Lögræðislög

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 14:30:04 (6484)

1997-05-14 14:30:04# 121. lþ. 124.2 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., GGuðbj (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[14:30]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér kemur til atkvæða sú tillaga allshn. að hækka sjálfræðisaldur í 18 ár. Þessi tillaga er löngu tímabær og hefur verið rædd á fjölmörgum ráðstefnum og meðal foreldra í skólum um allt land. Allir umsagnaraðilar allshn., þar á meðal Barnaheill, Barnaverndarstofa, Heimili og skóli og Félag framhaldsskólanema, eru hlynntir þessari breytingu. Rökin eru að styrkja réttarstöðu 16--18 ára ungmenna og veita þeim aukna foreldravernd, að auðvelda meðferð á 16--18 ára ungmennum án þess að til sjálfræðissviptingar komi og að samræma íslenska löggjöf löggjöf annarra landa og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég fagna þessari tillögu og segi já.