Íslensk stafsetning

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:42:53 (6527)

1997-05-14 16:42:53# 121. lþ. 125.8 fundur 602. mál: #A íslensk stafsetning# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:42]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varnaðarorð menntaskólakennarans sem rituð hafa verið líklega 1973 eða 1974 hafa ekki átt við rök að styðjast að því leyti að menn hafi eftir að þeir afnámu zetuna með þeim hætti sem ég lýsti áður farið inn á aðrar róttækari brautir varðandi breytingar á íslenskum stafsetningarreglum þannig að sá ótti var ástæðulaus og tíminn hefur leitt í ljós að svo er.

Hins vegar er það rétt sem kom fram í máli hv. þm. að það hafa verið sett lög á danska þinginu um danska réttritun. Þau lög tóku gildi voru samþykkt 30. apríl sl. og taka gildi 1. ágúst 1997. Ég tel hins vegar ekki neitt fordæmi fólgið í því þótt Danir telji sér nauðsynlegt að setja reglur um eigin réttritun. Við höfum allt aðra málstefnu en Danir. Við fylgjum hreintungustefnu sem þeir gera ekki og við fylgjum henni þótt það sé ekki lögbundið. Við hér á Íslandi höfum haldið betur, að mínu mati, utan um hreinleika okkar tungu en Danir og þeir eiga þess vegna í miklum erfiðleikum, m.a. í réttritun af því að þeir eru að innleiða svo mikið af erlendum orðum í sína tungu og þurfa þess vegna að setja reglur um hvernig eigi að laga þau að dönskum stafsetningarreglum og lögbinda með þeim hætti sem gert hefur verið. Ég held að við stöndum ekki frammi fyrir þeim vanda sem þeir gera í þessu efni af því að við fylgjum allt annarri meginstefnu varðandi varðveislu tungunnar án þess að það hafi verið fest í lög. Ég tel ekki að neinn muni telja að við þurfum að lögfesta það í sjálfu sér. Hitt kann að vera að það sé skynsamlegt að lögfesta hvernig staðið skuli að því að setja stafsetningarreglur. Ég tel sjálfur að eftir að Íslensk málnefnd kom til sögunnar 1990 sé hún rétti aðilinn til þess að koma þar að með faglega ráðgjöf og hef raunar í bréfi til málnefndar haustið 1995 gefið þann vilja minn til kynna. Á vegum málefndarinnar er nú verið að undirbúa útgáfu nýrra reglna um stafsetningu og greinarmerkjasetningu þar sem tekið er á þeim málum án þess þó að um neina kollsteypu verði að ræða.