Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 22:17:49 (6542)

1997-05-14 22:17:49# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, JBH
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[22:17]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Stjórnmál snúast ekki bara um krónur og aura, skatta og skyldur, þau snúast líka um vonir okkar, væntingar og drauma.

Þess vegna geta stjórnmál þegar best lætur verið skapandi starf, jafnvel verðugt viðfangsefni. Það gerist einkum þegar tregðulögmál íhaldsseminnar neyðist til að láta undan síga fyrir áreiti nýrra hugmynda. Þá er tími til að skapa.

En þegar verst lætur geta stjórnmálin snúist upp í hráskinnsleik sérhagsmuna einna, hugmyndasnautt þrátefli á markaðstorgi hégómans þar sem tekist er á um völd og vegtyllur, valdanna vegna. Stjórnmál í viðjum vanahugsunar verða að lokum hvimleitt stagl, síbylja endurtekningarinnar án vona, án framtíðarsýnar.

Ef við viljum að bestu synir og dætur okkar fámennu þjóðar fáist til þess að líta á stjórnmál sem verðugt viðfangsefni í framtíðinni, verður margt að breytast vegna þess að við búum við úrelt stjórnmálakerfi sem viðheldur að ýmsu leyti úreltu stjórnkerfi og óæskilegum venslum stjórnmála- og viðskiptavalds. Hvað á ég við?

Ég á t.d. við kosningakerfi sem stenst ekki þá grundvallarkröfu mannréttinda í lýðræðisþjóðfélagi að tryggja öllum þegnum jafnan atkvæðisrétt.

Ég á við kjördæmaskipan, sem elur kerfisbundið á héraðaríg og hagsmunapoti á kostnað almannahagsmuna.

Ég á við flokkakerfi, sem er arfleifð liðins tíma, sem endurspeglar ekki lengur skoðanamyndun og hagsmuni almennings, sem viðheldur valdakerfi fjársterkra sérhagsmunahópa en sundrar kröftum þeirra sem eiga að vera málsvarar almannahagsmuna.

Þetta er lýðræði í lamasessi. Það býður oft ekki upp á annað en málamiðlanir um óbreytt ástand. Það synjar kjósendum um skýra valkosti. Það sviptir ungu kynslóðina í landinu von um framgang knýjandi umbótamála. Það er úrelt og það er staðnað.

Ég nefni þrjú dæmi af mörgum því til staðfestingar. Áratugum saman hefur fámennur minni hluti kúgað meiri hlutann til að framlengja ónýtt ráðstjórnarkerfi í landbúnaði sem hefur haldið niðri lífskjörum þjóðarinnar og leitt sára fátækt yfir meiri hluta bænda.

Áratugum saman hefur verið komið í veg fyrir að vinnandi fólk geti sameinast á vinnustöðum sínum til að semja um kaup og kjör í samræmi við afkomu og greiðslugetu fyrirtækjanna.

Síðastliðinn áratug hefur fámennur minnihlutahópur, með sterk ítök í forustu beggja stjórnarflokkanna, komið í veg fyrir að þjóðin fái notið arðsins af helstu auðsuppsprettu sinni, arðinum sem hlýst af einkaleyfi fámenns hóps til að nýta fiskimiðin í eigu þjóðarinnar.

Í öllum þessum þremur dæmum, sem eru bara fá af mörgum, um óleyst vandamál, sem kalla á lausnir, er það minni hlutinn sem kúgar meiri hlutann. Lýðræðið virkar ekki. Það er í lamasessi. Úrelt flokkakerfi er farið að standa okkur fyrir þrifum.

Herra forseti. Þrátt fyrir lífsseiglu tregðulögmálsins getur enginn sanngjarn maður neitað því að margt hefur þokast í rétta átt í þjóðfélagi okkar ef við lítum til baka á sl. áratug. Þá háðum við erfiða varnarbaráttu við öndverð ytri skilyrði og við náðum býsna góðum árangri á mörgum sviðum. Lág verðbólga, rétt skráð gengi, lækkun skatta á fyrirtækjum í því skyni að stemma stigu við vaxandi atvinnuleysi. Atvinnulífið kom út úr kórnum heilbrigðara en það var fyrir. Þetta er árangur sem vert er að minnast þótt við brosum sum hver þegar aðaltalsmaður Framsfl. í þessum umræðum, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, hefur kokhreysti til að þakka sér og Framsfl. árangurinn.

En vandamálin, sem nú er við að fást, eru allt annars eðlis en var á erfiðleikaárunum. Vandamál snúast nú fyrst og fremst um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu við hagvaxtarskilyrði, um afleiðingar sívaxandi misskiptingar arðs og tekna, um lág laun og ranglátt skattkerfi, um kuldalegan aðbúnað að barnafjölskyldum, um fjársvelti menntakerfisins og heilbrigðisþjónustunnar, um öfugsnúna kynslóðareikninga, um vaxandi græðgi forréttindahópa og skort á félagslegri samstöðu og samábyrgð.

Reynslan af starfi núverandi ríkisstjórnar sýnir að ekkert af þessum vandamálum verður leyst fyrir atbeina núverandi stjórnarflokka.

Herra forseti. Undir sléttu og felldu yfirborði vanahugsunar og sjálfsánægju ríkjandi valdakerfis finnum við, ef við leitum og leggjum við hlustir, vaxandi gerjun nýrra hugmynda og pólitískrar nýsköpunar sem bíður færis að ryðja sér braut upp á yfirborðið.

Við jafnaðarmenn deilum ekki um kosti markaðsbúskapar og samkeppni. Þvert á móti. Við þurfum að virkja krafta samkeppninnar í þágu almennings, til þess að ryðja burt rótgrónum sérhagsmunaöflum sem skara eld að eigin köku í skjóli pólitísks helmingaskiptavalds.

En við deilum sameiginlegum áhyggjum okkar af alkalískemmdum og sprungumyndunum á burðarvirkjum velferðarþjóðfélagsins sem smám saman eru að koma í ljós. Við deilum áhyggjum af gjánni sem hv. þm. Kvennalistans vék að, sem fer breikkandi, milli þeirra sem ferðast á fyrsta farrými og hinna, sem smám saman eru að heltast úr lestinni og sitja eftir í fátæktargildru lágra launa, einhæfra starfa, rangláts skattkerfis og þröngra kosta, sem útilokar þá frá að vinna sig frá skuldum að hefðbundnum íslenskum sið.

Þetta á ekki hvað síst við um kynslóðina með klafann, ungu barnafjölskyldurnar sem borga skattana og greiða af námsskuldunum en teljast vart greiðslumatshæfar á húsnæðismarkaðnum og sæta skertum barna- og vaxtabótum.

Hlutverk jafnaðarmanna hér á landi sem annars staðar er að standa vörð um almannahag gegn sérhagsmunum. Það er okkar að byggja brýr yfir gjár vaxandi ójafnaðar og misréttis í samstarfi við verkalýðs- og launþegahreyfinguna. Af því að við viljum búa í þjóðfélagi þar sem arðinum af sameiginlegu striti þjóðarinnar er skipt í samræmi við siðferðismat siðaðs fólks um jöfnuð, réttlæti og samábyrgð. Við jafnaðarmenn vitum að í hjarta sínu er meiri hluti íslensku þjóðarinnar sammála okkur um þetta gildismat.