Samningsveð

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 10:50:53 (6574)

1997-05-15 10:50:53# 121. lþ. 127.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SighB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[10:50]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan að með þeirri afgreiðslu sem fer fram í dag sé verið að tryggja hagsmuni lánardrottna betur en gert hefði verið. Í þeim orðum liggur viðurkenning á því að verið er að gera þetta með því að heimila veðsetningu aflaheimilda. Ég hins vegar undra mig á skammsýni hv. þingmanna. Gera þeir sér ekki ljóst að við lifum nú í frjálsu viðskiptaumhverfi? Með því að heimila veðsetningu aflaheimilda, eins og hér er gert, er verið að heimila erlendum lánardrottnum íslenskra útgerðarfyrirtækja að taka veð í aflaheimildum, þ.e. í sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þetta gera þeir þingmenn sem á sama tíma hafna því að þjóðin sjálf fái að njóta eyris virðis af þessari sameiginlegu auðlind.

Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum á að vera að endurskoða þessa grein þar sem verið er að færa erlendum lánardrottnum möguleika á að taka veð í verðmætustu auðlind íslensku þjóðarinnar. Ég segi að sjálfsögðu nei.