Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:51:13 (6538)

1997-05-14 21:51:13# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:51]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Mikill árangur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í efnahagsmálum er staðreynd. Hagur þjóðarbúsins, fyrirtækja og einstaklinga hefur farið batnandi ár frá ári og tryggt Íslandi stöðu meðal þeirra þjóða sem hvað mestum árangri hafa náð. Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1997 bendir til að sú jákvæða þróun haldi áfram á þessu ári. Mikil kaupmáttaraukning er staðreynd. Áfram er hagvöxtur með því besta sem gerist og verðbólga lág. Á sama tíma hefur tekist að afgreiða hallalaus fjárlög og mikilvægt er að svo verði áfram.

Þessi árangur er ekki aðeins mælanlegur í hagstærðum heldur hefur hann nú skilað sér til fólksins í landinu. Í nýafstöðnum kjarasamningum tókst að ná því markmiði en jafnframt að semja til langs tíma. Í þeim samningum tókst einnig að tryggja verulega hækkun lágmarkslauna sem er sérstakt fagnaðarefni. Fyrir janúarsamninga 1995 voru lágmarkslaun rúmlega 43 þús. Nú eru þau 65 þús. kr. og verða í janúar komin í 70 þús. kr., sem þýðir að á þessu þriggja ára tímabili hafa þau hækkað um rúmlega 60%. Kaupmáttaraukning hjá þessum launþegum verður því á tímabilinu rösk 50%. Góðærið hefur því skilað sér þar sem þörfin var mest. Þessu má fyrst og fremst þakka skynsamlegri efnahagsstjórn og sátt á vinnumarkaði.

Á undanförnum árum hefur verið unnið mikið starf á sviði menntamála undir forustu Sjálfstfl. Ein meginforsenda þess að við getum áfram tryggt batnandi hag til framtíðar er öflug menntun sem stenst samanburð við það besta sem við þekkjum. Háskólafrv. sem á sér mjög víðtækan stuðning meðal skóla á háskólastigi verður afgreitt á næsta hausti.

Annar þáttur sem mun varða miklu um framtíð þessarar þjóðar er þróun byggðar í landinu. Á ráðstefnu um byggðaþróun sem haldin var á Akureyri fyrir skömmu kynnti Stefán Ólafsson, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hluta af rannsókn sem unnið hefur verið að á vegum Byggðastofnunar. Vöktu niðurstöður hans mikla athygli. Þar kemur í ljós að menn vanmeta aðstæður á landsbyggðinni á margan hátt. Samgöngur, verðlag, framhaldsskólamenntun og menningarstarfsemi er það sem fólk helst kvartar undan. Við eigum að læra af þessari rannsókn þegar henni er lokið og bregðast við þar sem á bjátar.

En margt er jákvætt og við eigum einnig að halda því á lofti sem vel er gert og fólk er ánægt með. Sérstaka athygli vekur almennt meiri ánægja íbúa landsbyggðarsvæða fram yfir höfuðborgarsvæðið með marga þætti félags-, skóla-, heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Á tímum batnandi grundvallar fyrir atvinnulífið eiga byggðirnar úti um land að geta styrkst. En það tekur tíma fyrir atvinnulíf og einstaklinga að aðlagast breyttum aðstæðum. Það sem einnig veldur miklum áhyggjum er afkoman í landbúnaði. Það þarf að leita lausna til að tryggja afkomu bænda sem hafa einmitt lagt svo drjúgan hlut til þeirrar þjóðarsáttar sem nú er grundvöllur bætts þjóðarhags.

Ein grundvallarstoðin undir eflingu byggðar í landinu er gott menntakerfi. Í heimi hraðfara breytinga verður að gera sér grein fyrir breyttum kröfum ungs fólks hvað varðar aðgengi að námi. Við urðum vitni að þeim gleðilega atburði um síðustu helgi að nýtt verkmenntahús var vígt við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Þannig er verið að styrkja menntakerfið úti um land og fylgja eftir þeim áherslum í framhaldsskólalögunum að verk- og starfsmenntun skuli hafa forgang við uppbyggingu framhaldsskólastigsins.

Við eflingu háskólastigsins hefur það verði nefnt að auknir möguleikar séu á stofnun héraðsháskóla í tengslum við aðra háskóla og framhaldsskóla landshlutanna. Háskólarektorar norðan og sunnan heiða hafa sérstaklega nefnt Austfirði og Vestfirði, þau landsvæði sem lengst eiga að sækja í háskólamenntunina.

Ég er þess fullviss að í þeirri upplýsingabyltingu sem nú er hafin felist mikil tækifæri fyrir landsbyggðina. Ekki aðeins mun nútímaupplýsingatækni tryggja bættan aðgang landsbyggðarfólks að menntun, heldur tryggir hún meiri fjölbreytni í atvinnulífi og eykur þannig líkur á að fólk dvelji áfram í heimabyggð. Það er lífsspursmál fyrir undirstöðuatvinnugreinar okkar að aukin verði þekking innan fyrirtækja og starfsfólkið eigi kost á að mennta sig. Án þekkingar geta fyrirtækin ekki eflst og þróast. Símenntun er í þessu sambandi lykilatriði enda felur hún í sér þann grunn sem öflugt nútímasamfélag hlýtur að byggja á. Í anda þessa hefur núverandi ríkisstjórn mótað stefnu sína í menntamálum. Að þessu þarf áfram að huga og tryggja að öllum einstaklingum í landinu standi til boða fjölbreytt og góð menntun.

Annað stórt framtíðarmál sem unnið hefur verið að á þessu kjörtímabili er jafnrétti kynjanna. Sjálfstfl. lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar að leggja þyrfti áherslu á að vinna gegn launamisrétti kynjanna auk þess sem stuðla þyrfti að almennu jafnrétti kvenna og karla. Við þetta hefur verið staðið. Eitt þeirra markmiða sem ríkisstjórnin setti fram í stjórnarsáttmála sínum var að vinna að jafnréttismálum. Er sú vinna þegar hafin og vel á veg komin á vettvangi margra ráðuneyta. Nýleg yfirlýsing forsrh. um að á þessu kjörtímabili verði stigið fyrsta skrefið í átt til réttar feðra til fæðingarorlofs er einnig í anda þessara áherslna. Jafn réttur karla og kvenna til fæðingarorlofs er markmiðið sem stefnt skal að, enda er það forsenda þess að við getum vænst þess að konur og karlar hafi sömu tækifæri og sama val á vinnumarkaði og í einkalífi. Árangur í þessum mikilvæga málaflokki mun þó ekki einasta nást með áfangasigrum á vettvangi stjórnmálanna. Valdið til að tryggja raunverulegt jafnrétti kynjanna er miklu fremur í höndum okkar allra enda er almenn viðhorfsbreyting forsenda þess að við náum því sameiginlega markmiði okkar.

Góðir áheyrendur. Undangengin ár hafa verið íslensku samfélagi hagstæð. Efnahagsstjórn undanfarinna ára hefur tryggt stöðugleika og þann trausta grunn sem við nú getum byggt framtíð okkar á. --- Góðar stundir.