Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 22:25:12 (6543)

1997-05-14 22:25:12# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, EOK
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[22:25]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Við höfum nú heyrt nokkrar ræður stjórnarandstöðunnar. Eins og við var að búast hefur það gengið þannig fram að það er helst gagnrýnisvert eins og venjulega að ekki er nóg eytt af hálfu ríkisins. Það vantar meira í menntamál, það vantar meira í heilbrigðismál, það vantar meira í velferðarmál o.s.frv. Þetta er hinn venjulegi söngur sem kemur engum á óvart. En í hinu orðinu er verið að berjast fyrir bættum lífskjörum fólks í landinu. Þetta heitir lýðskrum á íslensku. Allir eiga að vita að leiðin til bættra lífskjara og sú trygging sem við eigum helsta fyrir lífskjörum einstaklinganna er hallalaus fjárlög. Það er besta tryggingin og það hefur tekist hjá þessari ríkisstjórn. Hallalaus fjárlög og meira en það. Núna er verið að samþykkja ný lög, nýjar áætlanir um lækkun tekjuskatta næstu árin. Það er framlag þessarar ríkisstjórnar til þeirrar sáttar sem var á vinnumarkaði. Þeirrar sáttar sem mun leiða til áframhaldandi hagvaxtar, áframhaldandi bættra lífskjara, bættra raunlauna, bætts kaupmáttar.

Hvað sem menn segja um stöðu einstaklinganna í þjóðfélaginu þá verður ekki á móti því mælt að kjör fólks á Íslandi hafa á undanförnum árum batnað meira en nokkurs staðar hér í nágrenninu. Batnað helmingi meira en meðaltalið hjá OECD. Allar mælingar sýna það og enginn þrætir fyrir það. Þetta er árangur. En á sama tíma koma fulltrúar stjórnarandstöðunnar og kvarta yfir og formæla þeim markaðsöflum sem óheft séu látin geysa hér um grundir.

Hverju er það að þakka að við erum að ná árangri í efnahagsmálu? Það er þessum markaðsöflum af því að við höfum haft þá farsæld að láta markaðsöflin ráða, það er markaðsþjóðfélagið sem er í öndvegi með frjálsa verslun, með frjálsa verðmyndun í atvinnulífinu, með samkeppni sem tryggir framfarirnar, sem tryggir um leið jafnræði og það jafnvægi sem við þurfum á að halda. Þetta höfum við Íslendingar verið að gera eins og margar aðrar þjóðir Vestur-Evrópu, einmitt þær þjóðir sem hafa náð mestum og bestum árangri til að bæta sín lífskjör. Það er þetta sem við höfum gert. Hér kemur svo stjórnarandstaðan og er helst á móti því. Sjálfstfl. hefur einmitt staðið fyrir markaðssamfélaginu allt frá upphafi frá því hann var stofnaður fyrir 70 árum og hann hefur ekki breytt um stefnu, hann hefur ekki þurft að henda gömlu stefnunni sinni, er enn þá með hana óbreytta. (Gripið fram í: Þvílík sagnfræði.) Þetta er mikil og góð sagnfræði vegna þess að hann hefur þó aldrei verið í betri stöðu en einmitt núna til þess að beita sér af alefli fyrir því að samfélagið geti vaxið og þroskast einmitt vegna þess að núna er þessi hreyfing að ganga yfir alla Vestur-Evrópu. Samkeppnin er að aukast, menn eru að vita og skilja að það er frelsi í viðskiptum sem er lykillinn að velferð fólksins. Var þó áðan látið að því liggja að í einhverjum löndum væru menn hættir við samkeppni. Ekki var sagt hvar það væri og væri fróðlegt að frétta það.

Það var líka látið að því liggja hér í umræðunni að ýmislegt annað væri að gerast. Það væru yndislegar fréttir frá Englandi, þar eru meira að segja samkynhneigðir komnir til valda og mér skildist einhvern veginn að það væri nú munur miðað við suma. Voru þó engin nöfn nefnd. Þannig að það er ýmislegt að frétta.

En núna hefur þetta annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar verið í tvö ár eða sex ára samfelld forusta Sjálfstfl. Það bendir til að þessi síðasti áratugur verði einhver lengsti samfelldi hagsældartími þessarar aldar. Við skulum vona að það gangi eftir sem allar spár benda til að svo verði það sem eftir er þessarar aldar. Það bendir allt til þess nema eitthvað óvænt komi fyrir. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, það virðist vera sem sumum líki það ekki, þá eru kjör Íslendinga á hraðri leið upp á við, það er meiri kaupmáttur. Svo koma menn hér og segja: Hvað gerir þessi ríkisstjórn fyrir fjölskylduna? Ég hélt að þetta samanstæði allt af fólki, fjölskyldurnar hljóta að vera fólk. Er fjölskyldan eitthvað öðruvísi en þegnarnir í þjóðfélaginu? Ég skil þetta ekki. Ég hef nú ekki alltaf skilið þær ræður sem hér eru fluttar.

Það er þannig að við erum á þennan veg að tryggja þá framtíð sem við viljum sjá. Það er þannig sem við viljum sjá Ísland, þetta farsældar frón, sem við þráum öll og viljum byggja og efla. Það er svona sem við viljum sjá það, við treystum því og trúum að með því að standa svona að verki munum við geta í upphafi nýrrar aldar verið í forustu þeirra þjóða sem best hafa kjör í heiminum. --- Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.