Innheimta þungaskatts

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:45:12 (6509)

1997-05-14 15:45:12# 121. lþ. 125.3 fundur 463. mál: #A innheimta þungaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Með lögum nr. 68/1996 voru gerðar verulegar breytingar á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Tilgangurinn með þeim breytingum var fyrst og fremst að draga úr undanskotum á þungaskatti sem talin voru mjög mikil. Þessi undanskot lækka tekjur ríkisins af þungaskatti og brengluðu verulega samkeppnisstöðu aðila í rekstri skilvísum aðilum í óhag.

Þær breytingar sem voru gerðar á þungaskattskerfinu með lögum nr. 68/1996 miðuðu að því fyrst og fremst að tryggja skilvísari álagningu þungaskatts. Helstu breytingarnar voru þær í fyrsta lagi að álagning skattsins og eftirlit með skattskilum var falin embætti ríkisskattstjóra.

Í öðru lagi var sú skylda lögð á ökumenn ökutækja, sem búin voru ökumæli, að skrá stöðu ökumælis daglega í akstursbók en áður hafði einungis verið skylt að skrá stöðu ökumælis mánaðarlega.

Í þriðja lagi var kveðið á um það í lögunum að í bifreiðum, sem skylt er að hafa ökurita samkvæmt reglum um aksturs- og gildistíma ökumanna, skyldi hann nýttur sem ökumælir.

Í fjórða lagi voru sett ítarleg ákvæði um heimildir til endurákvörðunar þungaskatts ef í ljós kom að skatturinn hafði ekki verið réttilega á lagður, t.d. vegna þess að ökumælir hafði ekki talið rétt, svo og um áætlun á þungaskatti ef ekki var mætt með ökutæki til álestrar á réttum tíma.

Í fimmta lagi var refsiákvæðum vegna brota á lögunum breytt.

Þetta voru gífurlegar breytingar á lögunum og árangurinn hefur ekki látið á sér standa því að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti hafa aukist verulega í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru. Að hluta til kann skýringin að felast í auknum akstri en meginskýringin er án nokkurs vafa sú að dregið hefur úr undanskotum á þungaskatti vegna breytinganna.

Að sjálfsögðu er ekki unnt að meta sérstaklega hvern þátt nýting ökurita sem ökumæla vegna þungaskatts á í þessu sambandi þar sem þar er um að ræða einungis eina breytingu af fleirum sem gerðar voru samtímis á þungaskattskerfinu. Reyndar þarf að taka tillit til hvort akstur hafi breyst líka.

Auk þess sem álagning þungaskatts hefur batnað sem afleiðing af framangreindri lagabreytingu hefur innheimta skattsins einnig farið batnandi undanfarin ár. Um síðustu áramót var búið að innheimta 97,9% af föstu árgjaldi þungaskatts árið 1996 og 99,23% af föstu árgjaldi 1995. En á sama tíma var búið að innheimta 92,08% af þungaskatti sem lagður var á samkvæmt mæli á árinu 1996 og 99,13% af þungaskatti samkvæmt mæli sem lagður var á árið 1995. Loks var búið að innheimta 76,31% viðurlaga sem lögð voru á á árinu 1996 og 95% viðurlaga sem lögð voru á á árinu 1995. Allt eru þetta tölur sem sýna að innheimtan hefur batnað verulega en ég get ekki svarað þessu í upphæðum og krónum en bendi á og það mun koma í ljós á yfirstandandi ári að allt útlit er fyrir að til vegagerðar muni renna verulegar upphæðir umfram það sem áætlað var, m.a. af betri innheimtu þó að ég geti ekki hér og nú skilið á milli þess hvað sé afleiðing af betri innheimtu vegna lagabreytingarinnar eða hvort það sé af öðrum ástæðum.

Um upphæð get ég ekki sagt nákvæmlega á þessari stundu en verð að biðja hv. þm. um að hafa biðlund. En ég yrði ekki hissa þó að hægt verði að auka þá fjármuni sem ganga til vegagerðar á þessu ári um verulegar upphæðir. Ég hygg að samgöngunefndarmenn hér í þinginu hafi einhverja hugmynd um það hver sú upphæð gæti orðið án þess að ég vilji gefa það nákvæmlega upp því að ég hef ekki þá tölu við höndina.