Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:36:48 (6536)

1997-05-14 21:36:48# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:36]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Senn líður að þingfrestun og sumarið nálgast. Þrátt fyrir kuldann úti dylst engum að vor er í lofti bæði í náttúrunni og í pólitíkinni.

Nýafstaðnar kosningar í Bretlandi hafa skapað nýja von, ekki bara þar heldur líka hér. Eftirfarandi lýsing breskrar fræðikonu á þessari nýju von er eitthvað á þessa leið:

,,Kosningaúrslitin hafa skapað nýjar væntingar. Öll umræðan í fjölmiðlum er gagntekin af nýrri þjóðfélagssýn, af samfélagi samkenndar og margbreytileika þar sem pláss er fyrir alla í stað samfélags þar sem gæðin voru aðeins fyrir fáa útvalda. Gæðin voru eins og gullepli sem allur almenningur varð að láta sér nægja að dreyma um. Nú heyrum við orð eins og samfélag, réttlæti, umhyggja og jafnrétti. Sú tilfinning er sterk að nú hafi opnast möguleikar fyrir alla. Þetta er góð tilbreyting eftir falsið, tvískinnunginn, snobbið og illgirnina hjá íhaldinu sem loksins, loksins, hefur hrökklast frá völdum. Og allar þessar konur í þinginu og ráðherra sem er samkynhneigður og annar sem er blindur, fólk sem hefur háleit markmið í stjórnmálum. Það er yndislegt fyrir unga fólkið að upplifa þessi tímamót þegar þjóðin losnar undan oki íhaldsins inn í betri tíma með áherslu á bætta menntun og nýsköpun undir forustu verkamannaflokksins nýja.`` Svo mörg voru þau orð.

Því miður er ekki hægt að segja hið sama um stjórnmálaástandið hér á landi þar sem harðnandi samkeppni, köld frjálshyggja, hagsmunagæsla og völd valdanna vegna, einkenna stjórnmálin. Framsókn virðist alveg vera búin að kasta kosningaloforðunum um ,,fólkið í fyrirrúmi`` og íhaldinu vex nú fiskur um hrygg á kostnað gilda um jafnrétti og samhjálp og virðingu fyrir mannréttindum allra án tillits til kynferðis, aldurs, efnahags eða andlegs og líkamlegs atgervis. Menntakerfið er vanrækt, þrátt fyrir góðærið, sem birtist áþreifanlegast í lágum launum kennara, allt frá leikskólum til háskóla. Stöðugt er þrengt að velferðarkerfinu, bæði heilbrigðis- og tryggingakerfinu svo og að verkalýðshreyfingunni. Síðasta atlagan að lífeyrissjóðum landsmanna gefur vísbendingar um næstu skref þessarar ríkisstjórnar. Atvinnustefnan með áherslu á mengandi stóriðju er stórhættuleg fyrir ímynd landsins og vistvænar atvinnugreinar, ekki síst vegna þess að slegið er af mengunarkröfum og staðsetning stóriðjunnar er vanhugsuð. Þó að efnahagsástandið sé með betra móti þar sem góðæri hefur verið til sjávar fer afraksturinn í vaxandi mæli til sægreifa og fjármagnseigenda en síður til almennings eða verkafólks.

Nýafstaðnir kjarasamningar hafa fært fólki kjarabætur en verkafólk á Vestfjörðum þarf að heyja langt verkfall til að ná fram kröfunni um 100 þúsund kr. á mánuði á meðan milljónamæringunum fjölgar á öðrum sviðum samfélagsins.

Þetta er samfélag sem í vaxandi mæli einkennist af völdum fjármagnsins yfir þeim sem enn eygja von um gulleplin eftirsóttu og hinum sem eiga fullt í fangi með sig og sína í viðvarandi atvinnuleysi og æ aðþrengdara velferðarkerfi.

Starfið á Alþingi hefur verið annasamt að undanförnu og í skjóli nætur er reynt að styrkja enn frekar stöðu kvóta- og fjármagnseigenda, nú síðast með því að heimila veðsetningu á aflaheimildum með skipi.

Við stjórnarandstæðingar náum ekki mörgum málum hér fram en ég tel þó að við höfum margvísleg áhrif og höfum t.d. komið því til leiðar að afgreiðsla á umdeildu frv. um háskólastigið var frestað til næsta þings. Sömuleiðis höfðum við áhrif á það að samþykkt var í dag að hækka sjálfræðisaldur barna í 18 ár enda höfum við Jóhanna Sigurðardóttir flutt frumvörp um slíkt á tveimur þingum. Þetta sýnir okkur að lýðræðið getur verið virkt þó að vissulega séu mörg dæmi þess að stjórnarflokkarnir keyri umdeild mál í gegn með offorsi og neiti að taka þingmannatillögur á dagskrá. Slík urðu t.d. örlög tillögu minnar um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni þrátt fyrir lofsamlegar umsagnir. Þessi vinnubrögð þingsins þarf að bæta.

Herra forseti. Á nýafstaðinni ráðstefnu stjórnarandstöðuflokkanna um mennta-, fjölskyldu- og velferðarmál var dregin fram skýr mynd af þeim þjóðfélagsbreytingum sem nú eru að eiga sér stað. Af upplýsingaþjóðfélaginu þar sem þekking og menntun verður það sem skilur á milli farrýma. Bent var á að gjáin á milli þeirra sem eru á fyrsta og öðru farrými fjármagnseigenda og þeirra sem ná tökum á tækninni annars vegar og hinna sem sitja eftir á þriðja farrými hins vegar, mun breikka nema markvisst verði unnið gegn því með bættri menntun fyrir alla og bættu velferðarkerfi. Það þarf nýjar áherslur í stjórnmálum sem gera jafnréttissjónarmiðin skynsamleg og hagkvæmnisáherslurnar manneskjulegar.

Áðurnefnd ráðstefna var liður í formlegu samstarfi stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi sem Kvennalistinn hefur ákveðið að taka þátt í hvað sem síðar verður. Ráðstefnan var hin fróðlegasta og þar mátti skynja eftirvæntingu meðal fundargesta um frekara samstarf þessara flokka. Í pallborðsumræðum kom í ljós að flokkarnir höfðu mismunandi væntingar til ráðstefnunnar. Við kvennalistakonur komum með opnum huga til að sjá hvað væri í pokanum málefnalega og hvort þarna sé hugsanlegur farvegur fyrir hugsjónir okkar um kvenfrelsi, mannréttindi og samábyrgð.

Helgina 3.--4. maí héldum við kvennalistakonur vorþing okkar í Hvalfirði þar sem staðan í stjórnmálunum var rædd. Ítrekuð var hvatning til þátttöku í komandi sveitarstjórnarkosningum og að samtökin legðu áfram áherslu á framboð til Alþingis í því formi sem best þykir henta.

Á ráðstefnu stjórnarandstöðunnar sem haldin var 10. maí fann ég áþreifanlega fyrir frjósemi margbreytileikans. Sú skoðun mín styrktist að við ættum að taka áfram þátt í þessu samstarfi af fullum heilindum og láta á það reyna hvort vilji sé fyrir því að tryggja jafnrétti og framgang kvenna í stjórnmálum og hvort áherslur okkar á kvenfrelsi, markvissar jafnréttisáætlanir, umhverfismál, menntun og á velferðarkerfið fái nægjanlegan hljómgrunn.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég tel að Kvennalistinn geti haft úrslitaáhrif á það að fólk á Íslandi eignist svipaðar vonir og Bretar, vonina um samfélag margbreytileikans þar sem pláss er fyrir alla, konur og karla, unga sem aldna, fólk af öllu landinu, af öllum farrýmum þjóðfélagsins, með allar mögulegar sérþarfir og sérvisku. Slíkt samstarf hefur reynst vel í Reykjavíkurborg og kanna þarf til þrautar hvort nú er sögulegt tækifæri til að gera slíkt hið sama á landsvísu. Að því er ég tilbúin að vinna en niðurstaða Kvennalistans um framtíðina ræðst væntanlega af því hvort þessi leið eða einhver önnur þykir vænlegust til að styrkja stöðu kvenna og feminískar áherslur í íslenskri pólitík. --- Góðar stundir.