Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 22:44:52 (6376)

1997-05-13 22:44:52# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., Frsm. StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[22:44]

Frsm. sérn. (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir ágæta ræðu. En það eru nokkur atriði sem ég vildi gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að hv. þm. hefur ekki fallist á 33. gr. frv., eins og það liggur fyrir. Hann sættir sig ekki við þá niðurstöðu, sem kemur fram í brtt. sérnefndarinnar og felur í sér þá viðbót við 33. gr. að fjárln. skuli koma að málinu og að fjmrh. hverju sinni þurfi að gera þinginu grein fyrir umframgjöldum sem kann að þurfa að leita eftir. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið sem ekkert er við að segja. Ég vil hins vegar algjörlega mótmæla því að hér sé um einhver tímamót að ræða þar sem fjmrh. séu gefnar meiri heimildir en áður. Það er svo fjarri lagi. Með þessu frv. erum við að ramma verkefnin miklu betur inn. Gera ákvæðin skýrari um hvar mörkin liggja milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og setja reglur um fjárreiður ríkisins, reglur sem hafa ekki verið til. Þær hafa ekki verið til.

Varðandi það atriði sem um er deilt og tilvísanir til stjórnarskrár þá vil ég gera það sem ég gerði í ræðu minni áður, að vitna til Stjórnskipunar Íslands, þess merka rits sem Ólafur Jóhannesson skrifaði. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 311--312:

,,Í framkvæmd kveður þó allmikið að hinum svokölluðu umframgreiðslum, enda oft óhjákvæmilegar, og gerðar í trausti þess, að þær verði eftir á samþykktar í fjáraukalögum.``

Þetta sagði prófessorinn. Síðan rekur hann með hvaða hætti nauðsynlegt er að standa að þessu. Ég tel að það styðji þær tillögur og þá grg. sem kemur fram í nál. sérnefndarinnar. Ég kem nánar að því síðar ef ég fæ tækifæri til að koma aftur í andsvar.