Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:24:34 (6462)

1997-05-14 12:24:34# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:24]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef átt þess kost að fjalla um frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins í hv. landbn. og skrifaði undir álit nefndarinnar með fyrirvara sem ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir í hverju er fólginn.

Ég er sátt við þá hugsun sem felst í frv. Mér finnst það bera vott um félagshyggju og samtryggingu innan stéttarinnar þegar menn ákveða að borga allir í sjóð til að uppbygging megi eiga sér stað innan stéttarinnar til hagsbóta fyrir þá sem í greininni vinna. Ég veit að frv. kom ekki beint frá ráðuneytinu til þingsins heldur hafði það verið til umfjöllunar á búnaðarþingi og var þar þokkaleg samstaða um það. Það hefur auk þess verið kynnt víða um land. Landbúnaðurinn er grein sem stendur ekki vel og virkilega þarf að taka á og byggja upp þætti svo að greinin geti orðið samkeppnisfærar en hún er í dag, en það þýðir ekki að hún eigi endilega, eins og hv. þm. Pétur Blöndal talaði um, að vera í fjárfestingum sem geti borgað markaðsvexti. Ég tel að fjárfestingar innan þeirrar greinar geti verið mjög góðar og þarfar jafnvel þó að þær geti ekki staðið undir markaðsvöxtum.

Mér finnst að það hefði verið verðugt verkefni á hinu háa Alþingi að standa við bakið á bændum þar sem þeir eru að reyna að snúa vörn í sókn í mjög þröngri stöðu í sinni atvinnugrein.

Fyrirvarinn sem ég hafði við málið varðar 9. gr. sem minnst hefur verið á í þessum umræðum, og ég sé að hv. formaður nefndarinnar nikkar og kannast hann við þennan fyrirvara minn því ég hef gert hann á nánast hverjum fundi sem haldinn hefur verið um þetta mál í hv. nefnd. Í 1. lið 9. gr. stendur: ,,Lán má veita gegn þessum tryggingum: veði í fasteign, enda hvíli eigi veðskuldir á henni til annarra en Lánasjóðs landbúnaðarins eða annarra opinberra sjóða á undan veðrétti þeim sem sjóðurinn fær, ...``

Mér finnst þetta þrengja um of möguleika bænda til að sækja lán í þennan sjóð til að byggja sig upp. Ég minni á að þarna getur verið um það að ræða að annað hjónanna t.d. eigi rétt á lífeyrissjóðsláni. Það gerir þeim að mínu viti ókleift að sækja til Lánasjóðs landbúnaðarins ef lífeyrissjóðslán hvílir á eigninni. Mér hefði fundist mun skynsamlegra, af því að menn sem töluðu á undan mér hafa verið stóryrtir um hvað væri skynsamlegt og hvað ekki, að þetta væri orðað sem svo að skuldir sem hvíldu á veðrétti fyrir ofan Stofnlánadeild plús skuld við Stofnlánadeild mættu ekki fara yfir tiltekna prósentu af matsverði þeirrar eignar sem veðsett er.

Þetta er í rauninni eina atriðið í frv. sem ég gerði alvarlegan fyrirvara við og þess vegna skrifa ég undir álit landbn. með fyrirvara sem ég hef hér með gert grein fyrir.