Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:59:12 (6453)

1997-05-14 11:59:12# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:59]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Í því máli sem um er að ræða er raunverulega verið að leggja til þrenns konar breytingar í meginatriðum. Í fyrsta lagi er lagt til að lánastofnun landbúnaðarins verði sjálfstæð stofnun. Í öðru lagi er verið að gera hana þannig úr garði að hún er miklum mun líkari almennri lánastofnun en Stofnlánadeild landbúnaðarins er í dag. Í þriðja lagi er verið að auka áhrif bænda á stjórn stofnunarinnar eða kannski réttara sagt að það er verið að auka áhrif Bændasamtakanna á stjórn stofnunarinnar.

[12:00]

Afstaða mín til þessara þriggja þátta er eftirfarandi: Ég hef ekki séð neina sérstaka ástæðu til þess að landbúnaðurinn þurfi sérstaka sjálfstæða lánastofnun. Og ég hef hvergi séð í íslenskum lánastofnunum að áhrif hagsmunasamtakanna hafi verið lánþegunum eitthvað sérstaklega til bóta, að útlánastarfsemin hafi verið eitthvað betri fyrir það að hagsmunasamtökin hafi átt þar aðild að. Ég er hins vegar sammála því að landbúnaðurinn eigi að lúta í sem flestum atriðum eins og mögulegt er almennum reglum um lán á lánamarkaði.

Í frv. eru hins vegar atriði sem eru mjög jákvæð miðað við það sem gildir í dag og það er sérstaklega þar sem um er að ræða þá sem greiða til stofnunarinnar og þá sem fá mögulega lán frá stofnuninni. Eins og lögin eru í dag um Stofnlánadeild landbúnaðarins þá greiða allir framleiðendur til deildarinnar en einungis þeir sem eru á lögbýlum eiga möguleika á því að fá lán frá deildinni. Þessu er breytt í frv. þannig að allir þeir sem greiða til stofnunarinnar eiga möguleika á því að fá lán. Þetta tel ég vera mikið réttlætisatriði og finnst miður að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi ekki getið þessa í ræðu sinni þar sem hann talaði um að þrengt yrði að þeim sem mögulega gætu fengið lán úr deildinni. Eftir sem áður verða lánþegarnir að uppfylla þau almennu skilyrði sem deildin setur. En það er einmitt 8. gr. sem undirstrikar það að þessi lánastofnun á að lúta almennum reglum sem lánastofnanir á almennum markaði vinna eftir og það tel ég að sé almennt jákvætt. Hins vegar er í 2. mgr. 8. gr. líka ákvæði sem gerir það að verkum að þessi stofnun mun ekki starfa alveg nákvæmlega eins og almennar lánastofnanir gera. En það er einmitt það ákvæði sem hv. þm. Egill Jónsson gagnrýndi hér áðan, að ekki mætti lána nema upp að 60% kostnaðarverðs þess sem lánað væri út á þrátt fyrir að fjárhagsstaða viðkomandi bónda og eignarstaða í öðrum eignum á býlinu gæti forsvarað það að hann fengi meira lán til þessarar einstöku framkvæmdar.

Það má líka segja að 9. gr. sem hv. þm. Egill Jónsson gagnrýndi dragi úr því að þessi stofnun starfi eftir almennum reglum lánamarkaðarins, en þar eru sérstakar reglur um veð, hvernig eigi að standa að þeim. Að vissu leyti má segja að það réttlætist af því að hér er um niðurgreidd lán að ræða en það er nú einmitt það atriði sem kannski mest er umdeilt varðandi þessa lánastofnun. Það kom einmitt mjög margt athyglisvert fram í mjög merkri ræðu hv. 3. þm. Austurl., Egils Jónssonar, hér áðan. Og þó að við kannski nálgumst ekki þessar tvær greinar, 8. og 9. gr., alveg frá sama sjónarhorni þá held ég að við komumst að sömu niðurstöðunni, þ.e. að miðað við þær aðstæður sem ríkja í atvinnugreininni og miðað við þær aðrar aðstæður sem ríkja á þessum markaði, væri skynsamlegast að leggja sjóðagjöldin af og að landbúnaðurinn lyti almennum reglum lánamarkaðarins eins og hann gerist hverju sinni sinni samkvæmt þeim lögum sem sett eru á hv. Alþingi. Þess vegna hefði ég talið skynsamlegast að Stofnlánadeildin, sem hefur verið deild í Búnaðarbankanum, hefði verið lögð inn í hann, orðið hluti af honum. Bankinn hefði orðið sterkari eftir breytinguna. Hann er reyndar sterkur en hefði orðið enn sterkari og hefði haft mikla möguleika til þess að þjónusta landbúnaðinn í framtíðinni. Og landbúnaðurinn hefði átt þar góðan bakhjarl. Búnaðarbankinn hefði síðan getað farið í það ferli sem ríkisviðskiptabankarnir eru að ganga í gegnum í dag eftir sem áður, ekki hefði þurft að trufla það.

Annar kostur sem ég hefði talið betri en sá sem valinn var að Stofnlánadeildinni hefði verið rennt inn í hinn nýja fjárfestingarbanka og hún hefði lotið þar sömu lögmálum og aðrar atvinnugreinar í landinu á þeim vettvangi. En sú leið sem valin var er að mínu mati sú lakasta af þeim sem stóð til boða. Hún er hins vegar til bóta frá því sem nú er. Hún felur í sér lækkun sjóðagjaldanna, mjög umtalsverða, og hún felur það í sér að lánveitingar til landbúnaðarins verða mun líkari því sem gerist á hinum almenna markaði en nú er. Og hún felur það í sér sérstaklega að mismunun á milli þeirra sem greiddu til deildarinnar og fengu mögulega lán eftir þeim almennu reglum sem settar væru um lánveitingarnar, er felld úr gildi. Þeir sem eru með starfsemi sína utan lögbýlis eiga möguleika á lánveitingum.

Ég hef hins vegar litið svo á að þetta frv. sé hluti af heildarpakka um breytingar á peningamarkaðinum, breytingar á banka- og lánakerfinu, bæði hvað varðar ríkisviðskiptabankana og eins hvað varðar fjárfestingarsjóði atvinnugreinanna þannig að þetta frv. sé hluti af þeirri heildarmynd þeirra þriggja frv. sem við samþykktum á hv. Alþingi í gær um ríkisviðskiptabankana, Fjárfestingarbankann og Nýsköpunarsjóðinn og þar af leiðandi hluti af því heildarsamkomulagi sem náðst hefur á milli stjórnarflokkanna um breytingar á þessu bankakerfi. Ég hef haft tækifæri til þess að koma að þeirri vinnu sem var unnin við það að ná þessu samkomulagi og þó að það sé ýmislegt þar sem ég hefði viljað sjá öðruvísi þá hefur að hluta til verið tekið tillit til minna sjónarmiða og því mun ég styðja öll þessi frv. eins og þau voru lögð fram. En eins og komið hefur fram hér í umræðum þá hef ég ekki séð mér fært að styðja eina brtt. um Nýsköpunarsjóðinn sem kom frá hv. efh.- og viðskn. Ég mun styðja málin eins og þau komu fram frá ríkisstjórninni og jafnframt þær breytingar sem lagðar eru til á þessu frv. sem ég tel að séu til bóta. Ég tel reyndar að þær séu allar til bóta og þær mun ég styðja, og því hef ég skrifað undir nál. án fyrirvara og mun greiða frv. og brtt. atkvæði mitt.