Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:15:44 (6586)

1997-05-15 12:15:44# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta GÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:15]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá eru ekki nein tíðindi á ferðinni því að störf nefndarinnar og sú niðurstaða sem liggur fyrir er undirskrifuð af sex af níu nefndarmönnum, þar af eru þrír sjálfstæðismenn, helmingur þeirra sem leggja til að málið verði samþykkt. Það eru engin pólitísk tíðindi að Egill Jónsson sitji nú einn á báti í þessu máli. Hann kaus að hafa það svo og þannig stendur það, því miður. Ég efast ekki um góðan vilja hv. þm. Egils Jónssonar til landbúnaðarins og þekki það. Auðvitað harma ég að hann skyldi verða viðskila við okkur, en í sjálfu sér eru það engin pólitísk tíðindi. Flokkur hans og allir hinir nefndarmenn Sjálfstfl. fylgja nú formanni nefndarinnar og þeim meiri hluta sem leggur þetta mál hér fram. Egill Jónsson fylgir því sannfæringu sinni og samkvæmt þingsköpum hefur hann heimild til þess og ber jafnvel skylda til að gera það þannig að ég virði þá ákvörðun hans og þannig stendur málið.