ákvað því að standa að þessari afgreiðslu í trausti þess að um verulegt framfaramál sé að ræða. Fyrirvari minn lýtur því aðeins að vinnslu þess og meðferð og ætla ég ekki að gera frekari athugasemdir við frv.