Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:02:37 (6442)

1997-05-14 11:02:37# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:02]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Árna M. Mathiesen að það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt þegar um er að ræða lánveitingar almennt að þeim skuli hagað þannig að líklegt sé að menn geti greitt til baka. Ég get tekið undir það með hv. þm. En það sem ég var að gagnrýna hér er þessi sérstaka fjármögnun sem stendur undir þeim niðurgreiðslum sem gera það að verkum að lán úr þessum sjóði bera lægri vexti en önnur lán á markaðinum, þ.e. það eru innheimt gjöld hjá öllum en aðeins fáir geta fengið lán. Það er sú gagnrýni sem ég var að setja fram en ekki sú gagnrýni almennt að lána þeim ekki sem reka stór bú. Það er alveg grundvallarmisskilningur. Það sem ég er að gagnrýna er að fjármögnun þessa sjóðs er með mjög sérstökum hætti. Það eru lögð gjöld á alla búvöruframleiðslu en síðan eru það fáir útvaldir sem geta fengið lán. Það er grundvöllurinn í gagnrýni minni en ekki það að stórbændur geti fengið lán. Ég er ekki að gagnrýna það, virðulegi forseti.