Samningsveð

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 10:36:29 (6565)

1997-05-15 10:36:29# 121. lþ. 127.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[10:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Meðferð þessa máls hvað varðar veðsetningu eða ekki veðsetningu veiðiheimilda hefur verið eitt klúður frá upphafi, bæði hjá fyrrv. og núv. ríkisstjórn. Það hefði aldrei átt að taka upp í frv. nein ákvæði sem heimiluðu eða ekki heimiluðu til eða frá veðsetningu veiðiréttar. Það fyrirkomulag sem í gildi hefur verið hefði sem best mátt halda áfram.

Af þeim kostum sem nú eru í boði er sá skástur að fella niður þennan umdeilda málslið og láta að því leyti óbreytt ástand ríkja. Það að samþykkja þetta frv. eins og það er sem bannar í orði kveðnu veðsetningu veiðiréttar í einni setningu, en leyfir hana síðan í þeirri næstu og gerir reyndar meira. Lögfestir allan veiðirétt á fiskiskipum sjálfkrafa sem veð fyrir hverri krónu sem út á þau er lánuð. Það er skrípaleikur í lagasetningu. Það er fáránleg efnisleg niðurstaða og Alþingi til skammar að ganga þannig frá málinu.

Ég tel því skásta kostinn þann, herra forseti, að fella þennan málslið niður og segi já.