Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 11:14:20 (6579)

1997-05-15 11:14:20# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[11:14]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta landbn. Ég vil fyrsta segja um það frv. sem hér liggur fyrir um búnaðargjald að verði það að lögum mun það spara vinnu hjá milliliðum og framleiðsluráði og gera búnaðargjaldið sýnilegra þeim sem greiða til Stofnlánadeildar og félagskerfis landbúnaðarins. Að því leyti er hér um mál að ræða sem sparar peninga og gerir hlutina sýnilegri.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi, ef ég hleyp á helstu atriðum.

Lögð er til breyting á síðari málslið 2. gr. varðandi það hverjir teljist undanþegnir gjaldskyldu. Í frumvarpinu eins og það var lagt fram er gert ráð fyrir að þeir búvöruframleiðendur verði undanþegnir greiðslu búnaðargjalds sem hafa skattskylda veltu undir 212.900 kr. á ári. Hagkvæmara þykir við framkvæmd laganna að miða við að þeir búvöruframleiðendur verði gjaldskyldir sem eru og eiga að vera virðisaukaskattsskyldir. Því er lagt til að þeir verði undanþegnir búvörugjaldi sem hvorki eru skráningarskyldir né á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila. Þetta auðveldar bæði framkvæmd og eftirlit og meiri festa verður í skrá yfir gjaldskylda aðila.

Breytingartillaga við 3. gr., sem fjallar um gjaldstofn búnaðargjalds, miðar að því að lagfæra tilvísanir í lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og gera greinina skýrari.

Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að staðgreiðslu búnaðargjalds sé skilað á reglulegum gjalddögum virðisaukaskatts. Í 1. mgr. 33. gr. laga um virðisaukaskatt er heimild til handa þeim sem stunda landbúnað til að fara fram á aukauppgjör á virðisaukaskatti. Þeir sem það kjósa gera þá jafnan upp útskatt af skattskyldri veltu samhliða kröfu um endurgreiðslu á innskatti. Lagt er til að 4. gr. verði breytt þannig að miðað verði við slíkt aukauppgjör í sambandi við skil á búnaðargjaldi. Þetta þykir betri aðferð þar sem annars getur orðið ósamræmi á milli virðisaukaskattsskila og skila á búnaðargjaldi, gjaldandanum til óþæginda.

Lagt er til að við 5. gr., er fjallar um innheimtu búnaðargjalds, bætist heimild fyrir skattstjóra til að leggja sérstakt 20% vanskilaálag á vangoldið búnaðargjald þegar álagning þinggjalda fer fram. Álagið ásamt því sem vangoldið er verði síðan innheimt á þeim gjalddögum þinggjalda sem eftir eru á árinu. Álagið er ákvarðað nokkuð hátt til að tryggja sem best skil á búnaðargjaldi. Þá er lagt til að um endurgreiðslu ofgreidds búnaðargjalds fari eftir 112. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Ein mikilvægasta breytingartillaga nefndarinnar varðar 6. gr. frumvarpsins, sem fjallar um hvernig tekjum af búnaðargjaldi skuli skipt. Lagt er til að ráðstöfun tekna af búnaðargjaldi verði lögbundin. Til að gera það framkvæmanlegt er lagt til að birtur verði viðauki við lögin þar sem nánari skipting á milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda, búgreinasamtaka og Bjargráðasjóðs er sundurliðuð. Þá kemur einnig fram í viðaukanum skipting gjaldsins á milli Lánasjóðs landbúnaðarins og Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða I til samræmis við þá breytingu sem lögð er til við 6. gr. og þá breytingu sem meiri hlutinn leggur til að gerð verði við lánasjóðsfrumvarpið um lækkun á neytenda- og jöfnunargjaldi til Stofnlánadeildarinnar það sem eftir er ársins.

Loks er lagt til að bætt verði við ákvæði til bráðabirgða um að fram til ársloka 1999 skuli 1% af óskiptum tekjum búnaðargjalds, í stað 0,5% skv. 4. mgr. 6. gr., renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna. Ljóst er að breytt innheimtufyrirkomulag kallar á nokkurn stofnkostnað í upphafi, svo sem breytingu á hugbúnaði og eyðublaðagerð. Í ljósi þessa þykir rétt að innheimtuþóknun verði árin 1998 og 1999 tvöfalt hærri en lögin kveða á um.

Undir þetta nefndarálit skrifa sex af níu nefndarmönnum, þ.e. auk þess sem hér talar, Guðjón Guðmundsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Magnús Stefánsson, Hjálmar Jónsson, með fyrirvara, og Árni M. Mathiesen.

Breytingartillögurnar fylgja á sérstöku þingskjali og aftan á því þingskjali er tafla sem sýnir skiptingu tekna af búnaðargjaldi.

Ég vil segja um þetta mál að það kom nokkuð seint fram, en mikil vinna hefur verið lögð í það bæði í landbn. og ekki síður meðal samtaka landbúnaðarins. Bændasamtökin hafa staðið fyrir kynningu á þessari miklu breytingu með öllum búgreinafélögum, ég hygg á öllum aðalfundum búnaðarsambanda, og er góð samstaða um þessa breytingu í landbúnaðinum. Hvað skiptinguna varðar sem hér er, hvert tekjurnar skuli renna, hefur náðst alger samstaða á milli búgreinafélaganna og tel ég það mjög mikilvægt því að ég álít að bændur eigi sjálfir að ráða sínum málum og verði sjálfir að taka á og hagræða. Ég og meiri hluti nefndarinnar föllumst því á þær tillögur sem nú er samstaða um í landbúnaðinum.

Framtíðin sker svo úr um hvernig þetta mál þróast. Það er ljóst að þetta er mikið sparnaðarmál í milliliðum í landbúnaði sem krafa hefur verið um lengi. Auðvitað er það sem kannski gæti komið upp á að við vitum að sjóðagjöldin voru tekin af heildsöluverði. Þetta verður hluti afurðaverðsins og ég vona að svo verði áfram og landbúnaðinum til heilla í framtíðinni.

Ég legg til að lokum, hæstv. forseti, að þetta mál verði að lögum á þessu þingi.