Rekstrarhagræðing

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:08:11 (6517)

1997-05-14 16:08:11# 121. lþ. 125.6 fundur 598. mál: #A rekstrarhagræðing# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:08]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Í lið 5.6 í 6. gr. fjárlaga er heimild til fjmrh. til að ráðstafa í samráði við einstaka ráðherra og fjárln. Alþingis fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing til hækkunar á fjárheimild einstakra rekstrarviðfangsefna á árinu 1997, enda lækki fjárheimildin um a.m.k. helming þeirrar fjárhæðar árið 1998. Í reglum um úthlutun til hagræðingarmála af fjárveitingu í fjárlögum 1997, sem fjmrn. hefur sett, segir m.a., með leyfi forseta, að framlagi af fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing er ætlað að mæta kostnaði af ýmiss konar hagræðingaraðgerðum sem leiða til varanlegrar lækkunar ríkisútgjalda. Er þar nefnt til vinna við skipulagsbreytingar, tækjakaup, endurbætur á vinnustað og hugsanlega biðlaunagreiðslur.

Gert er ráð fyrir því að í umsókn sé gerð grein fyrir því hve mikið, hvenær og hvernig það leiði til lægri rekstrarkostnaðar á næstu árum og gerð er krafa um að kostnaður við verkefnið skili sér til baka á skilgreindum tíma og miðað er við að a.m.k. helmingurinn af styrkfjárhæðinni skili sér þegar á næsta ári, 1998.

Í framhaldi af þessu hef ég leyft mér að bera fram svofellda fyrirspurn á þskj. 1041 til fjmrh. um rekstrarhagræðingu:

,,Hvernig hefur fé samkvæmt fjárlagalið 08-950 Rekstrarhagræðing verið ráðstafað og hver verður hagræðingin á næsta ári af hverri ráðstöfun, sbr. ákvæði í lið 5.6 í 6. gr. fjárlaga?``

Fjárln. hafa borist tvö erindi frá heilbrrh. um samþykki nefndarinnar fyrir greiðslu af hagræðingarlið ráðuneytisins sem er samtals 45 millj. Fyrra erindið er um 12,7 millj. kr. til að greiða útistandandi greiðslu biðlauna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Það síðara er upp á 30 millj. kr. til að standa undir því að opna og reka lýtalækningadeild Ríkisspítala frá og með 1. apríl sl. Fram kemur í erindi ráðuneytisins að lýtalækningadeildin hafi þá verið lokuð í um það bið 11/2 ár. Það hafi verið ákvörðun ráðuneytisins við fjárlagagerð fyrir yfirstandandi fjárlög 1997 að verja ekki fé til reksturs deildarinnar og hafa hana áfram lokaða. Ráðuneytið gat ekki sýnt fram á hver væri sparnaðurinn af því að opna umrædda deild og gat því ekki uppfyllt skilyrði laganna hvað það varðar. Það kemur fram í svari fjárln. til ráðuneytisins að það samþykki erindið að því tilskildu að ákvæði laganna sé uppfyllt.

Ég vil því, herra forseti, leita eftir svörum fjmrh. sem fer með þessa heimild um hvernig þessum lið hefur verið ráðstafað.