Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:45:34 (6449)

1997-05-14 11:45:34# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum um Lánasjóð landbúnaðarins í tengslum við búnaðargjald sem er 12. mál á dagskrá og verður rætt hér á eftir.

Í sjálfu sér er þetta mjög góð þróun. Verið er að lækka sjóðagjöld úr 610 millj. í 390 millj. kr., þ.e. úr um það bil 130 þús. kr. skatti á hvern bónda í um 80--90 þús. kr. Við hljótum að fagna því þar sem þetta er góð þróun. Af þessum 80--90 þús. kr. á hvern bónda renna um það bil 40 þús. kr. í lánasjóðinn og um það erum við að ræða. Þær 40 þús. kr. eru notaðar til að niðurgreiða lán til bænda, til þessa sama hóps nokkurn veginn. Hvernig ná bændur aftur í þessar 40 þús. kr.? Þeir ná því eingöngu með því að taka lán og fá niðurgreidda vexti, öðruvísi ná þeir ekki í 40 þús. kallinn sem þeir eru skyldaðir til að borga.

Nú er það svo að staða bænda er verulega slæm, sérstaklega staða sauðfjárbænda. Það er dapurlegt og sorglegt upp á að horfa hvernig staða bænda er. Eitt sinn var sagt: ,,Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi.`` Nú eru bændur orðnir þrælar eigin kerfis. Þetta er mjög sorgleg þróun. En nú er verið að vinda ofan af þeirri hálfrar aldar vitleysu sem hefur verið í gangi.

En þetta frv. virkar mjög undarlega. Eins og ég gat um borgar hver bóndi að meðaltali um 40 þús. kr. Þeir sem hafa minni tekjur greiða að sjálfsögðu minna en þeir sem hafa meiri tekjur meira. En þeir sem hafa minni tekjurnar eiga enga möguleika á því að fá lán. Þeir hafa eiga mögleika á að fá litlu aurana sína til baka sem þá vanhagar aldeilis um. Bændur sem eru kannski komnir með laun sem eru til skammar, þeir borga inn í þetta kerfi, en munu ekki uppfylla skilyrði 8. gr. um að ástæða sé til að ætla að búrekstur á jörðinni geti staðið undir auknum lánum. Að sjálfsögðu gera þeir það ekki þar sem þeir eru svo fátækir. Þeir munu heldur ekki uppfylla skilyrðið ,,enda hvíli eigi veðskuldir á henni [þ.e. jörðinni] til annarra en Lánasjóðs landbúnaðarins``. Þeim er gert að borga inn í kerfið --- það er kannski ekki mikið, kannski bara 10 þús. kall af því að tekjurnar eru svo óskaplega litlar en þetta fólk munar um 10.000 kr. Það er ég sannfærður um.

En þeir fá lánin sem eru með búrekstur sem getur staðið undir lánunum, þeir fá lánin. Það segir ,,enda hvíli eigi veðskuldir á henni til annarra en Lánasjóðs landbúnaðarins`` --- þeir sem eiga veð munu fá lánin. Hér er sem sagt verið að flytja peninga frá fátæku fólki til fólks sem er sæmilega vel stætt. Þetta er því miður oft á tíðum niðurstaða félagslegra kerfa sem menn eru að búa til. Mér finnst það mjög dapurlegt. Auðvitað eigum við að minnka þetta en engu að síður stendur þetta eftir.

Svo er dálítið merkilegt. Eins og ég gat um eru þetta 40 þús. kr. og menn geta náð í þetta með því að taka niðurgreidd lán. Þeir fá niðurgreidd lán, þ.e. fjárfestingin sem þeir fara út í þarf ekki að geta borgað markaðsvexti. Menn eru hvattir til að fara í fjárfestingu sem getur ekki borgað markaðsvexti. Þeir eru sem sagt hvattir til rangra fjárfestinga. Fjárfestinga sem geta ekki borgað arð, ekki venjulegan arð eins og venjulegar fjárfestingar í landinu og það er líka neikvætt.

Þær fjárfestingar sem geta virkilega borgað arð fá nægt fé í landinu í dag. Það er alls staðar hægt að fá lán ef menn eiga veð eða fjárfestingin getur örugglega borgað markaðsvexti. Það má kannski segja að það sé dálítill vandi út á landi vegna þess að þeir sem hafa þessa peninga horfa því miður enn þá mikið til Reykjavíkursvæðisins. En í auknum mæli eru þeir sem ráðstafa peningum og eru í standandi vandræðum við að koma peningunum út vegna þess að það er allt yfirfljótandi í peningum farnir að horfa til landsbyggðarinnar. Að sjálfsögðu, þangað streyma peningarnir í dag, bæði í formi hlutafjár og eins í formi lánsfjár. Þar munu bændur fá góða fyrirgreiðslu ef fjárfestingin sem þeir fara út í er góð.

Síðan kann maður að velta fyrir sér hverjir fá og hverjir greiða. Ferðaþjónustan greiðir ekkert í þetta. En bændur sem hafa blönduð bú, bæði ferðaþjónustu og annað, munu fá lán úr þessu að sjálfsögðu, ég sé ekki annað. Hverjir fá ekki lán? Það eru sauðfjárbændur, sauðfjárbændur sem eru svo fátækir að þeir geta ekki farið út í þær framkvæmdir. Þeir munu borga og fá ekki.

Eins og ég gat um í upphafi er þetta góð þróun, menn eru á réttri leið. En þetta er enn þá mjög rangt kerfi. Ég hef nokkuð rætt við bændur um hvað þeir eigi að gera. Ég hef verið að segja við þá, stækkið þið búin og kaupið þið kvóta eða seljið þið kvóta og farið að gera eitthvað annað. Þá segja þeir alltaf, ja, hvað er ég eiginlega að kaupa ef ég stækka búið?

Hver er stefnan? Hvað tekur við árið 2000 þegar búvörusamningurinn rennur út? Hætta beingreiðslurnar? Það er ekki eitt einasta merki um það neins staðar, hvorki að þær muni hætta né að þær muni halda áfram. Ef beingreiðslur hefðu verið lækkaðar þó ekki væri nema um hálft prósent á ári hefði verið gefið merki um það að þær skuli halda áfram að lækka um alla framtíð. En það var ekki, þær eru óbreyttar og allt í einu verður bara klippt á þær árið 2000. Hver er stefnan? Hvers eiga bændur að vænta? Hvernig geta menn skipulagt sig í þessari atvinnugrein? Ég spyr.

Hér er verið að setja á stofn lánasjóð. Ég lagði til við 1. umr. að það væri einhver stefna í honum líka. Sagt að gjaldið skyldi lækka árið 2000 eða 2010 í hálft prósent eða eitthvað svoleiðis, þannig að það væri einhver stefna, þannig að menn vissu að það stefndi að þessu. Nei, hér er eitthvað sem á að gilda um aldur og ævi óbreytt. Auðvitað mun það ekki gilda um aldur og ævi. Auðvitað munu bændur rísa upp á afturlappirnar, a.m.k. þeir fátækustu, og segja: Við viljum ekki borga 10 þús. kr. í eitthvert kerfi sem við fáum ekkert út úr. Að sjálfsögðu ekki.

Ég tek undir að þetta er góð þróun, menn eru á réttri leið en menn þurfa að segja bændum hvert næsta skref verður. Það vantar stefnu, það vantar stefnu til 10, 15 eða 20 ára. Allar atvinnugreinar þurfa einhvern grundvöll til 10--20 ára. Sjávarútvegurinn, verslunin, iðnaðurinn, þurfa að vita hvað bíður þeirra. Verslunin getur ekki sagt: Ég byggi hér húsnæði, ég veit hvað gerist næstu þrjú árin en svo ekki söguna meir. Það gengur ekki upp. Það þarf stefnu. Ég skora á hæstv. landbrh. að búa til stefnu í þessu máli, í búvörusamningnum. Segja við bændur: Við ætlum að hafa þessa stefnu, skera niður svona og svona mikið á ári, en það verður þá tryggt að menn fá það sem eftir stendur.