Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:19:25 (6534)

1997-05-14 21:19:25# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, MF
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:19]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Um þessar mundir eru tvö ár liðin frá því núverandi ríkisstjórn komst til valda og kjörtímabil hennar því hálfnað. Það er eðlilegt að á þessum tímamótum skoði menn verk ríkisstjórnarinnar. Hvað hefur þessi ríkisstjórn t.d. gert fyrir fjölskyldurnar í landinu og þá sem lakast standa?

Pólitík ríkisstjórnarinnar minnir um margt á spilið matador þar sem þeir eru í fyrirrúmi sem eiga allar göturnar, húsin og hótelin en hinir eru úr leik.

Íslenskt þjóðfélag er að breytast. Óheft samkeppni ræður ferðinni en sífellt minna er lagt upp úr samtryggingu og samhjálp. Hagsmunir fjármagnseigenda eru hafðir að leiðarljósi í stað þess að hugsa um hag heildarinnar. Þetta er stefna sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks rekur.

Á fyrsta starfsári sínu einbeitti ríkisstjórnin sér að því að ráðast að undirstöðum verkalýðshreyfingarinnar. Farið var í grundvallarbreytingar á vinnulöggjöfinni og lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og þær breytingar þvingaðar fram í skjóli meiri hluta stjórnarinnar gegn vilja verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar. Í því máli snerist pólitík ríkisstjórnarinnar um að veikja undirstöður samtaka launafólks, ekki um það að bæta hag þess.

Á yfirstandandi þingi er haldið áfram að höggva í undirstöður verkalýðshreyfingarinnar og velferðarkerfisins. Ríkisstjórnin var varla búin að koma í gegn lögum sem tryggja opinberum starfsmönnum 15% iðgjaldagreiðslur í samtryggingarsjóðakerfi, þegar fram kom frumvarp um gerbyltingu á lífeyrissjóðunum.

Ríkisstjórnin hefur sýnt með verkum sínum á fyrri hluta kjörtímabilsins, að hún hefur fyrst og fremst áhuga á að tryggja hagsmuni fjármagnseigenda. Það er hennar pólitík. Með þeim aðgerðum sem hún hefur þegar gripið til og þeim aðgerðum sem hún hefur boðað, beitir ríkisstjórnin sér fyrir einni mestu eignartilfærslu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin vinnur að því að koma hér á hörðu samfélagi, þar sem blind samkeppni ræður ferðinni.

Aðrar þjóðir hafa reynt þessa leið og lagt ofurtrú á mátt samkeppninnar. Þessar þjóðir hafa nú eða eru að snúa af þeirri braut. Og hvers vegna? Vegna þess að þessi stefna, þessi leið tók í engu tillit til undirstöðu þjóðfélagsins, þ.e. fjölskyldunnar. Þegar leið blindrar samkeppni er valin til að mæta breyttu umhverfi, þá gleymist að framtíð öflugs samfélags byggist ekki hvað síst á sterkri stöðu fjölskyldunnar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er ekki ríkisstjórn sem metur gildi fjölskyldunnar. Þó hefur hún lagt fram á Alþingi tillögu að opinberri fjölskyldustefnu þar sem fögur orð eru á prenti um mikilvægi fjölskyldunnar sem athvarf einstaklingsins fyrir tilfinningalegt öryggi. Og að tryggja beri sem bestan aðbúnað fjölskyldunnar með sérstakri áherslu á hag barna, aldraðra og öryrkja. En er þetta trúverðug stefnuyfirlýsing þegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hníga í aðra átt?

Fyrirtækin hafa eins og áður sagði fengið aukið svigrúm í góðærinu margumtalaða, en finna fjölskyldurnar fyrir batnandi hag? Tölur um aukna skuldasöfnun heimilanna tala sínu máli. Kjör námsmanna eru óviðunandi. Ungt fjölskyldufólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið býr enn við óheyrilega háa jaðarskatta þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarflokkanna í þeim efnum. Ógerningur er fyrir vinnandi fólk að vinna sig út úr vítahring skuldasöfnunar og óbærilegs vinnuálags. Skattkerfið hefur leitt af sér hróplegt óréttlæti, sem m.a. birtist í allt of háum jaðarsköttum sem bitna hvað verst á barnafólki, öryrkjum og ellilífeyrisþegum.

Ríkisstjórnin hefur lofað umbótum vegna jaðarskattanna en raunin hefur verið sú að þær breytingar, sem gerðar hafa verið, hafa fært barnlausu hátekjufólki tekjuauka, en þær hafa hins vegar bitnað illa á barnafólki, ellilífeyrisþegum og öryrkjum.

Fjármálaráðherra skipaði sérstaka nefnd til þess að skoða áhrif jaðarskatta og koma með tillögur til úrbóta. Það bólar þó ekkert á margboðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar hvað varðar jaðarskattana og þegar stjórnin er innt eftir svörum um störf nefndarinnar þá eru þau engin. Það er einfaldlega ekki á áhugasviði ríkisstjórnarinnar að bæta hag launafólks. Hún hefur bara áhuga á stóriðju, einkavæðingu, að brjóta samtakamátt verkalýðshreyfingarinnar og á hefðbundnum helmingaskiptum milli stjórnarflokkanna.

Á meðan heldur áfram hrein og klár eignaupptaka hjá barnafólki, öryrkjum og ellilífeyrisþegum, sem eru dæmdir til þess að sitja fastir í gildru fátæktarinnar. Við skulum taka raunverulegt dæmi um hjón, rúmlega sjötug sem bæði eru komin á ellilífeyrisaldur. Hann er rafvirki, hún er sjúkraliði. Lífeyrisgreiðslur hans hækkuðu nýverið um 12.500 kr. á mánuði. Sú hækkun skilaði þessum hjónum 1.576 krónum í hærri ráðstöfunartekjur á mánuði, því ríkissjóður hirti 87.5% af hækkuninni. Tæp 41% greiðslunnar fara í skatta, tekjutrygging hjónanna lækkar um 5.814 krónur samtals og eftir standa þá þessar 1.576 krónur á mánuði.

Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum úr daglegu lífi lífeyrisþega sem geta ekki drýgt tekjur sínar með vinnu. Þessa óréttlátu skattlagningu verður að afnema og breyta skattkerfinu, nýta það sem tæki til jöfnunar.

Er t.d. eitthvert réttlæti í því að Íslandsbanki sem hagnaðist um 642 milljónir á síðasta ári greiddi aðeins 13,6 milljónir í tekjuskatt eða sem samsvarar því sem 25 hjón með meðaltekjur landverkafólks greiða í tekjuskatt á ári? Og skyldi hagnaður þessara 25 hjóna hafa verið einhver? Ætli það hafi verið stórar fjárhæðir sem þau lögðu fyrir? Þessi skattastefna er fjölskyldufjandsamleg. Henni verður að breyta.

Og hópur þeirra sem þarfnast aðstoðar til framfærslu stækkar líka stöðugt eins og nýjar tölur frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar sýna. Greiðslur stofnunarinnar vegna fjárhagsaðstoðar eru nú 71 millj. kr. á mánuði og hafa aldrei verið hærri. Öryrkjum sem leita eftir fjárhagsaðstoð hjá borginni hefur fjölgað verulega og fólk undir 25 ára aldri er fjórðungur þeirra sem leita aðstoðar.

Við skulum líka muna að enn eru þúsundir án atvinnu þrátt fyrir allt tal um góðæri og svo sorglegt sem það er þá er hópur launafólks enn á svo lágum launum að þau duga ekki til framfærslu. Þetta minnir á matador-samfélagið þar sem launafólk er stöðugt hrakið aftur á byrjunarreit og stjórnendur leiksins mæla allt á mælistiku fjármagnsins.

Ríkisstjórnin hefur það greinilega að markmiði að brjóta niður í stað þess að bæta samtryggingarkerfið sem við höfum búið við samanber tillögur hennar í lífeyrissjóðsmálum og meðferð á almannatryggingarkerfinu, viðhorf og tillögur í mennta- og heilbrigðismálum. Tillaga ríkisstjórnarinnar um mótun stefnu í málefnum fjölskyldunnar er enn orðin tóm, verkin sýna hina raunverulegu stefnu. En stjórnmálin eiga að snúast um það að eyða óréttlæti og auka jöfnuð. Þau eiga ekki að snúast um að stilla þeim lægstlaunuðu upp við vegg hvað varðar sjálfsögð mannréttindi eins og t.d. heilbrigðisþjónustu og aðgang að menntakerfi.

Góðir áheyrendur. Alþýðubandalagið vill að pólitík snúist um fólk, fjölskylduna og hag launafólks. Alþýðubandalagið hafnar því að fjármunir séu settir í gæluverkefni einkavina ríkisstjórnarinnar og hagsmunum barna, aldraðra, öryrkja og fjölskyldunnar sé kastað út af borðinu.

Þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra hefur í vetur lagt fram fjölmörg mál sem eru til hagsbóta fyrir launafólk og tryggja bættan hag fjölskyldunnar. Tillögur okkar hafa ekki hlotið náð fyrir augum stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, enda snýst þeirra pólitík ekki um fólk, ekki um fjölskylduna heldur um mátt fjármagnsins.

Á nýafstaðinni ráðstefnu sem stjórnarandstöðuflokkarnir héldu sameiginlega komu fram merkilegar upplýsingar um hvaða áhrif þessi stefna ríkisstjórnarinnar hefur í átt til nýrrar stéttaskiptingar. Þar var nefnd sú líking að þjóðfélagið skiptist í dag í þrjú farrými, hið fyrsta þar sem sætu fjármagnseigendur og aðrir séraðstöðuhópar, annað þar sem bjargálna launamenn eru og hið þriðja þar sem ófaglært verkafólk situr, atvinnulausir og öryrkjar, og þarna er mjög stór hópur. Þetta farrými stækkar óðum verði valdatími núverandi ríkisstjórnar langur.