Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 10:35:54 (6432)

1997-05-14 10:35:54# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. minni hluta LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[10:35]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta landbn. sem er á þskj. 1220 en minni hluta landbn. skipar ásamt mér hv. þm. Ágúst Einarsson.

Það frv. sem hér er til umræðu má segja að kristalli þann ágreining sem uppi er um landbúnaðarmál á milli þingflokks jafnaðarmanna annars vegar og stjórnarflokkanna hins vegar.

Þetta frv. á upphaf sitt að rekja til sérstaks stofnlánasjóðs fyrir landbúnaðinn sem má rekja til Ræktunarsjóðs Íslands sem stofnaður var með lögum frá Alþingi í mars árið 1900. Ýmsar breytingar urðu síðan á fyrirkomulagi þessara mála þar til Stofnlánadeild landbúnaðarins tók til starfa 1962. Stofnlánadeild landbúnaðarins starfar nú samkvæmt lögum nr. 45/1971, með áorðnum breytingum. Stofnlánadeildin hefur haft tekjur úr ríkissjóði með árlegu framlagi, sérstökum sjóðagjöldum sem lögð hafa verið á framleiðsluvörur bænda og vaxtagreiðslum. Skv. 1. gr. laga nr. 45/1971 er hlutverk Stofnlánadeildarinnar að efla framleiðslu og framleiðni í íslenskum landbúnaði og treysta byggð í sveitum. Því er ljóst að frv. sem hér er til meðferðar um Lánasjóð landbúnaðarins er ekki ætlað að breyta því fyrirkomulagi sem nú ríkir í þessum málum sem rekja má aftur til síðustu aldamóta. Sú hugmyndafræði sem hér er verið að bera fram er í raun sú hin sama og ríkt hefur í þessum málum frá aldamótum. Í því kristallast vitaskuld sá ágreiningur sem er á milli okkar jafnaðarmanna annars vegar og ríkisstjórnarflokkanna hins vegar um að það rekstrarumhverfi sem bændur hafa þurft að lifa í alla þessa öld hefur ekki verið þeim til framdráttar, síður en svo. Þrátt fyrir það á að halda áfram á þeirri leið sem mörkuð hefur verið síðustu áratugi enda hefur ríkisstjórnin með framlagningu þessa frv. tekið þá pólitísku ákvörðun að viðhalda rekstri sérstaks niðurgreidds lánasjóðs fyrir landbúnaðinn þrátt fyrir að þessi stefna hafi fyrir löngu gengið sér til húðar eins og dæmin sanna og staða greinarinnar sýnir.

Í fyrsta lagi gerir minni hluti nefndarinnar athugsemdir við þá hugmyndafræði sem birtist í frv. að áfram skuli rekinn sérstakur niðurgreiddur lánasjóður fyrir landbúnaðinn. Sú niðurgreiðsla er að mestu leyti fjármögnuð af bændum sjálfum með greiðslu sjóðagjalda. Þessi hugmyndafræði um miðstýringu í fjárfestingum greinarinnar verður enn undarlegri í ljósi þess að nú þegar er offjárfesting í greininni og því engin hagfræðileg rök fyrir rekstri slíks niðurgreidds sjóðs. Minni hlutinn telur því að sú stefna, sem birtist í frv., gangi gegn þeirri almennu frelsisþróun sem orðið hefur á íslenskum fjármagnsmarkaði undanfarin ár, auk þess sem frv. sjálft gangi gegn veigamestu röksemdunum fyrir nauðsyn endurskipulagningar á íslenskum fjármagnsmarkaði sem stefnt er að með öðrum frv. ríkisstjórnarinnar sem liggja fyrir Alþingi. Því telur minni hlutinn að fara hefði átt þá leið að fella Stofnlánadeild landbúnaðarins inn í annan hvorn ríkisbankann og láta markaðinn annast almenna lánastarfsemi til landbúnaðarins eins og til annarra atvinnugreina í landinu.

Í öðru lagi gagnrýnir minni hlutinn harðlega þá útfærslu að landbúnaðurinn skuli skattlagður sérstaklega til þess að afla tekna fyrir sjóðinn, en þær síðan notaðar til þess að endurlána fé til framleiðenda greinarinnar á niðurgreiddum vöxtum. Minni hlutinn telur að þessi miðstýrða aðferðafræði sé tímaskekkja af verstu gerð og hefði talið mun eðlilegra að í stað þessara álaga á bændur hefði átt að fella þær niður. Telji ríkisvaldið áfram nauðsynlegt að styðja landbúnaðinn sérstaklega sé eðlilegra að gera það með sérstökum framlögum á fjárlögum í stað þeirrar millifærslu sem frv. gerir ráð fyrir.

Í þriðja lagi vill minni hlutinn vekja athygli á því að þrátt fyrir tilurð þessa sjóðs og þrátt fyrir að hann sé að stórum hluta fjármagnaður af greininni sjálfri eru þau skilyrði sem sett eru fyrir lánveitingum og fram koma í 7., 8. og 9. gr. frv. þannig úr garði gerð að það er mat minni hlutans að einungis lítill hluti bændastéttarinnar sé svo vel stæður að hann uppfylli þau skilyrði sem þar koma fram.

Sú hugmyndafræði, sem birtist í því að á árinu 1997 ákveða stjórnvöld að viðhalda þeirri stefnu að á íslenskum lánamarkaði skuli reka sérstakan lánasjóð sem fjármagnaður sé með því að skattleggja heila atvinnugrein í því skyni að veita niðurgreidd lán til fárra útvaldra, horfir undarlega við út frá þeirri þróun sem orðið hefur á íslenskum fjármagns- og lánamarkaði undanfarin ár.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir helstu almennu athugasemdir sem minni hlutinn hefur við frv. og langar í þessari fyrstu ræðu um lánasjóðinn að stikla síðan örlítið á einstökum greinum. Ég vil í upphafi benda á að í þessu máli hafa ríkisstjórnarflokkarnir ákveðið að löggjafinn komi sem minnst nálægt þeirri útlánastefnu sem rekin verði í þessum sjóði og finnst mér tilhlýðilegt í því sambandi að fara aðeins yfir umsögn sem Alþýðusamband Íslands sendi inn vegna þessa. En þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Í þessu lagafrumvarpi er ekki tekið nema að litlu leyti á útlánareglum Stofnlánadeildar. Í greinargerð með frv. kemur fram að ekki verður lengur skilyrði að lán fari á lögbýli og í 8. gr. frv. segir að við ákvörðun útlána skuli hafa hliðsjón af rekstrarforsendum viðkomandi greinar. Þessi athugasemd er gerð í ljós þess að fram til þessa hafa lánareglur um hámarksstærðir bygginga verið með sérstökum hætti. Á sama tíma og heimilað hefur verið að lána til fjósa og fjárhúsa sem nemur ríflegri stærð fjölskyldubúa þá hefur ekki verði heimilt að lána til alifuglaræktar, svínaræktar og garðyrkju nema sem nemur u.þ.b. hálfri stærð fjölskyldubús. Þessar lánareglur hafa því verið hemill á eðlilega þróun nýrra búgreina. Auk þess sem þær leiða til þess að sjóðagjöld frá þeim búgreinum sem ekki fá eðlilega lánafyrirgreiðslu hafa farið í vaxtaniðurgreiðslur í öðrum búgreinum. Því er eðlilegt að löggjafinn gefi skýrt til kynna hver útlánastarfsemi hins nýja lánasjóðs landbúnaðarins eigi að vera.``

Virðulegi forseti. Því miður eru í því frv. sem við ræðum hér litlar sem engar vísbendingar gefnar til stjórnar sjóðsins um það hver útlánastefna hans eigi að vera. Það er sérstakt umhugsunarefni, með tilliti til þeirra breytinga sem hafa átt sér stað á lánamarkaði undanfarin ár, að með þessu virðist það nánast vera í höndum sjóðsins hvort lán verða veitt til samkeppnisgreina og því mjög óeðlilegt að löggjafinn skuli ekki marka það mjög skýrt til hvaða greina eigi að lána og til hverra ekki, hvaða greinar eiga að fá lán á niðurgreiddum vöxtum og hverjar ekki. Í því samkeppnisþjóðfélagi sem hér hefur verið að skapast undanfarin ár er gríðarlega mikilvægt að ekki sé verið að mismuna samkeppnisgreinum með því að sumar fái lán á niðurgreiddum vöxtum og aðrar ekki. En því miður mun þetta frv. í sjálfu sér ekki höggva á neinn hnút um það og stjórn lánasjóðsins að mestu leyti í sjálfsvald sett til hverra hún lánar og hverra ekki. Löggjöf í þessu formi er því miður allt of algeng hér á Alþingi og ekki til framdráttar fyrir nokkurn sem að því máli kemur.

[10:45]

Í öðru lagi vildi ég fjalla örlítið um 8. gr. en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Um ákvörðun útlána skal hafa hliðsjón af því hverjar rekstrarforsendur viðkomandi búgreina eru og hversu há veðlán hvíla á eigninni og skal eigi veita lán ef ástæða er til að ætla að búrekstur á jörðinni geti ekki staðið undir auknum lánum.

Upphæð lána má vera allt að 60% kostnaðarverðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Lán er heimilt að veita í áföngum.``

Hér kemur að þeirri grundvallarspurningu, virðulegi forseti, að í raun og veru eru allir bændur skattlagðir með sjóðagjöldum. Allir búvöruframleiðendur eru skattlagðir til þess að standa undir þeim niðurgreiðslum á vöxtum sem eru grundvallarforsenda þess lánasjóðs sem við ræðum hér. En það eiga ekki allir kost á því að fá lán, aldeilis ekki, því þá er talað um rekstrarforsendur viðkomandi búa. Í framhaldi af því væri vitaskuld miklu eðlilegra að þeir einir greiddu sjóðagjöld sem hefðu rekstrarforsendur. Það er ekki spurt um það. Hér er augljóslega verið að búa til sjóð þar sem einungis stórbændur geta fengið lán. Það er alveg augljóst því ekki er gert ráð fyrir því að aðrir geti fengið lán heldur en stórbændur. Þess vegna er það mjög merkilegt að hver einasti bóndi í landinu skuli þurfa að greiða þessi sjóðagjöld þegar það er alveg augljóst af þeim reglum sem hér koma fram að einungis fáir útvaldir geta fengið lán. Enda er sú hugmyndafræði sem við erum að ræða hér og er grundvöllurinn að baki þessu frv. frá árinu 1900. Það er kannski eðlilegt að núv. ríkisstjórn komi fram með frv. á árinu 1997 sem byggir á hugmyndafræði frá því fyrir aldamótin. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart. En það er alveg ljóst að það verða aðeins fáir útvaldir sem geta fengið lán úr þessum sjóði, þ.e. ef stjórn sjóðsins fer eftir þeim reglum sem henni er ætlað að fylgja í þessum lögum.

Það er kveðið enn fastar að þessu í 9. gr. en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Lán má veita gegn þessum tryggingum:

a. veði í fasteign, enda hvíli eigi veðskuldir á henni til annarra en Lánasjóðs landbúnaðarins eða annarra opinberra sjóða á undan veðrétti þeim sem sjóðurinn fær, ...``

Með öðrum orðum gerir sjóðurinn kröfu um 1. veðrétt. Og ég held að afkoma bænda undanfarin ár gefi það vart til kynna að það séu mjög margar bújarðir þar sem hægt sé að komast á 1. veðrétt nema með samþykki annarra veðhafa. Hér er enn ein forsendan fyrir því að það verða aðeins fáir útvaldir sem geta fengið lán úr sjóði sem er kostaður af öllum bændum.

Því miður, virðulegi forseti, er það einu sinni svo að þegar menn eru að þeysast fram með lagafrv. sem byggja á hugmyndafræði sem löngu er gengin sér til húðar, fyrir lifandi löngu, þá er ekki von á góðu. Og því miður virðist mér að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi markað þá stefnu að þeir einir, þeir einu stórgróssérar sem teljast til stórbænda, geti fengið lán --- aðrir ekki. Það er dálítið sorglegt að svo skuli vera, sérstaklega í ljósi þess að ríkjandi stefna sem þessir tveir flokkar hafa rekið til langs tíma hefur gert það að verkum að bændur eru ekkert of sælir af sínu í dag, aldeilis ekki. Þess vegna er sorglegt að aðeins lítið brot af þeim sem standa undir þeim niðurgreiðslum á vöxtum sem hér er ætlunin að reka sjóð á geta fengið lán. Enda kemur mér ekki á óvart, virðulegi forseti, að einn helsti bændaforingi hér á þingi til margra ára, hv. þm. Egill Jónsson, skrifar ekki undir meirihlutaálit landbn. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart enda hefur það verið hans prinsipp á þinginu að reyna að gæta hags bænda.