Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:02:37 (6532)

1997-05-14 21:02:37# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SighB
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:02]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sjálfstfl. og Framsfl. hafa farið með völd í landinu til skiptis eða saman í meira en mannsaldur. Ávallt hafa þeir litið á það sem hlutverk sitt að gæta hagsmuna fárra á kostnað fjöldans. Þeir draga hvor í sinn dilk og þegar þeir setjast saman í Stjórnarráðið er einfaldlega skipt til helminga. Gæsla sérhagsmunanna er þá í vernduðu umhverfi.

Meira að segja umræður um breytingar sem þjóðin vill, leiða þeir hjá sér. Yfir 70% landsmanna hafa í skoðanakönnunum lýst vilja sínum til þess að tekið verði gjald fyrir afnot fárra af auðlindum fjöldans. Það mál fæst ekki einu sinni skoðað.

Þau málefni sem efst eru á baugi í löndunum í kringum okkur eins og Evrópusamvinnan fást ekki rædd. Þau eru sögð ekki vera á dagskrá. Ríkisstjórnin virðist álíta að hægt sé að einangra íslensku þjóðina. Hún virðist ekki vita að Íslendingar eiga í samkeppni við aðrar þjóðir, ekki bara í viðskiptum heldur einnig á sviði menntunar, lífskjara og réttinda. Sé menntunin vanrækt eins og nú er gert og fólki ekki sköpuð sömu skilyrði og bjóðast í nágrannalöndunum til þroska, afkomu og heilbrigðs fjölskyldulífs, þá missum við unga fólkið okkar úr landi. Landflótti hæfaleikafólksins er raunar þegar hafinn.

Góðir áheyrendur. Oft byrgir dægurmálaþrasið okkur framtíðarsýn. Nógu margir munu ræða ágreiningsmál líðandi stundar í kvöld. Ég vil ræða framtíðina.

Ný viðhorf ryðja sér til rúms í Evrópu. Breskir jafnaðarmenn hafa á grundvelli endurnýjaðrar jafnaðarstefnu unnið sinn mesta kosningasigur í 150 ár. Í Frakklandi eru jafnaðarmenn í sókn. Í Þýskalandi aukast sigurlíkur þeirra. Þó reynt sé að einangra Ísland frá umheiminum fer ekki hjá því að áhrifa af sókn jafnaðarstefnunnar í Evrópu gæti líka hér. Við getum breytt hinu pólitíska landslagi á Íslandi eins og verið er að gera annars staðar í Evrópu, skapað hér öfluga hreyfingu jafnaðarmanna, aflið sem skort hefur í íslenskum stjórnmálum alla þessa öld.

Flestöll ágreiningsefni sem ollu sundrungu í hreyfingu okkar heyra nú sögunni til. Þau eru ekki lengur viðfangsefni samtímans, hvað þá heldur framtíðarinnar. Hið skýra markmið okkar er sameiginlegt framboð íslenskra jafnaðarmanna vorið 1999. Málefni slíks sameiginlegs framboðs eiga ekki að vefjast fyrir okkur: Frelsi og jafnrétti til menntunar og vinnu, frjáls samkeppni með öflugri neytendavernd gegn fákeppni og hringamyndunum, velferð og öryggi með þarfir fjölskyldunnar í fyrirrúmi, barnabætur greiðist án tekjutenginga, tekjutenging grunnréttinda aldraðra og fatlaðra í almannatryggingakerfinu verði afnumin, jafn aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu og biðlistarnir styttir um helming. Lýðræði og valddreifing með jöfnun atkvæðisréttar og þjóðaratkvæðagreiðslu um hin stærri mál. Tryggð verði dreifð eignaraðild almennings við einkavæðingu ríkisfyrirtækja, atvinnulýðræði í fyrirtækjum og bætt réttarstaða verkafólks við gerð kjarasamninga. Kvenfrelsi og mannréttindi með jöfnum rétti kynjanna á vinnumarkaði og í fjölskyldunni. Jafnrétti er mannréttindi. Menntun og mannauður þar sem öllum verði gert kleift að stunda það nám sem stendur huga og hæfileikum næst. Með símenntun og endurmenntun verði þeim stóra hópi fólks sem ekki hefur notið starfs- og framhaldsmenntunar gefið annað tækifæri. Framlög ríkisins til menntamála og rannsókna verði aukin á hverju ári. Menningarmálin fái sjálfstæðan sess í stjórnkerfinu með stofnun sérstaks menningarmálaráðuneytis því íslensk menning er ekki aðeins grundvöllur okkar sem sjálfstæðrar þjóðar, heldur skapar hún atvinnu og efnahagsleg verðmæti.

Samræmd auðlindastefna tryggir sameiginlegt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum lands og sjávar og leggja skal á gjald fyrir afnotarétt á takmörkuðum auðlindum, orku fallvatna og jarðhita og nýtingu fiskstofna. Veiðileyfagjald eitt og sér getur lækkað skatta á hvern Íslending um tugi þúsunda króna á ári. Með samræmdri auðlindastefnu er því í senn hægt að lækka tekjuskatt og gera stórátak í menntamálum og í umhverfis- og náttúruvernd. En við Íslendingar eigum að lifa í sátt við umhverfið, nýta auðlindirnar með sjálfbæra þróun í huga, tryggja umgengnisrétt almennings að íslenskri náttúru og skyldur þjóðarinnar til uppgræðslu landsins.

Nýsköpun og frumkvæði á að örva með aukinni erlendri fjárfestingu og auknu samstarfi við erlenda aðila á sviði rannsókna. Evrópusamvinnan, þátttaka Íslands í norrænu samstarfi og starfi Sameinuðu þjóðanna á að vera grundvöllur íslenskrar utanríkisstefnu. Efna skal til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að óska eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Verði sú niðurstaða jákvæð á að hefja viðræður og bera svo samningsniðurstöðurnar undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.

Ég hef hér varpað fram hugmyndum um nokkur baráttumál sem auðveldlega gætu orðið grundvöllur sameiginlegs framboðs jafnaðarmanna og félagshyggjufólks. Þessar hugmyndir set ég fram sem umræðugrundvöll. Það er nefnilega ekki eins erfitt og margir halda að finna málefnalegt inntak slíks framboðs. Ég sé ekki hvaða ágreiningur ætti að geta orðið svo stór að hann kæmi í veg fyrir samstarf okkar. Við þurfum hins vegar að virkja vilja fólksins í lið með okkur. Jafnaðarstefnan er í rauninni meirihlutaskoðun Íslendinga. Gerum okkur ljóst að jafnaðarmenn er ekki bara að finna innan vébanda stjórnarandstöðuflokkanna heldur ekki síður meðal óflokksbundins fólks og í hópi kjósenda stjórnarflokkanna. Hins vegar hefur vantað trúverðugan og sterkan valkost jafnaðarmannaframboðs fyrir þetta fólk til þess að kjósa. Þann valkost eigum við að búa til. Það er okkar hlutverk.

Hvernig gerum við það? Með því að virkja fólkið með okkur. Við verðum að treysta fólkinu í þessu landi og breyta vinnubrögðum okkar sjálfra, m.a. við val á frambjóðendum í anda þess lýðræðis og frelsis sem okkur er svo hugleikið. Þannig fáum við fólk til að trúa því að við viljum og getum breytt þessu þjóðfélagi í átt til jöfnuðar, frelsis og bæðralags. Kveðjum þá veröld sem var. Gerum 21. öldina að öld íslenskrar jafnaðarstefnu. --- Góðar stundir.