Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:39:01 (6446)

1997-05-14 11:39:01# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:39]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hér eru að gerast nokkuð merkileg tíðindi í ræðu hv. þm. Egils Jónssonar, því að helsti talsmaður Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum til mjög margra ára fylgir ekki ríkisstjórninni í veigamestu málaflokkum sem nú eru til afgreiðslu á Alþingi, þ.e. í lánasjóðsmálinu og búnaðargjaldinu. Hér er ekki um að ræða óbreyttan þingmann stjórnarliðsins heldur fyrrum formann landbn. og núv. varaformann. Hann hefur rökstutt, bæði í nefndinni og hér í ræðustól, það að hann hefur --- og talar um framsóknarhyggju --- áttað sig betur á því að útfærsla þessara frv. er síður en svo bændum hagstæð. Ég deili skoðunum Egils Jónssonar í því efni að hér sé illa búið frv. og ég tel að það feli í sér skattlagningu bændastéttarinnar og millifærslukerfi sem hefur reynst bændum illa. Ég er ekki viss um hvort Egill Jónsson sé sammála allri minni afstöðu í landbúnaðarmálum en ég er alla vega sammála honum í því að þessi útfærsla sem ríkisstjórnin leggur til er ekki hagstæð bændum.

Við jafnaðarmenn höfum gagnrýnt landbúnaðarkerfið til mjög margra ára og við munum gera það áfram. Við erum þeirrar skoðunar að eitthvað sé að því kerfi sem skilar neytendum 30% dýrari matvörum og bændum fátækt. Við höfum margoft lagt til að reynt verði að brjóta kerfið upp og leita nýrra leiða sem gætu komið bændastéttinni betur en núverandi hagsmunavarsla sem ríkisstjórnarmeirihlutinn án Egils Jónssonar er hér að reyna að knýja fram. Þetta eru mikil tíðindi, herra forseti, sem koma fram í afstöðu hv. þm.