Skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:57:25 (6513)

1997-05-14 15:57:25# 121. lþ. 125.4 fundur 573. mál: #A skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég tek fram að tekjutenging lífeyris og bóta heyrir ekki strangt til tekið undir fjmrn. þannig að ég byggi mitt svar að því leytinu til aðeins á umræðum í ríkisstjórn en málið heyrir að sjálfsögðu undir heilbr.- og trmrn.

Ég vil einnig að það komi fram að ríkisstjórnin og talsmenn hennar hafa sagt að innan tíðar, og ég vona að það verði stutt í það, muni hún birta aðgerðir sem snúa að bótaþegum almannatryggingakerfisins en ég minni jafnframt á að það hefur þegar verið ákveðið að þær aðgerðir sem snúa að hækkun bótanna munu gilda frá 1. mars sl. þannig að við það er miðað og þá má gera ráð fyrir að bætur hækki frá þeim tíma umfram það sem þær hækkuðu um áramót þannig að þær svari a.m.k. til almennra launahækkana og hugsanlega gott betur.

Í fyrirspurninni er spurt um það hvort fyrirhugað sé að breyta skattalegri meðferð og tekjutengingu lífeyris og bóta almannatrygginga til hagsmuna fyrir þá bótaþega og lífeyrisþega sem verst eru settir. Hvað varðar skattalega meðferð lífeyris og bóta almannatrygginga gildir um þær sú meginregla skattalaga að allar tekjur manna aðrar en tilteknar fjármagnstekjur eru meðhöndlaðar eins með tilliti til skatta. Á þessu er reyndar undantekning sem varðar svokallaðar skattabætur, þ.e. bætur sem eru í sjálfu skattkerfinu. En menn hafa reyndar verið að ræða það á undanförnum árum hvort það geti verið heppilegra að skattleggja þær bætur líka til þess að draga enn úr jaðaráhrifum.

Allar slíkar tekjur eru lagðar saman og mynda skattstofn algerlega án tillits til þess hvaðan þær koma og ekki stendur til að gera breytingu á þessu grundvallaratriði í skattalögum vegna lífeyrisþegabóta og almennra trygginga.

Hvað varðar lífeyri úr lífeyrissjóðum skal hins vegar bent á að fyrir nokkru voru gerðar þær breytingar að iðgjöld til lífeyrissjóða eru frádráttarbær frá skatti en sú breyting var gerð vegna þess að lífeyrir er skattskyldur við úttekt úr lífeyrissjóði. Þetta hefur ekki áhrif á tengingar hvað varðar bætur eða skatta.

Engar fyrirætlanir eru nú uppi um breytingar á tekjutengingu lífeyris almannatrygginga né bóta úr því kerfi. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að í kjölfar nýgerðra samninga var ákveðið að hækka lífeyri og bætur almannatrygginga í samræmi við meðalhækkun launa samkvæmt kjarasamningum eins og hef áður sagt. Þó kemur til greina að skoða hvort félagsleg framlög sveitarfélaga eigi að skerða bætur úr almannatryggingakerfinu. Ég tel ástæðu til að það atriði sé skoðað sérstaklega og býst við að einhver lausn finnist á því á næstunni.

Ég vil að allra síðustu, virðulegi forseti, vekja athygli á því að eðli máls samkvæmt ná skattalegar aðgerðir ekki til þeirra sem eru verst settir, einfaldlega vegna þess að tekjur þeirra eru talsvert undir skattleysismörkum og þess vegna torvelt að gera skattalegar ráðstafanir til hagsbóta fyrir þá.

Ég vona, virðulegi forseti, að þetta svari að nokkru þessari fyrirspurn en ítreka það sem margoft hefur komið fram áður að ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu grípa til viðeigandi aðgerða gagnvart bótaþegum almannatryggingakerfisins og ég á von á því að þær ráðstafanir sjái dagsins ljós á allra næstu dögum.