Lögræðislög

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 14:42:46 (6495)

1997-05-14 14:42:46# 121. lþ. 124.2 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., TIO (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[14:42]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Í starfi mínu að skólamálum í tvo áratugi hef ég sannfærst um að það skiptir meginmáli að ungu fólki sé sýnt traust og virðing. Þar sem vandamál hafa komið upp hefur það reynst best að efla með ungu fólki ábyrgð á eigin málum og ábyrgðartilfinningu gagnvart öðrum. Í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella hefur ungt fólk farið vel með það vald sem því hefur verið fengið yfir eigin málum. Mér er það sérstaklega minnisstætt að á ögurstundu í sögu Menntaskólans á Akureyri var ráðist gegn vandamálum skólans með því að virkja nemendur til aukinnar ábyrgðar á málefnum skólans og heimavistar. Að öllum líkindum hefði það starf orðið örðugra ef ekki hefðu átt hlut að máli sjálfráða einstaklingar. Hækkun sjálfræðisaldurs gengur gegn þeim trúnaði og því trausti sem ungu fólki hefur verið sýnt og hefur gefist vel. Því segi ég nei.