Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 22:31:23 (6544)

1997-05-14 22:31:23# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SvG
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[22:31]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er greinileg samstaða um það miðað við upphaf ræðuhalda hér í kvöld aftur og aftur að það vorar. Enn þá einu sinni birtist eldhúsdagur sjónvarpsáhorfendum og þingið hefur ekki sætt stórum tíðindum í vetur fyrst og fremst vegna þess að við höfum búið við frekar dauflynda ríkisstjórn.

Á fyrsta degi þessa þings lögðum við í þingflokki Alþb. og óháðra fram um 20 þingmál sem öll beindust að því marki sem við höfum aðallega unnið að í vetur, að treysta velferðarkerfið, stuðla að jafnrétti, treysta byggð í landinu og að stuðla að atvinnulegri uppbyggingu í jákvæðu og góðu umhverfi. Þingflokkur Alþb. og óháðra hefur með öðrum orðum lagt áherslu á að byggja upp heildstæðar stjórnmálatillögur og er greinilegt af þeim undirtektum sem við höfum fengið í vetur að þær tillögur hafa vakið athygli og áhuga. Þarna birtast grundvallaratriði okkar og stjórnmál snúast einmitt um að setja skýrt fram pólitísk grundvallaratriði sem skapa forsendur fyrir tillögum um breytingar þegar aðstæða verður til. Flokkar sem gefa kjósendum fyrirheit eru síðan bundnir þeim kjósendum drengskaparböndum og drengskaparheit á að halda. Stjórnmálastarf snýst nefnilega líka um einfaldan og gamaldags heiðarleika og framkoma stjórnmálamanna við kosningaloforðin er siðferðilegur mælikvarði sem unnt er að bregða á hvern mann. Sá sem stendur ekki með sjálfum sér verður aldrei trúverðugur stjórnmálamaður.

Herra forseti. Nú á miðju kjörtímabili er tími til að líta fram á veginn og gera upp liðin tvö ár. Það verður að segja eins og er að Sjálfstfl. hefur að mestu leyti ráðið ferðinni eins og fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Framsókn hefur þá helst fengið að ráða úrslitum að hún hafi gengið lengra en ýtrasta stefna Sjálfstfl. Fram undan eru svo sveitarstjórnarkosningarnar vorið 1998. Þá verða einnig pólitísk átök sem beinast munu gegn hinni kaldrifjuðu stjórnarstefnu peningahyggjunnar. Vorið 1999 verða svo alþingiskosningar í síðasta lagi. Þá verða úrslitin ráðin. Inn í þá mynd eru þingflokkarnir þegar farnir að tefla fram þeim málum sem kosið verður um. Í því uppgjöri teljum við að menn hljóti að setja fram kröfuna um afnám sjúklingaskattanna, um nýja stefnu í málefnum aldraðra og öryrkja, um víðtæka jafnréttisstefnu og kvenfrelsi í nýjum félagslegum sáttmála um réttlæti á Íslandi. Hluti þessa uppgjörs verður að vera ný skattastefna í þágu barnafólks og stefna í húsnæðismálum sem tryggir unga fólkinu öruggt húsnæði en unga fólkið á Íslandi er nú á götunni. Hluti þessa uppgjörs verður að vera ný framtíðarsýn í menntamálum og menningarmálum í stað stöðnunar og fallskatta Björns Bjarnasonar og þar sem skerðingu á sjálfstæði háskólanna verður hafnað.

En fleira verður að koma til. Við hljótum að krefjast þess að tekin verði upp framsækin atvinnustefna, jákvæð og bjartsýn, sem byggist á hugviti og menningu. Við höfnum með öðrum orðum gamaldags stóriðjustefnu Finns Ingólfssonar sem minnir mest á þungaiðnaðarstefnu kreppuáranna í Sovétríkjunum gömlu. Við höfnum atvinnuleysi þúsundanna. Við flytjum róttæka stefnu í umhverfismálum hingað inn á borð Alþingis en þar höfum við flutt ótal þingmál í vetur eins og oft áður.

Ný róttæk stefna í umhverfismálum er einnig óhjákvæmileg forsenda, undirstaða í uppgjöri framtíðarinnar. Inni í þessu uppgjöri verður að birtast krafa um opið þjóðfélag, stjórnkerfi gegn spillingu, þjóðfélag þar sem frelsi einstaklingsins andspænis sameinuðu ofurvaldi ríkis og stórfyrirtækja er tryggt. Við viljum stefnu sem tryggir landsmönnum öllum, hvar sem þeir búa á landinu, eðlilegan aðgang að stjórnkerfinu og gæðum þess, m.a. að heilbrigðisþjónustunni og að menntastofnunum landsins.

En við erum ekki ein í heiminum og inni í þessu uppgjöri framtíðarinnar verður líka krafan um utanríkisstefnu sem tekur mið af hagsmunum þjóðarinnar sjálfrar og hagsmunum heimsins alls. Aðild okkar að forréttindaklúbbi Vesturlanda er ekki á dagskrá.

Allt er þetta hluti af þeirri framtíðarsýn sem við höfum sett fram og birtist m.a. í þingmálum okkar hér í vetur. Öll mál sem fjallað er um í þessum gamla sal eru hluti af stefnu. Það er sama hvort fjallað er um sjávarútvegsmál, álver, LÍN eða heilsugæslu, allt myndar þetta heildarstefnu. Í þeirri stefnu sem við höfum lagt áherslu á er um að ræða trúverðug atriði. Þar fer saman heiðarlegt samhengi orða og athafna.

Góðir hlustendur. Pólitík er nefnilega spurning um trúverðugleika. Það er ekki trúverðugt að segja eitt í dag en gera annað á morgun. Framsfl. er nú að taka þá veiki sem sótti á Alþfl. á síðasta kjörtímabili. Fjórði hver kjósandi Framsfl. í síðustu alþingiskosningum hefur nú yfirgefið flokkinn. Þessi staðreynd verður vonandi til þess að kenna Framsfl. og öðrum hæfilega lexíu. Alþb. hefur skilað í skoðanakönnunum hærri tölum að undanförnu en nokkru sinni fyrr í svo langan tíma. Það er sterk staða til átaka fyrir málstað okkar, hugsjónir um jafnrétti og frelsi, sjálfstæði þjóðarinnar, og til að taka þátt í því að skapa víðtæka samstöðu um nýja sýn til tuttugustu og fyrstu aldarinnar gegn afturhaldsöflunum, ekki til að þjóna þeim heldur til að sigra þau. --- Gleðilegt sumar.