Skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:01:31 (6514)

1997-05-14 16:01:31# 121. lþ. 125.4 fundur 573. mál: #A skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem er mjög tímabær. Það þarf vissulega að skoða það hvort ekki þurfi að breyta skattalegri meðferð bóta í almannatryggingakerfinu. Mér fannst lítið koma fram í svörum ráðherrans og raunverulega sagði hann að ekkert væri á döfinni til breytinga. Þó er ástæða til að fagna að hann nefndi hér að verið væri að skoða hvort félagsleg framlög, sem fólk fær frá félagsmálastofnunum, eigi að skerða bætur almannatrygginga. Auðvitað er alveg fráleitt að það sé gert. Þess vegna er full ástæða til að fagna því ef það á að breyta því. En það er líka annar hópur sem sætir skattalegri meðferð sem er óþolandi. Það eru þeir sem fá framfærslustyrki hjá félagsmálastofnunum þar sem þeim ári seinna er refsað fyrir það, eins og hv. þm. nefndi, þegar þeir þurfa kannski tímabundið að fá framfærslustyrk hjá félagsmálastofnunum vegna erfiðleika, heilsubrests, atvinnuleysis o.s.frv.

Ég spyr ráðherrann: Eru hugmyndir uppi um að skoða það að fjárhagsstyrkir félagsmálastofnana verði undanþegnir skatti?