Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:08:35 (6454)

1997-05-14 12:08:35# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:08]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna M. Mathiesen fyrir skýra ræðu og góða framsetningu en ég er alveg gáttaður á hvernig hann vinnur að málinu hér þegar það kemur til 2. umr. Hann sagði að hann sæi enga þörf fyrir sérstakan lánasjóð fyrir landbúnaðinn. Ég er í sjálfu sér sammála honum um það. Það er ekki málið. Hann talaði um að besti kostur hefði verið að Stofnlánadeildin færi inn í Búnaðarbankann eða þá að Stofnlánadeildin færi inn í Fjárfestingarbankann. Þetta eru allt hugmyndir sem menn hafa rætt. En hv. þm. stendur að áliti meiri hlutans. Hann stendur að þessu máli. Hann rakkar málið niður í sinni ræðu og ég get verið sammála honum. Ég held að þetta sé mjög óskynsamlegt. Ég styð málflutning hans. En hann rakkar málið niður í öllum sínum málflutningi og segir síðan í lokin að hann ætli að styðja þetta án fyrirvara.

Herra forseti. Ég hef aldrei upplifað svona framsetningu í þinginu. Vitaskuld hafa menn leyfi til að vera með sína persónulegu afstöðu og við sáum að fyrirliði Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum styður ekki ríkisstjórnina í þessum málum. Það kom skýrt fram. Hv. þm. Árni M. Mathiesen gerir það ekki heldur en þrátt fyrir það skrifar hann undir álitið án fyrirvara þótt hann gagnrýni frv. það harkalega. Hann er á móti þessu máli. Ég skil ekki, herra forseti, þennan málflutning og ég man ekki eftir því að svona hafi gerst hér áður. Það er ósköp eðlilegt að stjórnarþingmenn komi með fyrirvara og gagnrýni ýmis atriði en skrifi samt undir nál. Þeir eru þá með fyrirvara og gera grein fyrir því í umræðu. En að menn skrifi undir nál. án fyrirvara og finni síðan málinu allt til foráttu er einstakt. Ég hef ekki heyrt um slíka framsetningu áður. Ég þarf kannski leiðbeiningar frá hæstv. forseta hvort hér hafi átt sér stað mistök við prentun þingskjala eða ekki. En ég skildi síðustu orð þingmannsins svo að hann stæði samt að málinu án fyrirvara. Og þetta er gjörsamlega óskiljanlegt fyrir okkur stjórnarandstæðinga og reyndar aðra líka.