Framhald atkvæðagreiðslna

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:02:54 (6499)

1997-05-14 15:02:54# 121. lþ. 124.92 fundur 334#B framhald atkvæðagreiðslna# (um fundarstjórn), KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:02]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er klukkan orðin þrjú á þessum drottins degi og það er ljóst að fram undan er langur dagur. Hér eru eftir nokkrar atkvæðagreiðslur og mér sýnist að nokkrar þeirra muni taka verulegan tíma og þar nefni ég mál nr. 7 og 8 á dagskránni, um fjárreiður ríkisins og skipulags- og byggingarlög. Ef ég man rétt er brtt. við hverja einustu grein í því frv., 8. máli á dagskrá. Ég spyr því hæstv. forseta hvað hann hyggst fyrir varðandi frekari atkvæðagreiðslur og legg reyndar eindregið til að hinum viðameiri atkvæðagreiðslum verði hreinlega frestað því við eigum sum hver eftir að skrifa ræður kvöldsins eða erum í miðjum klíðum. Þess vegna vildi ég gjarnan fara að losna frá fundarhaldi og atkvæðagreiðslum.