Tolla- og fíkniefnaleit í Reykjavík

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:38:07 (6506)

1997-05-14 15:38:07# 121. lþ. 125.5 fundur 596. mál: #A tolla- og fíkniefnaleit í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Því miður er það svo að ég get ekki svarað aðalefni fyrirspurnarinnar á þessari stundu um það hvernig það mál standi að bæta megi aðstöðu bæði í Reykjavíkurhöfn og á Reykjavíkurflugvelli og verð því miður vegna þess að ég býst við að þetta sé síðasti fyrirspurnatími þingsins að biðjast forláts á því en mun að sjálfsögðu kanna málið á næstu dögum og koma upplýsingum til hv. þm.

Hins vegar get ég sagt það og reyndar kom það fram hjá hv. þm. að ríkisstjórnin ákvað á síðasta ári að stefna að hertu fíkniefnaeftirliti og til tollamála skal ráðstafað 25 millj. kr. umfram það sem ella hefði hefði orðið til þess að efla tollgæsluna, fyrst og fremst til þess að reyna að koma í veg fyrir að fíkniefni flytjist til landsins. Þar á meðal á að kaupa nýjan fíkniefnahund. Aukin áhersla verður lögð á að fíkniefni með póstsendingum og í tengslum við komu skipa til Reykjavíkur m.a. við endurskipulagningu og breytingu á vaktafyrirkomulagi auk þess sem eftirlit á Keflavíkurflugvelli verður hert. Hugmyndin er sú að gerð sé kerfisbundin leit eftir ákveðnum aðferðum sem þekktar eru en jafnframt hefur verið óskað eftir því að ríkistollstjóri og tollstjóraembættin í landinu geri tillögu um það hvernig ráðstafa eigi þessu fjármagni. Fyrir liggja tillögur og að þeim er nú unnið.

Það sem snýr sérstaklega að Reykjavíkurflugvelli er að embætti tollstjórans í Reykjavík hefur yfirumsjón með því að mynda vinnuhóp sem verður skipaður starfsmönnum fíkniefnadeildar ríkistollstjóraembættisins annars vegar og tollgæsludeildar tollstjóraembættisins hins vegar til að endurskipuleggja fíkniefnaeftirlit í Reykjavík. Sú vinna skal miðast að því að koma á öflugu úrtakseftirliti með notkun fíkniefnahunda um borð í skipum, í vörugeymslum, í póstsendingum og á Reykjavíkurflugvelli. Í skýrslu sem liggur fyrir er sagt að tækjabúnaður verði aukinn verulega til að komið verði á markvissri áhættugreiningu vegna eftirlitsins en það þarf ekki nauðsynlega að þýða húsnæði þannig að ég þarf að kanna það betur.

Í skýrslunni er síðan fjallað um aðra þætti eins og Keflavíkurflugvöll, önnur tollstjóraembætti, um námskeið fyrir tollstarfsmenn, samstarf við lögreglu, samstarf við flutningamiðlara, þar á meðal þá sem fara í gegn með vörur með skipum og eins þá sem stunda það gagnvart flugi og samvinnu við aðra aðila.

Virðulegi forseti. Ég veit að þetta er ekki mikið svar við þeirri spurningu sem hv. þm. bar fram áðan í ræðu sinni en til þess að fylla upp í eyðurnar vil ég gjarnan fá tíma til þess að afla mér nákvæmari upplýsinga því að ég skil það vel sem er megininntak spurningarinnar að það þurfi að sjálfsögðu að vera til staðar lágmarksaðstaða, húsnæðisaðstaða til þess að hægt sé að gera þá leit almennilega sem hv. þm. hefur lýst og snýr þá kannski á Reykjavíkurflugvelli gagnvart bæði ferjuflugi en þó ekki síður flugi til okkar næstu nágranna eins og Grænlendinga og Færeyinga og eins á hafnarsvæðinu, en ég geri ráð fyrir því að þar sé unnið að þessum málum með þeim hætti að hægt sé að gera slíka leit um borð í þeim skipum sem hér leita hafnar.