Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 10:15:52 (6553)

1997-05-15 10:15:52# 121. lþ. 127.1 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÓÞÞ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[10:15]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til atkvæða orðrétt úr stjórnarskránni það sem fjallar um heimildir til útgreiðslu á fjármunum. Ef þessi grein hefði verið felld undir réttum texta, þ.e. að það hefði verið tilkynnt sem breyting á stjórnarskránni, þá hefði átt að rjúfa þing og efna til kosninga. Það vilja stjórnarandstæðingar greinilega ekki, en stjórnarsinnar að sjálfsögðu flestir hamast nú gegn því og við skiljum það.

Ég vek athygli á þessu hvort sem tillagan verður felld eða ekki, þá gilda ákvæði stjórnarskrárinnar og drottna yfir öllum öðrum lögum eins og þau hafa gert til þessa og Alþingi Íslendinga gerir sig aðeins að þeim ómerkingi að samþykkja lög sem ekki standast stjórnarskrána.