Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 10:52:15 (6434)

1997-05-14 10:52:15# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[10:52]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég varð ögn sorgmæddur við að hlýða á formann hv. landbn. í andsvari. Í fyrsta lagi benti hann á að það að ég væri að gera þetta frv. tortryggilegt. Það eina sem ég gerði var að ég las hér upp úr 7. og 8. gr. í því frv. sem hann sjálfur átti þátt í að semja. Ef það er orðið tortryggilegt þá er vandrataður hinn gullni meðalvegur í þessari umræðu. Ég hef aðeins farið hér yfir það, ég hef bent á að öllum bændum er ætlað að taka þátt í að greiða niður vexti í þessum sjóði. Og þegar hann talar um að vera félagslega sinnaður. Er það að vera félagslega sinnaður að krefjast þess að allir bændur taki þátt í að greiða niður vexti en síðan fái einungis örfáir útvaldir lán? Ja, sér er nú hver hugmyndafræðin á bak við það að vera félagslega sinnaður. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég er hræddur um að hv. þm. hafi orðið örlítið á í messunni. Og koma síðan enn og aftur með þá hugmyndafræði að Alþfl. eigi stærstan þátt í því hvernig komið er fyrir bændum, staða bænda í dag sé Alþfl. að kenna. Þetta er svona þegar öllu er á botninn hvolft og menn gersamlega þrýtur rök þá lenda menn úti í skurði. Því miður er það nú svo, virðulegi forseti, að í þessu andsvari virtist hv. þm. enda úti í skurði og aldrei komast upp úr honum aftur.