Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:54:12 (6468)

1997-05-14 12:54:12# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:54]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta verður nú æ ruglingslegra hjá hæstv. ráðherra. Það er stefna hans sem er að verða gjaldþrota, ekki íslenskur landbúnaður nema að hluta til. Það er enginn að tala um að það eigi ekki að stunda landbúnað hér á landi.

Ég hef dregið fram í umræðunni að fátækasta stétt á Íslandi er bændur. Ég hef einnig dregið fram í umræðunni að matvörur hérlendis eru 35% dýrari en að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum. Þetta kerfi er ónýtt. Það er ekki til hagsbóta, hvorki fyrir bændur né neytendur eða fólkið í landinu. Þetta kerfi sem verið að flikka upp á með þessum frv. og öðrum sem hæstv. landbrh. hefur lagt fyrir Alþingi, og þessi stefna er komin í þrot. Ég held að umræður í morgun hafi sýnt það ljóslega að meira að segja traustir menn sem þekkja vel til mála eru búnir að fá nóg af þessu. Og það að koma hér fram í lok umræðu og segja að hlutirnir séu allir í góðu lagi og menn séu á réttri leið, er einfaldlega rangt því að kjör bænda, verð á matvörum og landbúnaðarkerfið bera öðru vitni. Allur vitnisburður er í þá átt að þessi helstefna ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsóknar er fyrir löngu búin að bíða hér skipbrot.