Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 22:47:19 (6377)

1997-05-13 22:47:19# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[22:47]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta verður að kallast nokkurs konar klofið andsvar þar sem fyrri hlutinn var fluttur áðan en seinni hlutinn verður fluttur á eftir þegar ég hef lokið að svara fyrri hluta andsvarsins.

Ég vil fyrst segja að ég teldi ákvæði 33. gr. líta miklu betur út ef frá því væri gengið þannig að því væri beitt með heimild í fjárlögum. Ef í fjárlögum væri hverju sinni heimildarákvæði sem væri notað þegar stuðst væri við 33. gr. og henni beitt. Í öðru lagi að fjmrh. þyrfti samþykki fjárln. fyrir því að beita því undanþáguákvæði. Þá teldi ég að búið væri að breyta framkvæmdinni þannig að við stæðum miklu nær stjórnarskránni en við höfum gert og lagt er til af hálfu frsm. Auðvitað eru það tímamót, það er ómótmælanlegt, þegar í fyrsta sinn í sögu þingsins á síðari tímum, svo mér sé kunnugt um, er lagt til að festa í lög heimild til ráðherra til að borga utan fjárlaga. Og það er gengið þannig frá textanum að matið á því hvenær megi beita heimildinni er algjörlega í höndum ráðherrans.

Ég vil að lokum lesa eina setningu til viðbótar við það sem fram kom í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, úr riti Ólafs Jóhannessonar, með leyfi forseta: Sú setning er svohljóðandi:

,,Framlagning fjáraukalagafrumvarps eftir á, er oftast í reyndinni aðeins skýrslugjöf um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, en samþykkt fjáraukalaganna felur auðvitað í sér syndakvittun ríkisstjórninni til handa.``