Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 10:55:22 (6436)

1997-05-14 10:55:22# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[10:55]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit nú ekki hvort það er alfa og omega þessarar umræðu hvorum megin ég fór fram úr rúminu í morgun. Ég held að málið sé miklu alvarlegra en svo.

Sú gagnrýni sem ég hef sett hér fram lýtur fyrst og fremst að því að öllum bændum er ætlað að taka þátt í þessari niðurgreiðslu. Þegar þau gjöld hafa verið innheimt verða, samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir, mjög fáir sem standa undir þeim kröfum að geta fengið lán. Þetta er nákvæmlega kjarni málsins og hefur ekkert með það að gera hvorum megin ég fór fram úr rúminu í morgun, ekki nokkuð. Þetta er kjarni málsins og ef þetta er skilningur hv. þm. á félagshyggju þá verð ég að segja það að þá þurfum við að ræða saman betur undir fjögur augu.