Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 22:53:48 (6380)

1997-05-13 22:53:48# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[22:53]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu er eitt af allra merkustu málum þingsins. Ég hygg að þessara laga muni lengi sjá stað í ríkisfjármálum Íslendinga og verið sé að gera breytingar sem skipta verulegu máli. Í þeirri umræðu sem hefur farið fram í kvöld hafa sjónir beinst mest að tveimur greinum þessa frv. en vissulega eru miklu fleiri greinar sem eiga athygli skilið. Hér er verið að koma nýju skikki á ríkisfjármálin. Ef þetta frv. verður að lögum verður mun auðveldara en áður að hafa yfirsýn yfir fjármál ríkisins. Eitt af því sem ekki hefur verið nefnt í umræðunni og ég vil vekja sérstaka athygli á, reyndar kom það fram að sjálfsögðu í ágætri ræðu formanns sérnefndarinnar, hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, en það er 28. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir langtímaáætlunum. Þar segir svo með leyfi forseta:

,,Með fjárlagafrumvarpi ár hvert skal leggja fram áætlun fyrir ríkisbúskapinn til næstu þriggja ára eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrumvarpið tekur til.``

Hér er sem sagt verið að festa það í lög að horfa beri til næstu ára og gera sér grein fyrir útgjöldum eftir því sem hægt er. En það gefur auðvitað auga leið að margt getur komið upp á og margt breytir áætlunum.

Málið um fjárreiður ríkisins hefur að mínum dómi fengið afar vandaða meðferð í störfum þingsins. Farið var rækilega í gegnum þetta mál á síðasta þingi og í vetur hefur það verið til meðferðar í sérnefnd svo mánuðum skiptir og kallað hefur verið eftir áliti ýmissa sérfræðinga. Meðal annars var einn af lagaprófessorum Háskóla Íslands fenginn til að skoða sérstaklega 30. gr. Í leiðinni benti hann á ýmislegt sem betur mátti fara og kemur reyndar inn á eitt af mínum stóru áhugamálum í íslenskum stjórnmálum, en það er þrískipting ríkisvaldsins og hvernig betur megi greina þar á milli. Eins og kunnugt er hefur það verið lenska hér um áratuga skeið, ef ekki aldir, að blanda mjög saman sérstaklega framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Á það auðvitað rætur að rekja til danska konungsveldisins.

Með frv. er reynt að gera skiptingu milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds mun skýrari og þá einkum að því leyti er lýtur að fjárveitingavaldinu. Hér er verið að stíga stórt skref til að auka sjálfstæði Alþingis og undirstrika að Alþingi, einn þriðjungur ríkisvaldsins, á að vera sjálfstætt. Hlutverk þess er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og reyndar dómsvaldinu líka og það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið. Þetta er rækilega undirstrikað í frv. Þetta er umræða sem hefur átt sér stað um margra ára skeið en hefur gengið erfiðlega að fá breytingar á. Ég hygg að með þessu frv. séu þeir að vinna nokkurn sigur, sem gjarnan kalla sig ,,parliamentarista`` og hafa viljað sjá veg þingsins sem mestan og auka vald þess og greina á milli valdastofnana samfélagsins.

Samt sem áður má betur gera og það hefur margt tíðkast hér í stjórnkerfinu sem ég hygg að önnur þing mundu ekki sætta sig við. Þar vil ég m.a. benda á það sem kemur fram í athugasemdum með 30. gr. upphaflegs frv. þar sem verið er að tala um samráð fjmrn. og fjárln. Á bls. 31 kemur fram að um árabil hefur verið starfandi nefnd skipuð formanni og varformanni fjárln. Alþingis auk fulltrúa fjmrn. við undirbúning fjárlaga. Þeir sem eiga að taka við frv. til fjárlaga og skoða það og kveða upp úr hafa um árabil komið að gerð frv. og verið í eins konar samráðsnefnd. Auðvitað er þetta ekkert einsdæmi. Þingmenn eru að starfa með framkvæmdarvaldinu að undirbúningi ýmissa mála og við teljum það að mörgu leyti sjálfsagt en það er ekki eðlilegt þegar svo hinir sömu þingmenn setjast inn í þingnefnd og fjalla um það sama mál þannig að málið fær ekki hlutlausa skoðun. Þetta er eitt af því sem ég tel að við þurfum að skoða mjög rækilega í störfum þingsins og hvort það sé eðlilegt að þingmenn komi að málum með þessum hætti. Ég tel að þetta samræmist ekki þrískiptingu ríkisvaldsins. En auðvitað brýtur nauðsyn oft lög.

[23:00]

Ég vil sérstaklega víkja að þeim greinum sem hafa verið mest til umræðu í kvöld og vil taka fram að ég ákvað að vera ekki með fyrirvara á nál. sérnefndarinnar. Það þýðir ekki að ég sé fullkomlega ánægð með allt eða hafi ekki efasemdir um einstök atriði þessa frv. en ég tel þó að í nál. og skýringum sem koma fram í nál. hafi verið komið verulega til móts við mín sjónarmið og annarra þannig að þar sé flest orðið ásættanlegt. Ég tók undir það sjónarmið sem fram kom hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni að efni 30. gr. frv., þ.e. þjónustusamningar, ættu frekar heima í sérlögum. Og það stingur auðvitað í stúf að 30. gr. verðandi laga um fjárreiður ríkisins er miklu ítarlegri en allar aðrar greinar og það er náttúrlega vegna þess að í hana hefur verið lögð gríðarleg vinna og mikil áhersla lögð á að skýra hvað þarna er á ferð enda kom upp gagnrýni og ábendingar þess efnis að eins og greinin var úr garði gerð þá stæðist hún ekki stjórnarskrána. Þarna væri um allt of mikið framsal valds að ræða og það var auðvitað reynt að ná utan um þau sjónarmið þannig að greinin stæðist.

Ég hef tekið eftir því að nokkrir þingmenn hafa beint mjög harðri gagnrýni að 30. gr. og talið að hér væri verið að hefja gríðarlega einkavæðingarherferð sem gæti orðið samfélaginu stórhættuleg. Ég tel að það sé mjög orðum aukið og reyndar misskilningur. Ég tel að þarna sé um misskilning að ræða og vil ég þá rifja upp að ég hef á undanförnum árum margsinnis gagnrýnt einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar og það er auðvitað alls ekki sama hvað er verið að einkavæða eða hvernig. Það tengist því sem fram kom í ræðu áðan að nauðsynlegt er að skilgreina hlutverk ríkisins upp á nýtt, skilgreina hvaða þjónustu ríkið á að sinna, hvaða þjónustu á að tryggja og hvernig. Það er ekki alltaf meginatriði hver sinnir þeirri þjónustu heldur að það sé gert og að réttur fólks sé tryggður. Það sem skiptir mestu máli varðandi einkavæðingu er að ekki sé verið að afhenda eigur almennings og þar með að þjappa saman valdi og auði í samfélaginu.

Það er nú einu sinni svo, hæstv. forseti, að á undanförnum árum hafa verið gerðir allmargir þjónustusamningar og á mörgum sviðum. Nú bið ég hv. þm. Ögmund Jónasson að hlusta sérstaklega vegna þess að það er hann sem hefur beint mjög harðri gagnrýni að þessari grein. Ég vil benda á að um árabil hafa verið gerðir þjónustusamningar í barnaverndarmálum á vegum félmrn. við heimili, fjölskyldur út um allt land og ég veit ekki betur en að þeir þjónustusamningar hafi skilað mjög góðum árangri. Ég hef ekki heyrt neina gagnrýni á þá.

Fyrir nokkrum árum var gerður þjónustusamningur á sviði menntamála við Kvennaskólann í Reykjavík. Þar er þó galli á gjöf Njarðar því ekki hafa fylgt nægilegar fjárveitingar til þess að skólinn gæti gert verulegar breytingar eða að þeir sem þar vinna hafi fengið umbun fyrir mikla skipulagsvinnu. Og þannig vill það nú oft verða þegar ríkið er að semja og breyta að þá fylgir ekki það fjármagn sem þarf.

Á sviði heilbrigðismála hefur verið gerður þjónustusamningur við bæjarstjórnina á Höfn í Hornafirði sem hefur tekið þar að sér heilsugæslu. Gerður hefur verið þjónustusamningur við Akureyrarbæ um málefni fatlaðra. Þetta er hluti af reynslusveitarfélagaverkefnunum. Allt eru þetta þjónustusamningar. Ef ég man rétt --- ég held ég fari rétt með það --- þá er líka í gildi þjónustusamningur við Geislavarnir ríkisins.

Þarna er verið að gera tilraunir um meiri sjálfsstjórn og öðruvísi rekstrarform og það sem skiptir meginmáli, hæstv. forseti, er að allar þessar stofnanir eru á fjárlögum og því er það mergurinn málsins að sé meiri hluti Alþingis hverju sinni ekki sáttur við þá þjónustusamninga sem gerðir hafa verið þá getur hann gripið inn í enda stendur í brtt., og ég vil vekja sérstaka athygli á því, með leyfi forseta:

,,Einstökum ráðherrum er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir ráðuneytið heyra, til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila,`` --- samanber fjölskyldurnar úti á landi sem hafa tekið að sér barnaverndarverkefni --- ,,enda sé áætlað fyrir verkefninu í fjárlögum.``

Á hverju einasta ári koma hér inn á fjárlögum áætlanir um kostnað í samræmi við þann þjónustusamning sem viðkomandi ráðherra hefur gert. Ég tel því alls ekki hægt að túlka þessa grein sem svo að verið sé að framselja vald til lengri tíma og hér er líka kveðið mjög skýrt á um, eins og segir, með leyfi forseta, að:

,,Einkaaðila verður þó ekki með samningi skv. 1. mgr. falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur manna nema sérstök heimild sé til þess í lögum.``

Þetta skil ég þannig að réttindi fólks, rétturinn til þjónustu sé tryggður og það er mjög mikilvægt atriði. Ég vil túlka það þannig að hér sé verið að gera ákveðnar tilraunir með rekstrarform eða hugsanlega að bjóða út ákveðinn rekstur. Þessi verkefni koma fram á fjárlögum og það er skylda samkvæmt lögunum að með fjárlagafrv. fylgi greinargerð um áformaða samninga þannig að það verður mjög auðvelt að fylgjast með framkvæmd þessara mála. Á hverju einasta ári eru þessar stofnanir sem samningar hafa verið gerðir við hér á fjárlögum. Það sem er reyndar ekki tíundað nægilega, t.d. í fjárlagafrv. --- ég var að fletta þessu upp varðandi félmrn. --- er að þar eru þessi heimili undir einum lið þannig að það er ekki svo auðvelt að gera sér grein fyrir því hversu mikið hver þjónustusamningur felur í sér. Ég tel að ekki sé ástæða til að óttast þetta ákvæði enda ef eitthvað ber út af þá getur Alþingi gripið inn í og vil ég þar enn einu sinni vitna í spá hæstv. félmrh. sem býst við því að núv. ríkisstjórn tapi í næstu kosningum og núv. stjórnarandstaða nái völdum. Hann hefur spáð því hér í umræðum. En það er nú ekki það sem skiptir máli heldur fyrst og fremst það að lögin séu þannig úr garði gerð að þau standist. Ef ég tryði því að hér væri verið að framselja vald og að kippa grundvelli undan opinberri þjónustu eða rétti fólks t.d. til heilsugæslu eða menntunar þá mundi mér að sjálfsögðu aldrei nokkurn tíma detta í hug að styðja þetta ákvæði. En ég tel að hér hafi verið náð býsna vel utan um þetta og að það sé sjálfsagt og eðlilegt að ríkisvaldið eða viðkomandi ráðuneyti geri samninga um ýmiss konar rekstur eins og hefur verið gert hingað til svo árum skiptir á ýmsum sviðum. Ég vildi að þetta kæmi hér mjög skýrt fram, hæstv. forseti.

Hitt atriðið sem hér hefur verið mikið rætt og ég hef líka ákveðnar efasemdir um er varðandi 33. gr. frv. Þar breytir nú ekki öllu í mínum huga þó að ráðherra beri skylda til þess að gera fjárln. Alþingis grein fyrir ófyrirséðum greiðslum. Það er auðvitað ágætt. Það þýðir að þingið og þar af leiðandi allir þingflokkar geta fylgst mjög náið með slíkum aukagreiðslum. Ef ég hefði beinar tillögur um það hvernig væri hægt að ná utan um þetta mál þá vildi ég gjarnan leggja þær fram. Ég lít þannig á að hér sé verið að þrengja þá reglu sem hér hefur verið í gildi um árabil. Með lagagreininni er verið að þrengja hina gildandi reglu sem hefur ekki haft stoð í lögum en þar með er auðvitað verið að lögfesta hana. Það er verið að lögfesta heimildir til þess að fara fram úr fjárlögum. Ég held að ekki sé hægt að komast hjá því að það sé farið fram úr fjárlögum og að oft þurfi að bregðast við. Ég vil í því sambandi t.d. nefna dóma sem hafa fallið á ríkið. Það hlýtur að vera augljóst að það er almannahagur að ríkið bregðist við sem allra fyrst og að það falli ekki miklir dráttarvextir á ríkissjóð eins og reyndar eru nú dæmi um þar sem það hefur verið teygt og togað að greiða samkvæmt áföllnum dómum. Ég vil túlka þessa grein mjög þröngt, þ.e. að hér sé í raun og veru um neyðarrétt að ræða, það beri aðeins að grípa til þess ráðs þegar brýna nauðsyn ber til. En það er staðreynd, hæstv. forseti, að á undanförnum árum og áratugum hefur verið farið mjög frjálslega með aukafjárveitingar og við höfum séð það í aukafjárlögum ár eftir ár að þau eru upp á marga milljarða. Farið er fram úr fjárveitingum svo milljörðum skiptir og ég hef margsinnis haldið því fram í umræðum hér að þetta sé eins konar bókhaldstrikk, að það sé verið að blekkja og menn séu að reyna að láta hlutina líta betur út þegar fjárlög eru lögð fram en svo kemur auðvitað í ljós að þau standast ekki. Í þessu sambandi vil ég líka minna á að þess eru dæmi að Alþingi hafi ekki staðfest gjörninga ráðherra. Þar er reyndar um mál að ræða sem hafa tekið mjög langan tíma í meðförum.

Að lokum, hæstv. forseti, ítreka ég það sem ég sagði hér í upphafi að ég tel að þetta frv., ef að lögum verður, marki tímamót í fjármálum ríkisins og að hér sé verið að stíga merkileg skref sem munu gera ekki aðeins alþingismönnum og þeim sem fara með fjárlagavaldið auðveldara að hafa yfirsýn heldur einnig öllum almenningi í landinu. Það er í þágu lýðræðisins og því er hér um hið besta mál að ræða þótt tíunda megi efasemdir um einstaka ákvæði og það hvernig farið er með fjárveitingavaldið og vísa ég þar sérstaklega til 33. gr.