Lögræðislög

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 14:41:14 (6494)

1997-05-14 14:41:14# 121. lþ. 124.2 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., SP (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[14:41]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ljóst að skiptar skoðanir eru um þetta mál og að skoða þarf ýmsa hluti í tengslum við þessar breytingar, hvaða lagabreytingar sé eðlilegt að gera. En ég vil undirstrika að þetta mál hefur að mínu mati ekkert með vantraust að gera í garð ungmenna. Varðandi forræðishyggjuna er það svo að þingið er nú þegar búið að samþykkja ýmis mál í þessa veru og miða við 18 ára aldur. Þessi þróun er nú þegar hafin og það ættu menn að horfast í augu við.

Virðulegi forseti. Ég kom að þessu máli með opnum huga en ég hef aldrei vitað um neitt mál hér á hinu háa Alþingi þar sem öll rök mæla með hækkun á sjálfræðisaldrinum, raunar eindregnar óskir í þá veru að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður. Það eru auðvitað margar hliðar á þessu máli sem nefndin hefur skoðað vandlega og í framhaldi af því leggur meiri hluti allshn. til þessa breytingu. Ég segi já.