Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 23:55:42 (6386)

1997-05-13 23:55:42# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[23:55]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Hæstv. forseti. Þetta er rétt. Ég hef átt símtal við hæstv. fjmrh. Hann á óhægt um vik að koma hingað til umræðunnar, bauðst engu að síður til þess að koma þrátt fyrir það, en af því verður ekki. Ég hef fallist á að af því verði ekki vegna þess að ég virði þessar aðstæður.

Hins vegar hefði verið eðlilegt að kalla hvern einasta ráðherra hingað til umræðunnar vegna þess að við erum að fjalla um frv. þar sem Alþingi afsalar sér valdi til hvers einasta ráðherra ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt því frv. sem við erum með til umfjöllunar og menn ætla að gera að lögum geta einstakir ráðherrar, hver einstakur ráðherra, tekið ákvörðun um að gerbreyta rekstrarformi ríkisstofnana með einu símtali við hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson. Það er það eina sem þarf til. Það þarf að virða fjárhagsrammann sem settur er og í sumum tilvikum setja sérlögum ákveðnar skorður, en að öðru leyti þarf ekki annað en eitt símtal við Friðrik Sophusson, hæstv. fjmrh., til þess að einkavæðing nái fram að ganga. Þetta er mergurinn málsins.

Við erum að ræða lagafrv. sem hér hefur verið lýst sem tímamótalöggjöf. Menn hafa talað um þetta svona eins og verið sé að fjalla um lagabálk út frá fagurfræðilegum forsendum en ekki pólitískum. Þetta frv. er fyrst og fremst pólitík. Og um það sannfærist maður þegar lesin er 16 liður brtt. við 30. gr. frv. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Einstökum ráðherrum er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir ráðuneytið heyra, til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila, enda sé áætlað fyrir verkefninu í fjárlögum. Með rekstrarverkefni er átt við afmarkaða rekstrarþætti eða rekstur ríkisstofnunar í heild sinni vegna viðfangsefna eða þjónustu sem ýmist er kveðið á um í lögum að ríkið skuli veita og standa undir kostnaði af eða eru liðir í því að ríkisaðili geti rækt hlutverk sitt.``

Þetta segir m.a. í 16 lið brtt. við 30. gr. frv. Mér finnst ástæða til að við stöldrum ögn við og veltum því fyrir okkur hvað hér er verið að gera.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir beindi nokkrum orðum til mín fyrr í kvöld og sagði að ég hefði gagnrýnt þjónustusamninga. Það er alveg rétt. En ég gagnrýni ekki alla þjónustusamninga, síður en svo. Það hafa verið gerðir þjónustusamningar við sveitarfélög, ríkið hefur gert þjónustusamninga við sveitarfélög. Hún benti réttilega á að á sviði barnaverndarmála og í málefnum fatlaðra hafi verið gerðir þjónustusamningar sem hafi verið góðra gjalda verðir. En þjónustusamningarnir sem þessi ríkisstjórn er að reyna að koma á fót byggja á allt öðrum forsendum. Þeir byggja á allt annarri hugmyndafræði. Það er einmitt mergurinn málsins. Þetta byggir á úthugsaðri hugmyndafræði. Þessi hugmyndafræði gengur út á að einkavæða ríkisstofnanir. Er enn einu sinni verið að mála skrattann á vegginn, einkavæðing?

[24:00]

Svona spurðu menn líka í Bretlandi þegar verið var að einkavæða vatnsveiturnar, nokkuð sem menn sjá mjög eftir núna. Vatnsveitan í Yorkshire mun vera í eigu franskrar hótelkeðju sem hefur margt þarfara við peningana að gera en fjárfesta í ónýtum vatnsleiðslum, t.d. byggja vegi í Argentínu. Það er eitt það merkilegsta sem fram kom í skrifum tímaritsins Business Week um áramótin, þ.e. hve arðvænlegur bisness það er fyrir stórfyrirtæki sem sérhæfa sig í að gleypa einkavædda almannaþjónustu, hve alþjóðlegt netið er. Einkavæðing vatnsveitunnar í Yorkshire er eitt lítið dæmi um hvað gerst hefur í þeim heimi, frönsk hótelkeðja.

Til þess að koma þessum kerfisbreytingum í gegn er fyrsta skrefið að sjá til þess að almannaþjónustan verði rekin á viðskiptagrundvelli. Til þess þurfa tvær forsendur að vera fyrir hendi. Í fyrsta lagi þarf að gera starfsemina að sjálfstæðri viðskiptaeiningu og í öðru lagi þarf að breyta öllu réttindakerfi starfsmanna sem vinna í almannaþjónustunni.

Víkjum aðeins nánar að fyrra atriðinu. Það þarf að gera, segi ég, starfsemina að sjálfstæðri viðskiptaeiningu og það er gert með þjónustusamningum. Pólitíkin, löggjafinn, setur markmiðin og fjárhagsrammann. Síðan er það látið liggja á milli hluta hver það er sem framkvæmir. Það skiptir ekki máli, sagði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hér áðan, hver það er sem framkvæmir. Hið opinbera, ríkið eða sveitarfélagið, á fyrst og fremst að setja markmiðin og setja hinn fjárhagslega ramma. Það skiptir okkur minna máli hver það er sem framkvæmir. Hið opinbera á að setja umgjörðina utan um þjónustusamninginn.

Síðan þarf að breyta öllu réttindakerfinu hjá þeim sem starfa í almannaþjónustunni vegna þess að það hefur byggt á allt öðrum forsendum en hafa verið við lýði á einkamarkaði. Þetta hafa menn verið að gera. Menn gerðu þetta með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sl. vor. Þar var réttindakerfinu breytt í grundvallaratriðum. Það var höggvið á alla miðstýringu. Réttindakerfi sem höfðu verið miðstýrð og fjármögnuð af ríkissjóði eru núna tengd við einstakar stofnanir. Sama er núna að gerast með launakerfið. Hugsunin á bak við þessar lagabreytingar er sú að fá stjórnandanum öflug tæki í hendur til þess að framkvæma þjónustusamninginn, efla forstjóravaldið. Í fyrramálið eða á morgun einhvern tíma göngum við til atkvæða um svokallaðan starfsmannabandorm þar sem þetta forstjóravald er eflt og treyst. Þeir kjarasamningar sem menn eru að gera núna þessa dagana, áherslan hjá ríkisvaldinu, hefur verið í þessa átt líka, draga úr allri miðstýringu og færa allar ákvarðanir inn í stofnanir til þess að búa þær þannig undir þjónustusamningana. Út á þetta ganga þær lagabreytingar sem verið er að gera þannig að þótt þjónustusamningar sem slíkir geti verið góðra gjalda verðir og nauðsynlegir og ágætir, þá gildir öðru þegar við skoðum þetta í þessu stóra pólitíska samhengi og veltum því fyrir okkur hvaða markmið það eru sem menn setja sér. Þessi markmið hafa menn sett mjög rækilega niður innan OECD t.d. Það er orðinn mikill skýrslubunki þar sem þessar kerfisbreytingar allar eru útlistaðar. Menn hafa farið þessa leið í Bretlandi og náttúrlega gengið lengst í þessu efni í Nýja-Sjálandi.

Um miðjan desember kom hingað lagaprófessor frá Nýja-Sjálandi, dr. Jane Kelsey, og flutti hér mjög áhugavert erindi um þær breytingar sem menn hafa verið að framkvæma á Nýja-Sjálandi. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að vita aðeins í þennan fyrirlestur dr. Kelsey:

,,Ríkisreksturinn var endurskipulagður í líkingu við starfshætti einkageirans. Frá 1986 voru nánast öll ríkisfyrirtæki sem hugsanlegt var að starfrækja á viðskiptagrundvelli gerð að hlutafélögum, stjórnarmenn þeirra tilnefndir af ríkisstjórninni og fengið hlutverk atvinnurekenda, en fyrirtækjunum ætlað að starfa á sama grundvelli og einkafyrirtæki. Meiri hlutinn af þessum fyrirtækjum ásamt fleiri opinberum eignum hefur síðar verið einkavæddur að hluta eða til fulls, þar á meðal þrír ríkisbankar`` --- hvað voru þeir margir hér? Tveir? Voru það ekki tveir sem voru gerðir að hlutafélagi í dag? Þeir voru tveir --- ,,og sparisjóðakerfið allt, opinbert tryggingafélag, járnbrautirnar, aðalflugfélag landsins, samgöngufyrirtæki sveitarfélaga, skipafélög, senditíðni fyrir útvarp og auglýsingaútvarp ríkisins, fjarskiptakerfi, dreifikerfi, raforku-, olíu- og gaslindir ásamt hreinsunarstöðvum, skóglendi, fiskimið, hótel, húsnæðislánakerfið, veitustofnanir, tölvuþjónusta og ríkisprentsmiðjan. Sérstaklega var leitað að erlendum kaupendum, einkum í Ástralíu og Bandaríkjunum.

Þessi upptalning segir okkur að í Nýja-Sjálandi hefur ríkið verið á kafi í atvinnurekstri í miklu ríkari mæli en hefur verið hér á landi. Ég get alveg skrifað upp á það að fyrirtæki sem er í samkeppnisgeira þar sem kostir markaðarins nýtast er ekkert athugavert við að einkavæða. Gutenberg var á sínum tíma einkavædd, jafnvel SR-mjöl, ef sú verksmiðja hefði ekki verið gefin. Hún var gefin. Nú var aðalfundur hjá SR-mjöl fyrir fáeinum dögum þar sem skýrt var frá því að SR-mjöl hefur skilað þessum nýju eigendum sem ríkisstjórnin gaf SR-mjöl, hálfum milljarði í hreinan hagnað á einu ári, hálfum milljarði, tæpum þó, á einu ári. Það minnist ekki nokkur maður á þetta. En við erum með ríkisstjórn í landinu sem er að skerða kjör öryrkja og aldraðra, vaknar við það á morgnana og sofnar við það á kvöldin hvernig eigi nú að reyna að ná einhverju af öryrkjum, öldruðum og lasburða fólki. Nei, SR-mjöl, fyrirtækið sem hún gaf einkavinunum, hefur skilað í þeirra vasa á einu ári tæpum hálfum milljarði króna, bara hreinn gróði, hreinn hagnaður. Nú ætla þeir að fara sömu leið með bankana. Það var verið að samþykkja það í dag. Það var mjög merkileg atkvæðagreiðsla sem fram fór hér í dag og ég ætla að hvetja alla þá sem áhuga hafa á stjórnmálum á Íslandi að kynna sér það hvernig menn greiddu atkvæði hér í dag, hverjir það voru sem samþykktu að hlutafélagavæða ríkisbankana og koma þeim á bak við tjöldin og upplýsingunum niður í skúffurnar því að nú er það senn liðin tíð að rætt verði um kjör bankastjóra og dagpeningana og hvað það nú heitir. Eða hafa menn tekið eftir því að aldrei hafa farið fram neinar umræður um kjör bankastjóra Íslandsbanka? Það er einkamál. Á nákvæmlega sama hátt og það er leyndarmál á Nýja-Sjálandi, það er ekki lengur hægt að upplýsa um það á Nýja-Sjálandi hvað er að gerast inni á sjúkrahúsum landsins. Hvers vegna? Það er viðskiptaleyndarmál. Auðvitað er það viðskiptaleyndarmál, sjúkrahús hf. Það má ekki segja frá því. Það truflar samkeppnina.

Að hugsa sér það að gervallur Framsfl., sem ég hélt fyrir kosningar að hefði verið andvígur hlutafélagavæðingu ríkisbankanna sem tryggðu þó einhver lýðræðisleg áhrif, tryggðu að það eru ekki bara menn af einum flokki sem stýra þar málum, greiddi þessu atkvæði, þegjandi og hljóðalaust, af því að honum var skipað að gera það. Annars tapar hann valdastólunum. Það er öllu til kostandi. Og það er þetta sem er að gerast líka með þessar breytingar. Hvert frv. á fætur öðru er samþykkt hér af framsóknarmönnum hugsunarlaust, næstum því sofandi, móðir af undirgefni og fylgispekt við valdaflokkinn.

Svo ég vitni áfram í bók sem hefur að geyma fyrirlestur dr. Jane Kelsey og ég vitnaði til áðan, þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Sú starfsemi sem eftir var á vegum ráðuneytanna var fengin í hendur forstjórum sem ráðnir eru til ákveðins tíma á launum sem tengd eru frammistöðu. Með lögum um ríkisgeirann frá 1988 voru afnumin öll sérstök ráðningarkjör opinberra starfsmanna svo að hinn minnkandi hópur fastráðinna starfsmanna ríkis og sveitarfélaga býr síðan við vinnurétt einkageirans. Ári síðar komu lög um opinber fjármál. Samkvæmt þeim gerir hver ríkisforstjóri samning við ráðherra um að stofnun hans skili tilteknu verki fyrir umsamin fjárframlög og er frammistaða hennar metin á þeim grundvelli. Vinna við opinbera stefnumótun var í vaxandi mæli falin verktökum úr þeirri blómlegu atvinnugrein sem einkarekin ráðgjafar- og stjórnunarfyrirtæki voru orðin. Vísindastarfsemi ríkisins var að mestu leyti klofin upp í sjálfstæðar rannsóknastofnanir sem ætlað var að setja upp fullt kostnaðarverð fyrir þjónustu sína og að keppa við stofnanir einkageirans um styrki frá opinberum vísindasjóði þar sem ríkisstjórnin ákvarðar áherslur og fjárframlög. Ríkisrekin sjúkrahús voru gerð að opinberum heilbrigðisfyrirtækjum og ætlast til að þau næðu árangri í rekstri eins og hver önnur gróðafyrirtæki. Þau áttu, líkt og rannsóknastofnanir, að keppa við einkaaðila um hlutdeild í ríkisframlögum til heilbrigðismála. Þá var húsnæðisstofnuninni, sem hafði öðrum fremur mætt þörfum forgangshópa á leigumarkaði, breytt í fyrirtæki sem tók við rekstri þess sem eftir var af leiguhúsnæði í eigu ríkisins og var skylda hennar að ávaxta þá eign í stað þess að rækja þjónustuhlutverk.

[24:15]

Í menntamálum var ábyrgð á rekstri grunn- og framhaldsskóla færð til skólanefnda í hverju byggðarlagi. Stjórnin tryggði þeim viss fjárframlög og gaf þeim síðan frjálsar hendur til að ákveða hvað þær vildu helst kosta upp á, til að ákveða sjálfar hvaða réttindakröfur gera skyldi til kennara og í vaxandi mæli til að semja við þá um kaup og kjör. Til að réttlæta skert framlög til háskólanna og knýja þá til að laga sig að eftirspurn markaðarins var hlutverk þeirra endurskilgreint sem sala á þjónustu sem stúdentar kaupa fyrir skólagjöld sín. Aðsókn jókst stórlega að sérfræðilegu háskólanámi. Iðnmenntastofnanir sem reknar eru og kostaðar af atvinnuvegunum sjálfum hafa hins vegar verið í fjársvelti og af því leitt alvarlegan hörgul á verkmenntun í landinu.

Eftir því sem fleiri urðu háðir hjálp velferðarkerfisins var rétturinn til bóta þrengdur og bótaupphæðir skertar. Í efnahagsráðstöfunum sem Ruth Richardson kynnti í desember 1990 ...`` --- Hver skyldi Ruth Richardson vera? Hún kom hingað í boði hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar fyrir tveimur árum. Þetta er sérstök lærimóðir íslensku ríkisstjórnarinnar. --- ,,Í efnahagsráðstöfunum sem Ruth Richardson kynnti í desember 1990 og í fjárlagafrumvarpi hennar árið eftir var efnt til stórfellds niðurskurðar á tryggingabótum, ríkisútgjöldum og niðurgreiðslum á mikilvægustu samfélagsþjónustu. Landsmenn voru flokkaðir eftir því hvort þeir nutu hárra tekna, miðlungstekna eða lágra. Síðan urðu flokkarnir aðeins tveir svo að afmarka mætti hverjir nytu niðurgreiddrar heilbrigðisþjónustu. Skólar tóku að láta nemendur greiða frjálst framlag og reyndu að drýgja tekjur sínar með aðferðum hins frjálsa framtaks ...`` o.s.frv.

Síðan segir hér: ,,Á 12 árum hefur efnahagslífi Nýja-Sjálands verið umbylt ásamt stjórnmálum landsins, samfélagsháttum og menningarlífi. Enn var sótt fram og gagnrýni beint að of háum tekjusköttum, að framleiðsluráðunum sem enn voru starfandi í útflutningsgreinum, að þeim kostnaði sem það ylli fyrirtækjum að fylgja reglum um nýtingu náttúruauðlinda, slysabætur, heilbrigðis- og öryggismál, neytendavernd og mannréttindi og eignarhaldið á þeim fáu fyrirtækjum sem enn voru rekin fyrir reikning þess opinbera þótt á viðskiptagrundvelli væri, en þetta voru minni háttar ásteytingarsteinar. Í stórum dráttum var kerfisbreytingin í höfn.``

Þetta segir m.a. í þessum fyrirlestri Jane Kelsey, prófessors við lagadeild háskólans í Auckland á Nýja-Sjálandi, en þetta erindi flutti hún 16. desember sl.

Mér finnst mjög mikilvægt, og sú er ástæðan fyrir því að ég les upp úr þessum fyrirlestri, að menn geri sér grein fyrir því hvað hér er að gerast, ekki bara með því lagafrv. sem hér er til umræðu, heldur með allri lagasmíðinni sem kemur frá ríkisstjórninni þessa dagana, þessa mánuðina og þessi missirin.

Nú ætla ég að spyrja að því hvort ætla megi að þessar breytingar sem hér er lýst, geti verið til góðs, þær geti leitt til betri þjónustu, geti stuðlað að betri þjónustu. Við verðum að spyrja þessarar spurningar: Hvernig væri hægt að tryggja betri þjónustu með þessu fyrirkomulagi? Það eru tvær leiðir að mínu mati. Það er annars vegar með eftirliti og hins vegar með valfrelsi, með markaðslausnum.

Ef við víkjum fyrst að eftirlitinu, þá getur eftirlitið komið frá einstaklingnum en hann má sín lítils ef hann getur ekki snúið sér eitthvað annað, ef hann sækir sinn skóla í sínu hverfi eða sína heilsugæslustöð, ef hann getur ekki snúið sér annað, þá kemur hans eftirlit að litlum notum nema hann getur væntanlega kvartað eitthvað. Þetta er ein leiðin sem farin hefur verið þar sem einkavætt hefur verið á sviðum þar sem samkeppni verður ekki komið við eða er ekki við lýði, þá er komið á fót eftirlitsstofnunum. Þetta þekkjum við frá Bretlandi eftir að síminn var einkavæddur. Þar var búin til OFFTEL-stofnunin sem er rannsóknarstofnun og eftirlitsstofnun með símaþjónustunni í Bretlandi. Þessar eftirlitsstofnanir eru mjög blómstrandi iðnaður í þessu landi einkavæðingarinnar. Þetta er ein leið.

Hin leiðin er að reyna að binda í samninga þessi markmið sem löggjafinn ætlast til að sé framfylgt. Í 30. gr. er kveðið sérstaklega á um þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í samningi um rekstrarverkefni samkvæmt þessari grein skal m.a. skilgreina umfang og gæði þeirrar þjónustu sem ríkissjóður kaupir, samningstíma, greiðslur úr ríkissjóði, eftirlit með þjónustu og meðferð ágreiningsmála. Lög um opinber innkaup gilda um útboð rekstrarverkefna. Samningstími skal lengstur vera sex ár í senn en þó er heimilt að semja til lengri tíma ef verkkaupi gerir kröfu um að verksali byggi upp kostnaðarsama aðstöðu eða búnað vegna verkefnisins. Uppsagnarfrestur samnings skal stystur vera þrír mánuðir. Fjármálaráðherra --- takið eftir þessu --- skal setja nánari reglur um undirbúning, gerð og eftirlit með samningum samkvæmt þessari grein og um þær almennu kröfur sem gera skal til samningsaðila, svo sem um fjárhagslegt bolmagn, faglega þekkingu og aðstöðu.``

Þetta segir í 30. gr. eins og hún lítur út eftir brtt. nefndarinnar.

Þetta gerðu þeir líka á Nýja-Sjálandi. Þar fóru þeir þessa leið líka, gerðu svona þjónustusamninga og ætluðu að leysa öll heimsins vandamál með þeim. En hvað skyldi hafa gerst? Ég ætla ekki að þreyta menn með löngum upplestri úr þessum fyrirlestri að nýju. Ég held að þingmenn hefðu allir gott af því að kynna sér þetta merka rit, en hér kemur þó fram að eftir nokkurn tíma hafi komið í ljós að þörf hafi orðið fyrir mikinn fjölda aðgerða við kaupsamninga, skýrslugerð og eftirlit sem kostað hafi mikið fé, einkum hjá smærri einingum, og étið upp mikið af því sem á hafði unnist í hagkvæmni. Árlegir þjónustusamningar við opinberar stofnanir hafa ýtt undir skammtímahugsunarhátt og þröng viðhorf á kostnað sveigjanleika, nýbreytni og framsýnnar áætlunargerðar. Í þessu frv. horfa menn reyndar til lengri tíma en eins árs, en engu að síður er þetta sagt hér. Þau gagnstæðu hlutverk sem felast í því að vera aðilar að samningi hafi viljað leiða til þess að sameiginleg gildi hyrfu í skuggann og erfitt yrði að standa vörð um hagsmuni þriðja aðila. Með því að aðgreina stefnumótun, eftirlit og framkvæmd hefðu sumar stofnanir orðið óþarflega ósamstæðar. Ráðherrar hafi einkum séð hlutverk sitt í því að ná góðum þjónustusamningum og þess vegna ekki gefið því nægan gaum að efla til frambúðar getu ríkisstofnana til að skila sínu verki né tryggja að hið opinbera geti skilað því sem til sé ætlast fyrir hagkerfi og samfélag. Ríkisvaldið þurfi að vera þess megnugt að ná víðtækari markmiðum til að framfylgja settri stefnu og búa í haginn fyrir framtíðina. Viss skref hefðu nýlega verið stigin í þá átt, en meira þyrfti til.

Þjónustusamningarnir og þeir samningar sem kveðið er á um í þessum lögum dugðu skammt á Nýja-Sjálandi. Hvaða lausnir skyldu menn hafa fundið þá? Það var að sjálfsögðu að stíga næstu skref, næstu skref í átt til einkavæðingar. Hvaðan skyldi þrýstingurinn hafa komið? Hann kom náttúrlega frá hugmyndafræðingunum, þessum með eitt auga í miðju enni sem keyrðu bara beint áfram á sína einkavæðingu og umbyltingu í þjóðfélaginu og síðan hygg ég að í einhverjum mæli hafi farið að koma þrýstingur frá samfélaginu, frá fólkinu, einkum og sér í lagi ríkari hluta samfélagsins sem vildi geta keypt sér betri þjónustu. Hvers vegna betri þjónustu? Vegna þess að menn voru búnir að finna kerfi sem hafði í för með sér að ríkisstofnanirnar sjálfar skáru sig niður við trog. Það var þetta sem ríkisstjórnin hér undir forustu hæstv. fjmrh. lögfesti sl. vor. Í 9. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var sett ákvæði þess efnis að forstöðumenn gætu umbunað starfsmönnum sem stæðu sig sérstaklega vel. En eitt skilyrði varð þó að vera fyrir hendi. Hvað skyldi það hafa verið? Jú, að þeir væru innan fjárlagarammans. Annars var það ólöglegt. Skyldu spítalarnir geta gert það? Nei, varla. Skólarnir? Varla. Einhverjar stofnanir hugsanlega gætu það, en hinar gætu það hugsanlega ef þær skæru niður, drægju úr þjónustu og fækkuðu fólki. Þá gætu þeir það. Þess vegna var innbyggður í þetta kerfi niðurskurðarhnífur. Leiðin til að umbuna fólki var að rýra þjónustuna, draga úr tilkostnaði með því að fækka fólki eða rýra þjónustuna.

Samtök launafólks fengu því hins vegar áorkað að hæstv. fjmrh. setti þessa lagaklásúlu á ís um sinn eða þar til samið verður um reglur sem eiga að gilda um þessar greiðslur. Þær koma sennilega aldrei til vegna þess að það stóð aldrei til. Þetta átti að byggja á forstjóravaldinu. Þetta var liður í því að markaðsvæða þessar stofnanir og liður í því að koma þeim undir niðurskurðarhnífinn, sinn eigin niðurskurðarhníf. Út á það gengu þessar lagabreytingar.

Þess vegna fannst mér allt að því, hvað eigum við að segja, skondið, næstum því grátbroslegt, þegar hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði að þjónustusamningarnir væru svo ágætir og hefðu reynst svo prýðilega í Kvennaskólanum, bara einn hængur þar á. Allt of litlir peningar. Til þess er leikurinn gerður. Koma 100 millj. í ár, 95 næstu ár. En þeir eru svo skemmtilega duglegir við að vinna málstað sínum fylgi, frjálshyggjumennirnir, sýna hvað þjónustusamningarnir hafa reynst vel að ég held að þeir hafi sæmt Kvennaskólann, sem er alls góðs maklegur, sérstakri viðurkenningu og gott ef það eru ekki Geislavarnir ríkisins líka fyrir að standa sig alveg sérdeilis vel. Það eru stofnanir sem hefðu staðið sig betur en, held ég, nokkrar aðrar stofnanir í landinu. Hvernig var það fundið út? Jú, m.a. með könnun. Ég var svo heppinn að fá eyðublað til að fylla út. Á eyðublaðinu voru held ég einar 300 stofnanir tilgreindar og þeir sem fengu þetta eyðublað áttu að krossa við hverjar væru bestar. Ég hef aldrei komið inn í Kvennaskólann. Ég veit ekki hvar Geislavarnir ríkisins eru til húsa. En þetta var nú könnunin. Svona er unnið vísindalega til að finna hve vel stofnanir rækja hlutverk sitt.

[24:30]

Kvennaskólinn fékk bara allt of litla peninga. Það var vandinn í þessu máli.

Þegar þetta gerist, þegar búið er að skerða þjónustuna um hríð þannig að stofnanirnar standa sig ekki lengur, sinna ekki hlutverki sínu nógu vel, þá segir fólk: Við viljum borga. Af hverju fáum við ekki að stytta biðlistana með því að borga okkur fram fyrir? Hvers vegna í ósköpunum fáum við það ekki? Hvers vegna fáum við ekki betri skóla með því að fá bara einkaskóla? Þetta er það sem gerist. Það kemur þrýstingur úr þjóðfélaginu líka. Og það eru þær kerfisbreytingar sem verið er að reyna að þröngva hér í gegn, að markaðsvæða almannaþjónustuna. Þá munu menn koma upp, að sjálfsögðu þegar búið er að gera það, búið er að koma á samkeppni í sjúkra- og heilbrigðisþjónustunni, í skólakerfinu. Þá munu að sjálfsögðu rísa upp menn, Samkeppnisstofnun án efa, og allir merkisberar heilbrigðra viðskiptahátta og segja: Ríkið á ekki að vera að vasast í hlutum sem einkaaðilar geta sinnt, þar sem samkeppni ríkir. Það segir sig sjálft.

Þegar við erum komin á þennan stað er sköpunarverkið fullkomið. Með frv. er verið að halda í þessa átt. Með þessu frv. sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið hér upp og lýst sem tímamótafrv., stórkostlegri lagasmíð, þá fer það fram hjá mönnum að þetta eru þær breytingar sem verið er að gera, vona ég. Ég vona að það fari fram hjá mönnum. Ég vona að svo sé ekki að menn séu að gera þetta með opnum huga.

Við vorum að fá upplýsingar um það í dag frá nefnd sem hefur verið að skoða Leifsstöð, Fríhöfnina í Keflavík, að þar þurfi að gera umbætur og breytingar. Þar þurfi endilega að koma á samkeppni. Fríhöfnin skilar núna 750 millj. á ári í ríkissjóð og dugar skammt og enn þá skemmra þegar búið verður að einkavæða.

Mobutu Sese Seko heitir maður og er æðstráðandi í Saír. Hann benti á það fyrir nokkuð mörgum árum að það gengi ekki að hafa einokun á flugvellinum í Kinshasa. Hann lét opna þar nokkrar búðir til að fá samkeppni. (SvG: Það eru víðar opnar búðir á flugvöllum.) Það er víðar opnar búðir á flugvöllum. Hverjir skyldu reka þessar búðir? Það voru að sjálfsögðu skyldmenni Mobutus Sese Seko. Þeir fengu meira að segja nokkur hlið til að rukka við. Það er þetta sem ríkisstjórnin ætlar að gera í Fríhöfninni í Keflavík. Hún ætlar að láta einkavini komast ofan í gullkistuna þar sem ríkissjóður fær núna 750 millj. á ári. Hún ætlar að búa til nokkra milliliði, setja nokkra einkavini þangað inn til þess að rýra þessar tekjur ríkissjóðs. En hún ætlar að gera meira. Hún ætlar að einkavæða vopnaleitina í Fríhöfninni á flugvellinum. Maður spyr sjálfan sig hvaða fyrirtæki þar eiga að koma til sögunnar, hvort það séu sérfræðingar í neyðartappaþjónustu Securitas. Ég veit ekki hvort það er það fyrirtæki eða hvaða einkavinir ríkisstjórnarinnar munu fá það verkefni.

Ég vek athygli á þessu einfaldlega vegna þess að með frv. er verið að opna á heimild til einstakra ráðherra til að ráðskast með almannaeignir án þess að um það fari fram umræða hér. Nú getur vel verið að mönnum hafi fundist skynsamlegt að einkavæða SR-mjöl t.d. Mér fannst það t.d. ekkert óskynsamlegt. Ég hefði ekki viljað gefa fyrirtækið. Ég hefði ekki viljað gera SR-mjöl að ránsfeng, það hefði ég ekki viljað. Ég hefði viljað að Alþingi og ríkisstjórn hefðu gætt almannahagsmuna þar.

Ég var ekki á því máli að einkavæða Lyfjaverslunina sem skilaði 30 millj. á ári í ríkissjóð. Það var notað til að fjármagna bólusetningar hjá gamla fólkinu. Ég hefði ekki viljað gera það. Ég hefði ekki viljað einkavæða bankana eins og verið var að gera hér í dag. Ég er ekki á því máli en það eru margir á því máli og meiri hluti hér í salnum er á því máli og það er ekkert við það að athuga. Það er bara lýðræði. Það er lýðræði sem ég vil að við stöndum vörð um. Við stöndum vörð um Alþingi Íslendinga og við látum ekki fara í gegnum þingið frv. sem framselur vald þessarar stofnunar til framkvæmdarvaldsins, einstakra ráðherra sem þurfa ekki annað en hringja í hæstv. ráðherra Friðrik Sophusson til að umturna almannaþjónustunni. Og dæmin hræða. Eða fannst mönnum óeðlileg sú umræða sem fram fór hér í dag um flughöfnina? Á að reyna að kæfa svona umræðu? Á að reyna að kæfa umræðu um hvernig á að ráðstafa tæpum milljarði sem kemur í ríkiskassann? Á að reyna að stöðva svona umræðu? Það er það sem verið er að gera með þessu frv. Mér finnst það vera mjög alvarlegur hlutur ef menn eru að tala um þessa lagasmíð á fagurfræðilegum nótum.

Nú vil ég taka það fram að margt í þessu frv. kann að vera mjög gott. En það breytir ekki því að með því er verið að gera grundvallarbreytingar varðandi vald Alþingis og framsal á því valdi til framkvæmdarvaldsins. Ég vil hvetja menn mjög til að íhuga þessi mál mjög vel áður en þeir samþykkja þetta.

Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Kristjánsson sagði í umræðunni fyrr í kvöld að ef það vald sem væri að finna í 30. gr. yrði misnotað, þá yrði að grípa í taumana. En það gæti bara verið of seint. Ég vil minna á það líka að t.d. þegar við vorum að samþykkja lagasmíðina um réttindi og skyldur sl. vor með ýmsum greinum, sem ég er alveg sannfærður um að margir sáu eftir á að voru ekki skynsamlegar, þá hefðum við betur tekið okkur rýmri tíma og hugað aðeins betur að þessum málum og ég óttast að hið sama sé að gerast nú.

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég las þessa lagagrein og ég er að velta því fyrir mér hvort það er að eiga sér stað einhvers konar sefjun í þjóðfélaginu, bara hrein og klár sefjun. Þegar þessi lagaklásúla birtist í fyrra um þjónustusamningana, um þennan opna víxil til handa ríkisstjórninni, þá brugðust allflestir hart við og vildu stöðva þetta. Nú gera menn það ekki. Eru menn orðnir svona dofnir? (Gripið fram í.) Jú, svarið kann að vera það í hugum einhverra að það sé búið að búa svo um hnútana með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar að við þurfum ekkert að óttast. En þær breytingar sem hafa verið gerðar snúa fyrst og fremst að notanda þjónustunnar, hvernig hann stendur gagnvart þjónustunni með tilliti til réttinda og skyldna. Það sem ég er að reyna að færa rök fyrir er að þessi kerfisbreyting rýrir þjónustuna þegar til lengri tíma er litið og veikir þess vegna stöðu notandans þegar til lengri tíma er litið. Hún gerir það. Við erum að fara hér inn í allt annað kerfi. Og þar sem ég hef tekið eftir því að hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur beðið um orðið til andsvara þá þætti mér mjög fróðlegt að heyra úr hans munni hvaða skilning hann leggur í þær kerfisbreytingar sem ég hef verið að lýsa og að hvaða marki hann skrifar upp á að þetta sé rétt lýsing. Ég legg áherslu á að ég er ekki að tala bara um þetta frv. Ég er að tala um safn frumvarpa, ég er að tala um mosaikmynd sem er að verða sífellt skýrari.

Ég veit að það er ráðgert að reyna að ljúka þinginu fyrir hvítasunnu. Það er í áætluninni, en ég vil beina því til hv. þm. að þeir skoði mjög rækilega hug sinn í þessu efni. Við skulum ekki gleyma því að menn hafa verið að samþykkja hérna lagabreytingar á liðnum missirum og árum sem þeir hafa í mörgum tilvikum séð eftir vegna þess að þeir hafa ekki hugsað þær til enda. Það hefur iðulega gerst. Og ég spyr hvort það geti ekki verið að við séum með eitt slíkt lagafrv. á borðinu, ég held það. Ég vil því hvetja þá sem hafa verið fylgjandi þessari lagasmíð til að endurskoða sína afstöðu.