Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:55:31 (6469)

1997-05-14 12:55:31# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Ég býst ekki við því að við verðum endanlega sammála í þessu og karp um þetta aftur og fram eins og hér stendur nú yfir þjónar engum tilgangi. Það er vitað mál og ég hef ekki reynt að draga dul á það og enginn sem fjallar um íslenskan landbúnað hefur reynt að gera lítið úr því að þar eru ákveðnir erfiðleikar. Þar hafa gengið yfir miklar breytingar sem hafa tekið á þessa atvinnugrein.

Hún hefur líka tekið mikið á sig. Það hafa verið gerðar harðar kröfur til hennar. Það hafa verið gerðar harðar kröfur til íslensks landbúnaðar, t.d. í sambandi við svokallaða þjóðarsáttarsamninga sem gerðir voru fyrir nokkrum árum síðan og engin atvinnugrein, ég fullyrði það að engin atvinnugrein hefur lagt meira á sig og engin stétt meira en bændur við að standa við þá samninga, það sem þeim var ætlað, með hagræðingarkröfum og með að leggja sitt inn í það púkk. Það vitum við og það er viðurkennt. Og að tala um að vöruverð sé algerlega úr takt við það sem gerist í kringum okkur, þá er þar nú líka því miður ofurlítið hallað réttu máli. Ef litið er á vöruverð í okkar næstu nágrannalöndum, þá er það svo að íslenskur landbúnaður er á ýmsum sviðum fyllilega samkeppnisfær þó að sjálfsagt megi finna dæmi um annað og ef litið er til Suður-Evrópu þar sem aðstæður eru vissulega allt aðrar en hér hvað veðurfar og ýmsa þætti sem lúta að landbúnaði snertir, þá má finna lægra vöruverð. En ef það er skoðað sem liggur okkur næst, þá er það svo að í mörgum greinunum erum við Íslendingar fyllilega samkeppnisfærir.