Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 10:56:23 (6437)

1997-05-14 10:56:23# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[10:56]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að hv. þm. hefur ekkert farið fram úr í morgun vegna þess að hann hefur væntanlega ekkert sofið í nótt. Hann er með ýmsar fullyrðingar hérna sem er til þess að gera erfitt að skilja. Ef við horfum á lánamarkaðinn í heild sinni og ímyndum okkur t.d. þegar ungt fólk kaupir sér húsnæði. Þá á það möguleika á húsbréfum. Sumir eiga möguleika á almennum félagslegum íbúðum, aðrir á félagslegum íbúðum. Það eru mjög mismunandi vaxtakjör á þessu, allt frá 6% og niður í 2%. Það er því ekkert nýtt að það séu mismunandi vaxtakjör á lánum. En það er alveg ljóst að bændur borga ákveðin sjóðagjöld til þess að hægt sé að niðurgreiða vexti í þeim sjóði sem hér er til umfjöllunar. Ég held að eina ráðið sé að bjóða hv. þm., sem er þingmaður á Suðurlandi, austur í sveitir til þess að ræða við bændur um þessi mál. Ég er alveg viss um hann hefur ekki gert það. Því það er alveg ljóst að flestir bændur aðhyllast þetta kerfi og það er fásinna að einungis stórbændur hafi möguleika á að taka lán.