Innheimta þungaskatts

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:49:48 (6510)

1997-05-14 15:49:48# 121. lþ. 125.3 fundur 463. mál: #A innheimta þungaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:49]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég hefði gjarnan viljað fá töluna. Ég hef líka grunsemdir um hana sem fulltrúi í fjárln. en hef heyrt álitlegar upphæðir þannig að ég vona að þær liggi fyrir fljótlega. En svörin voru skýr í því að árangurinn er verulegur af breytingunni og er ástæða til að fagna því.

Þeir fjármunir sem nú skila sér og skiluðu sér ekki voru einfaldlega sviknir undan skatti. Í öðru lagi jafnast nú samkeppnisstaða fyrirtækja og einstaklinga í flutningaþjónustunni og tryggir jafnræði í þessari vaxandi atvinnugrein.

Það hversu mjög bætt innheimta styrkir fjárhagsstöðu Vegagerðarinnar er einnig fagnaðarefni. Nú verður mun meira til skiptanna í því að bæta vegakerfið í landinu. Ég tel fyrirspurninni svarað þótt ég hefði gjarnan viljað fá einnig tölu um hversu mörg hundruð millj. það væru sem hefðu skilað sér í bættri innheimtu.

En um leið vaknar önnur spurning. Þar sem þessi innheimtuleið á þungaskatti er orðin svona hagkvæm og einföld væri þá ekki athugandi hvort nokkur ástæða væri sé til að breyta um og færa gjaldið yfir í olíuna með litun og sulli eins og fyrirhugað er. Álögur á þessa grein í flutningaþjónustu hafa verið að vaxa og ég tel eðlilegt að skoða málin öll í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir.