Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:00:53 (6441)

1997-05-14 11:00:53# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:00]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég hef setið í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins í bráðum þrjú og hálft ár. Þar hefur það verið baráttumál mitt í hvert sinn sem lánareglur hafa verið teknar upp að stærðartakmarkanir verði felldar niður. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel að það felist stærðarhagkvæmni í þeim landbúnaðarrekstri sem við erum með hér á landi, nánast í öllum þeim greinum sem hér eru stundaðar, og því sé óeðlilegt að lánareglur standi í vegi fyrir því að búin stækki. Ég hef því miður ekki haft árangur sem erfiði í þessu máli þótt lánareglur hafi verið rýmkaðar nokkuð á tímabilinu og það hafi verið til bóta. Ég verð því að segja það, ef það er rétt hjá hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni að hið nýja frv. um Lánasjóð landbúnaðarins muni leiða til þess að það verði auðveldara fyrir bændur sem reka stórbúskap að fá lán úr lánastofnuninni þá er það til góðs. Ég hefði haldið að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefði fagnað slíkum breytingum með mér. Alla vega hefði hann fagnað slíkum breytingum ef hann hefði farið hægra megin fram úr rúminu í dag en það er það sem virðist skipta öllu máli hvernig málflutningur þeirra þingmanna Alþfl., ég tiltek þá sérstaklega, er þann og þann daginn hvort þeir fara fram úr hægra megin eða vinstra megin að morgni.