Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:28:13 (6535)

1997-05-14 21:28:13# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir rétt rúmum tveimur árum kom sú ríkisstjórn sem nú situr til valda. Mikil svartsýni var þá í landinu. Það var vaxandi atvinnuleysi, hagvöxtur hafði enginn verið um nokkurt skeið, fjárlagahalli var mikill. Við þessar aðstæður kom núv. ríkisstjórn til valda, full bjartsýni og setti sér háleit markmið. Þau markmið voru aukinn hagvöxtur, fleiri störf í landinu og ráðast átti gegn atvinnuleysinu og tryggja undirstöður velferðarinnar.

Það voru margir sem spáðu þessari ríkisstjórn illa. Það voru margir sem sögðu að þetta yrði ríkisstjórn kyrrstöðu og afturhalds. Ég er helst á því að núv. stjórnarandstaða hafi verið einna háværust í þeim spádómum. En hvernig hefur þetta gengið og hvernig hefur farið? Hvar er þessi kyrrstaða og hvar er þetta afturhald? Lýsir kyrrstaðan sér m.a. í því að hér er meiri hagvöxtur en víðast hvar í kringum okkur? Tæp 6% á síðasta ári, 3,5% á þessu ári og spáð er 3--4% hagvexti á næstu árum. Lýsir kyrrstaðan sér í vaxandi fjölgun starfa? Það liggur fyrir að störfum muni fjölga fram til aldamóta um a.m.k. 12 þúsund. Liggur kyrrstaðan í þeim breytingum sem eru að verða á þjóðfélaginu, t.d. með því að við höfum lagt grunn að breyttu bankakerfi, breyttu sjóðakerfi? Við höfum breytt Lánasjóði íslenskra námsmanna. Við höfum staðið fyrir því að ráðist er í miklar fjárfestingar í landinu, m.a. í stóriðju. Er þetta sú kyrrstaða sem menn voru að spá? Nei, þetta hefur ekki verið ríkisstjórn kyrrstöðu. Þetta hefur verið ríkisstjórn framfara og við eigum að halda áfram á þeirri braut. Það er ekki þar með sagt að engin vandamál séu og það séu engin úrlausnarefni sem við eigum við að glíma. Auðvitað eru ýmsir einstaklingar í okkar samfélagi sem eiga erfitt og svo mun alltaf verða. Auðvitað eru ýmis byggðarlög sem berjast við erfiðleika og svo mun alltaf verða. En aðalatriðið er að hafa einhverja möguleika til að takast á við þessi viðfangsefni, að búa við þá efnahagslegu stöðu að það sé eitthvað hægt að gera.

Hér hefur verið sagt að þessi ríkisstjórn sé fyrst og fremst ríkisstjórn fjármagnsins. Það vill nú svo til að sú sama ríkisstjórn hefur lagt skatt á fjármagnið sem var búið að tala um í mörg ár að gera en aldrei komist í framkvæmd. Ekki lýsir það kyrrstöðu. En það verða allir að gera sér grein fyrir því að framfarir verða ekki nema haldist í hendur hin vinnandi hönd og fjármagn. Og auðvitað mun alltaf verða tekist á um hvað þessi öfl eiga að fá í sinn hlut, hvað hin vinnandi hönd á að fá og hvað fjármagnið á að fá. Við í núv. ríkisstjórn eða þið í stjórnarandstöðu eruð ekki einráð um það. Við búum við vaxandi alþjóðlega samkeppni og við erum hluti af alþjóðlegum fjármálamarkaði og það verður aldrei hægt að búast við því að mikill munur verði á íslensku fjármagni eða erlendu fjármagni. En að þessu öllu erum við að vinna vegna fólksins og vegna þess að við viljum hag fólksins betri og viljum leggja grunn að betri framtíð þess.

Menn spyrja gjarnan: Hvað er fram undan og hvað ætlar þessi ríkisstjórn að gera á næstu tveimur árum? Verkefnin eru næg. Það verður engin kyrrstaða. Auðvitað skiptir meginmáli að halda utan um þann ávinning sem náðst hefur í íslensku samfélagi, viðhalda stöðugleika, viðhalda viðskiptajöfnuði --- og þar er hætta á ferðum, --- koma í veg fyrir að verðbólga vaxi á nýjan leik, standa þannig að verki að atvinnuleysi minnki og standa þannig að verki að við getum treyst okkar velferðarkerfi og búið betur í haginn. Og það er ekki hægt að treysta velferðarkerfið öðruvísi en að hafa traustan og góðan grundvöll. Hér er sagt að það hafi mætt afgangi. Það er rangt að það hafi mætt afgangi en það er ekki þar með sagt að ekki megi betur gera. En hvernig ætlar stjórnarandstaðan að gera betur í velferðarkerfinu nema að hafa traustan efnahagslegan grundvöll? Það vita allir sem komið hafa nálægt þessum málum að slíkt er ekki hægt.

Grunnur hefur verið lagður að breyttu lífeyriskerfi sem er eitt mikilvægasta velferðarkerfi sem við búum við. Mikilvægt er á næstu árum að vinna áfram að því að spinna saman almannatryggingakerfið og lífeyriskerfið þannig að þeir sem aldraðir eru geti búið við áhyggjulaust ævikvöld.

Ég vil einnig nefna umhverfismál sem verður vaxandi málaflokkur á næstu árum og ríkisstjórnin mun sinna þeim málum í vaxandi mæli. Við höfum fyrst og fremst litið til hafsins og þeirra vandamála sem þar eru en við þurfum líka að líta til loftmengunar og annarra vandamála í sambandi við umhverfismál. En það má aldrei verða svo að við Íslendingar getum ekki nýtt okkar orkulindir, orkulindir sem ekki menga umhverfið. Það er grundvallaratriði að við fáum að nota þessar orkulindir okkur sjálfum til framdráttar og í reynd heiminum öllum.

Ég vil jafnframt nefna menntamál sem er mikilvægur málaflokkur og þarfnast vaxandi athygli. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á þennan málaflokk. Grunnskólinn hefur verið færður til sveitarfélaganna og menntmrn. hefur unnið að mikilvægum breytingum og þannig verður áfram unnið.

Ég vil að síðustu nefna utanríkismál. Það verður áfram unnið að því að treysta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og þar eru mörg mikilvæg mál nú á dagskrá. Ég vil nefna Schengen-samstarfið sem skiptir miklu máli. Ég vil nefna stækkun NATO. Ég vil nefna viðskiptaumhverfi Íslendinga og samskiptin við Evrópusambandið. Allt eru þetta mál sem verður unnið að á þeim árum sem fram undan eru.

Góðir Íslendingar. Það er vissulega vor í lofti. Það er ekki aðeins vor í lofti úti, það er vor í lofti í öllu íslensku samfélagi. Við þurfum að halda vel á þessu vori og hlúa vel að þeim gróðri sem er nú að skjóta rótum. Það verður meginverkefni ríkisstjórnarinnar á næstu tveimur árum.